Sunday, December 28, 2008

Grafíkin er rosaleg

(Ég, Davíð, er hér að ávarpa aðeins hluta lesenda (Ívar, Sveinbjörn og Adda) með eftirfarandi blaðri. Vonandi afsaka aðrir. Ég geri mér grein fyrir því ég ræni stundum þessu felles bloggi okkar undir mitt einka-bull, en það leyfi ég mér í krafti þess að ég er sá sem legg lang mest til bloggsins. Og því að enginn virðist lesa það lengur svo ég leyfi mér bara að gera vottever þí fokk, eins og sagt er. Svo á addi afmæli.)

Það kannast allir sem hafa spilað tölvuleiki af staðfestu og elju um margra ára tímabil, við þessar hálfskammarlegu aðstæður: Einhver hefur dregið mann út í raunheiminn, frá tölvuskjánum, kannski uppá fjöll eða niður á strönd í göngutúr. Maður staulast náladofinn og stirður á eftir viðkomandi, pírandi augun mót sólinni. Svo nemur kvalari manns staðar til að draga djúpt og útivistarlega andann. Þá lítur maður fýldur kringum sig og sólin og skýin og himininn og sjórinn og hitt draslið er allt að spila sinfónískt saman. Þá er fyrsta hugsunin: "Vá, góð grafík..."

Og eins og ég sagði, þá þykir manni þetta hálf skömmustulegt. Firrt. Á þessu ferðalagi hefur þetta hent mig margoft, á marga vegu. Um leið hefur mér þótt draga úr skömminni sem fylgir, því stundum er um fallegt, nytsamlegt samspil hins stafræna og raunverulega að ræða. Nokkur Dæmi:

Ýmsar þær upplýsingar sem ég hafði um Hittíta á ferð okkar um Tyrkland, hafði ég beint úr Civilization, leik sem ég spilaði fyrst með pabba mínum 6-7 ára gamall (þar sem við reistum víðfemasta og voldugasta ríki veraldar út frá höfuðborginni Hvolfsvelli).

Eins minnir mig að hið Fönesíska stafróf hafi verið eitt af fyrri markmiðum í Civilization, en elstu þekktu menjar um það sá ég á 5x3 cm steinvölu á þjóðminjasafninu í Damaskus (þessi flís var verðmætasta eign safnsins og yfir mig kom, í allri hreinskilni, mikill heilagleiki).

Talandi um Damaskus, þá fannst mér hinn gamli, UNESCO varðveitti miðbær skringilega kunnuglegur. Um hann hef ég líka hlaupið, húsþökin þá helst, í Assassins Creed sem gerist á krossfarartímum. Turnarnir og virkin voru sérstaklega spot on. (Dæminn um tölvuleikjaþekkingu er varðar Mesópatamíu og fornöldina eru í raun fjölmörg ef út í það er farið: Age of Empires, Prince of Persia, Caesar o.s.frv.)

Í Nepal fórum við í Paragliding og þá varð tölvuleikjasamslátturinn svo skýr að jaðraði við leiftrandi endurlit. Að svífa friðsælt um háloftin var tilfinning sem ég hafði áður kynnst gegnum Pilotwings 64 með honum Sveinbirni mínum (sá leikur er í mörgu tilliti sá besti sem gerður hefur verið).

Á Tælandi voru þverir sandlitir klettar og pálmatré og glitrandi blár sjór. Eins og í Far Cry, þar sem leikjahöfundar smíðuðu algera paradís til þess að hýsa helvíti. Óneitanleg líkindi.

Og núna síðast hef ég þotið um bugðótta Bali-vegi á vespu og viti menn, öll Colin McRae Rally maraþonin komu mér aftur ljóslifandi fyrir hugskotsjónir: Hrísgrjónaakrarnir, trjágöngin og fjöllin í fjarska eru eins og klippt útúr þeim suð-austur-asísku leiðum sem í boði voru (þó auðvitað sé það á hinn veginn). Ég féll ósjálfrátt eins og á teinum í racingline-ið. Það eina sem vantar er rammskoskur aðstoðarbílstjóri í eyrun.

Köfunin kveikir hinsvegar engin sérstök leikja-hugrenningartengsl þó ég hafi margsinnis kafað í sýndarheimum. Sú myndvinnsluvél sem ræður við iðandi liti og form kóralrifs hefur ekki enn verið forrituð (...að því sögðu, þá er friðsældinni sem fylgir því að fljóta þyngdarlaus um blámann ágætlega komið til skila í köfunarhluta MGS2, ef fólk man eftir því yndi...)

Nú mega lesendur koma með tillögur að enn nördalegri færslu, ef einhver er möguleg.

Wednesday, December 24, 2008

Jólastressið


















































































(Köfuðum niður í skipsflak úr fyrri heimstyrjöld. Fórum svo fínt út að borða um kvöldið, en af því eru engar myndir.)

Friday, December 19, 2008

Aðskilnaður

Það er enginn aðskilnaður í skíðlogandi núinu, en hinsvegar bæði í ösku fortíðar og eldivið framtíðarinnar. Sjá:

Við vöknum að morgni 15. Desember og planið er að taka rútu í eftirmiðdaginn, af ströndinni til Bangkok:

Allir nema Nanna: "Bless Tæland, halló Singapore! Vrúúúm!"
Nanna (magaveik): "Ööö ég dey ef ég ferðast núna..." (Ælir til sannfæringar).
Halldóra (enn ógangfær): "Ööö ég dey úr leiðindum ef ég eyði enn öðrum degi í "klifurparadísinni" Ton Sai. Ég vil borg og bíó og malbik og fokdýrt Cafe Latte úr pappamáli."

Úr verður að Halldóra, sem hefur eytt 7 dögum meira eða minna mókandi þjáð inní bambuskofa á meðan ferðafélagar hennar ýmist klifra, synda, kafa og drekka sig mökkölvaða á strandbörum, fer til Bangkok í fylgd með Davíð. Davíð þykir ekkert sárt að yfirgefa Ton Sai, því þó hann sé auðveldlega hæfasti klifrari hópsins þá er hann bæði líf- og lofthræddur og hefur þar af leiðandi takmarkað gaman af, auk þess sem hann drekkur ekki áfengi frekar en hann þérar þjónustulýð. Þriðja, og mögulega veigamesta ástæða þess að hann er brottförinni feginn, er að hann hefur orðið fyrir hégómlegu klofsparki og engist um í minnimáttarlosti; nánast allir karlmenn á ströndinni bera þess merki að vera þrautþjálfaðir klettaklifrarar þegar þeir bera á sér bringuna, svo beinaber gráneskja Davíðs þolir engan samanburð.

Nanna hinsvegar verður eftir í klettadýrðinni ásamt Áu, særandi út nýjustu pestina með svita, og heldur til Singapore með rútu tveim dögum seinna. Áa er aukadögunum fegin, því hún er svo fránumin af fegurð Railay skagans að hún kýs að lýsa ástandinu sem samfelldri, sjónrænni raðfullnægingu. Þar að auki gerði hún sér vonir um að framlengingin leyfði ævintýralega Kajaka-ferð þar sem klifrað yrði án öryggisbúnaðar út yfir djúpum sjó. Þriðja, og mögulega veigamesta ástæða þess að hún er umframtímanum fegin, er að nánast allir karlmenn á ströndinni bera þess merki að vera þrautþjálfaðir klettaklifrarar þegar þeir bera á sér bringuna.

Ferndin varð sumsé tvenndir í þrjá langa daga en hefur nú runnið saman á ný eins og spenntar greipar í hátíðaranda og samhljóm á jólaskreyttum götum Singapore. Þær skreytingar eru að vísu af mörgu tagi:

Ferð Davíðs og Halldóru til borgríkisins var ekki hnökralaus; fluginu var frestað um tólf tíma, sem olli því að þau komu þreytt og velkt seint um nótt. Þá áttu þau enn eftir að bóka hótel. Eftir að hafa ráðfært sig við ferðamannabækling var hringt í nokkur af tilgreindum "budget" hotelum. Loks svaraði einhver og upplýsti með ill-skiljanlegum semingi að nóttin kostaði 40 Singapore dollara fyrir tvo. Það varð að duga, útí leigubíl og af stað.

Þegar bíllinn nálgaðist hverfið mátti sjá þar væri töluvert partístand. Uppáklæddar gellur í djammgöllum voru á hverju strái. Tíðni þeirra fór sívaxandi. Að lokum mátti hvergi sjá í gangstéttarbrúnina fyrir háum hælum og netasokkabuxum... "aaahh, þannig" sögðu Davíð og Halldóra, og veltu um leið fyrir sér hvort hlutföll framboðs og eftirspurnar væru ekki í hróplegu ósamræmi: hér gaf að líta hátt í hundrað vændiskonur á eins og einum gatnamótum. Og "budget" hótelin, sem voru mörg, báru kindug nöfn; Blossom, Happy Hotel, Gay World... Davíð fór stórkostlega hjá sér, en Halldóra vildi bara komast með höfuðið á kodda og tók haltrandi á hækjum af skarið, upp tröppur Oxley Blossom hótelsins, höfðinu hærri en hórustraumurinn alltumlykjandi. Maðurinn í móttökunni vildi hinsvegar ekki kannast við að þar væru nein laus herbergi, ekki svona til lengri tíma. Þau veifuðu í nýjan leigubíl.

Hvað um það, nú eru ferðafélagarnir allir sameinaðir á ný á þessum skrýtna stað, Singapore, sem er lýst ástúðlega af heimamönnum sem "heimsins stærsta molli". Vísindaskáldsagnahöfundurinn William Gibson kallaði staðinn hinsvegar "Disneyland með dauðarefsingu" og báðar lýsingar eru nokk nákvæmar; hér eru allar jarðhæðir verslanir og allt er sérsniðið undir aðkomumenn en skringilega snyrtileg götumyndin ber merki um einhverja dimma undiröldu, eins og hluta hreingerningaræðisins hafi blætt inn á hin huglægu svið tilverunnar... En hér er frábært að versla, sötrandi frappochino milli sushi-bita, engin spurning.

ATH!: Senn líður hinsvegar að óvæntum aðskilnaði á ný, og ég vona að færslan hafi ekki verið svo ömurlega löng að fólk fari á mis við þetta aðalefni hennar: Fæturnir á Halldóru hafi verið í síauknu hassi allt síðan hún snéri ökkla á leið til Nepal. Nýjast greiningin er sú hún þjáist af liðbólgum sem eru fylgifiskur magapestar. Bæði hnén, ökklarnir og ný síðast mjaðmaliðirnir eru stokkbólgnir og ósamvinnuþýðir. Öll hennar tælandsdvöl hefur verið mörkuð þessum meiðslum og bæði ferðalög og athafnir afar erfið viðureignar. Hún getur ekki sofið á nóttinni fyrir verkjum svo dagarnir líða í þreyttu verkjalyfja móki, sem skemmir jafnvel sólbaðsmöguleikann. Því hefur hún ákveðið að flýta heimför og reyna að komast í íslenska jólasteik, í stað þess að eyða jólunum farlama á illa þrifnu hótelherbergi á Bali á meðan vinir hennar tækju dagsferðir um eyjuna.

Ég tel að þetta sé í fyrsta sinn sem halli á okkur íbúa far-away-istan í samskiptum við lesendur: Þið fáið dúndur jólapakka en við sitjum eftir snauð. Til hamingju þið, en djöfull er þetta skítt.

Thursday, December 11, 2008

Lítil hetjusaga

Þá erum við loksins búin að yfirgefa agnarsmáu paradísarköfunareyjuna okkar (eða köfunarhelvítispyttinn eins og non kafararnir í hópnum kusu að kalla hana, ástúðlega.) Haldandi að Ko Tao yrði ekki toppuð brá okkur frekar mikið í brún þegar við sigldum inn í litlu klettavíkina hérna í Railay á vestur Tælandi. Siglingin var eins og að komast inn í aðra vídd, himinháir gróðurklettar í allar áttir og nei, Dísa, ekkert photoshop rugl hér.

Ég komst einnig í aðra vídd heilsufarslega séð á meðan siglingunni stóð, en dyrnar að helvíti opnuðust í sirka tvo tíma og héldu mér í sjóveikisheljargreipum. Þar sem ég lá ælandi og svitnandi og skjálfandi í stólnum mínum gerðist hins vegar alveg magnaður hlutur.

Ungur herramaður sem starfaði sem ferjuþjónn um borð, kom að mér og hljóðlaust tók utan um mig og bar mig og töskuna mína aftast í bátinn þar sem ruggið var minna og lagði mig pent niður á gólfið og settist hjá mér. Þá næst gaf hann mér ilmolíudropa sem hann nuddaði á gagnaugun og á hálsinn, lét mig lykta af andsjóveikisilmsöltum á kortersfresti, vék ekki frá mér alla ferðina í land og taldi niður mínúturnar þangað til henni lyki fyrir mig. Hetjan nuddaði á mér axlirnar, hálsinn og hendurnar, hélt utan um mig og um hárið þegar ég þurfti að æla og svo leyfði hann mér að bora höfuðið mitt inn í hálsakotið hans, þar sem það var eini staðurinn þar sem ekkert ruggaði á þessum sataníska báti. Allt þetta gerði hann orðalaust og fullkomlega sleazylaust á meðan ég lá stynjandi og hálfmeðvitundarlaus upp við hann.

Þegar við loksins komumst á fast land var ég svo hrærð yfir góðmennsku hans að ég vissi ekki hvort ég ætti að hlægja eða gráta, ég fleygði mér í fang hans að kveðjuskyni, Davíð til mikillrar furðu, þar sem engin vitni höfðu verið að hetjuskapnum. Ég mun digga þennan mann eilíflega frá innstu hjartarótum, og ég efast um að sjoppustarfsmenn í Baldri myndu bregðast eins við veikum túristakindum, að þeim ólöstuðum.

Það er reyndar alveg magnað hvað samgönguþjónar hafa heillað okkur í þessari ferð. Í miðausturlöndum höfðum við tvo rútuþjóna í hverri rútu sem dældu í okkur vatni og sprautuðu ilmvatni í klúta og færðu okkur. Reyndar féllu þeir svo í ónáð þegar einn þeirra reyndi árangurslaust að káfa á mér í svefni en það er nú önnur saga. Kynbombuflugfreyjurnar og flugþjónarnir hjá Qatar airways voru svo uppspretta langra umræðna um þrýstna rassa, stóra barma og fegurðastuðla hjá ráðningaskrifstofum flugfélagsins. En ekkert toppar þó hetjuna.

En hingað erum við komin í heilmikið klettaklifursprógram en þessi staður þykir einn besti klifurstaður í heimi með alla þessa kletta skagandi út um allt. Göngugarpurinn klífur þó bara hugartinda, göngugrindin var skilin eftir á Ko Tao en göngugirndin magnast með hverjum deginum. Markmiðið er að komast hækjulaust til Singapore. Einn, tveir og allir saman nú, ÁFRAM Göngudóra!

Annað í fréttum er að Nanna er orðin ljóshærð og krullhærð, ég lét klippa nær allt hárið af mér og Davíð setur sítrónu á hausinn til að hann verði ljóshærður og sætur í öllu taninu sem á sér stað hérna.

Næstu dagar eru semsagt undirlagðir undir klettaklifur og vonandi enn eina köfunarferð áður en við fljúgum á Singaporesteinsteypuna.

Gleðileg aðventukósíheit!
Áa

Tuesday, December 9, 2008

Sunday, December 7, 2008

Saga fyrir svefninn

Einu sinni voru þrír litlir (duh...) dvergar. Þeir hétu Illugi, Vilberg og Már Níels, en voru aldrei kallaðir annað en Illi, Villi og MaNilli. Þeir bjuggu allir saman í sér-innréttuðu, dvergavænu húsi sem Reykjavíkurborg hafði útbúið og niðurgreitt handa þeim. Þeir þoldu hvorn annan ekki, en Reykjavíkurborg hafði ekki efni á því að útbúa og niðurgreiða dvergavæn hús fyrir hvern og einn þeirra. Þessvegna bjuggu þeir saman.

Illi var vitlausasti dvergurinn, svo vitlaus að hann var þroskaheftur og löglega afsakaður á ýmsum sviðum daglegs lífs. Enginn vissi hve vitlaus eða klár Villi var, því hann hafði aldrei sagt orð og það fór afar lítið fyrir honum á heimilinu. Hann var Pípari. MaNilli var hinsvegar fluggáfaður, auk þess sem hann hafði milt og gott hjarta. Hann var jarðfræðiprófessor, en vann mest að sjálfstæðum félagsverkefnum sem snéru að eiturlyfjasjúklingum.

Illi, Villi og MaNilli voru allir, eins og áður segir, litlir. En þeir voru ekki jafn litlir. Illi vitleysingur var 87 sentimetrar, á meðan Villi og MaNilli voru báðir aðeins 86 sentimetrar. Þessvegna var Illi foringinn á heimilinu, hvað sem tautaði og raulaði.

Og einn daginn, fyrir ekki svo löngu, ákvað Illi vitleysingur að hann vildi vinna eins og hinir dvergarnir, í stað þess að ríkja yfir sérútbúna húsinu í konunglegri leti. Hann sagði Bæði Villa og MaNilla að núna yrðu þeir að segja upp störfum sínum. Hann hefði nefnilega fengið vinnu fyrir þá alla hjá hinni nýstofnuðu Leyniþjónustu íslenska ríkisins.

Þar myndu þeir standa hver á herðum hins, Illi efst, og klæðast gríðarlöngum frakka sem einn maður. Svo myndu þeir vakta Bæði Hlíðarnar og Vogana fótgangandi, og ráðast að öllum innflytjendum sem þeir sæu og berja þá. Allra helst ef þeir eru skáeygðir.

Og þarna vafra þeir enn þann dag í dag, valtur risi í síðfrakka sem staulast á eftir grunnskólabörnum sveiflandi kylfu með agnarsmáum höndum. Illi er hæstánægður, Villi hefur enn ekki sagt orð en stundum, sjaldnar og sjaldnar, heyrist mjóróma andvarp úr klofi frakkans, fullt brostinna vona...

Thursday, December 4, 2008

Hrakföll

Það kann að virðast sem svo það sé langt síðan við blogguðum síðast, svona á dagatalinu. En tíminn er seigfljótandi fyrirbæri hjá okkur sem búum í lítilli vík á lítilli eyju og oft er eins og sólin rísi og hnígi í einum djúpum, söltum andardrætti. En nei, ekki fara lesendur, þessi færsla verður ekki önnur montrausa um ágæti þess að vera á ferðalagi:

Það fyrsta sem við ákváðum að gera á Tælandi var að læra að kafa á köfunarparadísinni Koh Tao (22 ferkílómetra eyja, stutt austur af suðuroddanum). Ein nótt í Bangkok og svo burt úr mannmergðinni.

Þegar við lögðum af stað suður eftir var Nönnu hinsvegar farið að vera verulega illt í öðru eyranu ofaná heiftarleg kvef-veikindi. Hún lýsti rútu- og bátsferðinni hingað sem versta legg ferðarinnar hingað til, og með verri reynslum lífs síns. Við komum í hendur læknis daginn eftir, sem sagði að hún væri með sýkingu í hálsinum og gaf henni 6 mismunandi pillur á okurprís. Nanna var ekkert að fara að kafa næstu 5 dagana hið minnsta. Batinn varð hinsvegar enn hægari en það, svo hægur að læknirinn ákvað að leggja hana inná míní-spítalann sinn eina nóttina.

Á meðan á þessu stóð fór Halldóra ferða sinna haltrandi, enn aum í öklanum eftir "lestarslysið" á landamærum Nepal. Hún vonaði að hún yrði orðin nægilega góð í fætinum þegar kæmi að köfuninni, sérstaklega í ljósi þessarar 5 daga frestunnar sem veikindi Nönnu ollu.

Óekkialdeilis. Allt haltrið varð þess valdandi að hnéð á heilbrigða fætinum, sem hún beitti fyrir sig til að hlífa hinum, bólgnaði upp svo stórkostlega að hún varð eiginlega verri þeim megin. Svo slæmt var ástandið hún gat ómögulega gengið, jafnvel á forneskjulegum hækjunum sem okurlæknirinn prangaði inn á okkur. Að vísu gekk henni aðeins betur á göngugrind, en hún neitaði að vera úti á meðal fólks á slíku tryllitæki. Hún þurfti að draga sig á höndunum inn á klósett þegar verst var. Hún fór líka á heljarinnar pillukúr og útséð var með alla hennar köfun í bráð.

Á meðan Halldóra og Nanna mókuðu sárþjáðar inná hótelherbergi, rúmfastar, ákvað Áa að fátt annað væri að gera en athuga strand-djammið. Hún gat að sjálfsögðu ekki reitt sig á mig sem félagsskap í slíkt, og endaði ein á hótelbarnum að mingla við köfunarkennarana. Þar var glatt á hjalla og dansinn dunaði þar til hún steyptist úr ótraustum örmum dansfélaga síns með andlitið í gólfið. Fjögur spor í hökuna og kvarnaðist úr tönn. Læknalufsan sagði henni að halda sig úr sjónum í 4 daga.

Það leit út fyrir að ég yrði að læra köfun einn.

En Áa nagli ákvað blessunarlega að vatnsheldur plástur myndi duga og við tvö komumst loksins út í kórallana, á meðan Nanndórið engdist með leigðan DVD spilara og bókastafla. Hinsvegar voru skilyrði til köfunar að sjálfsögðu arfaslöpp. Við lærðum allt teknískt og syntum um dýpið, en sáum voða lítið þar niðri. Óhagstæðir vindar höfðu ýft hafsetið og þörungana svo það var varla maður sæi metra frá sér.

Svo voru uggvænlega væringar í höfuðborginni og enn er óvíst með verði af bókaðri flugferð okkar frá Bangkok.

En á þessum tímapunkti var botninum blessunarlega náð. Nönnu hefur batnaði að mestu síðustu daga, Halldóra er komin varlega á lappir frá og með gærdeginum og við Áa tókum framhaldsnámskeið þar sem skilyrðin í vatninu voru mun betri. Núna meigum við kafa ein og óstudd, höfum skírteini upp á það, og erum soldið montin. Sólin fór meiraðsegja að skína nýlega.

Hún er falleg hérna á kvöldin, gula fíflið. Blóðrauður hnöttur á bleikum himni. Og ég, ég er náttúrulega búinn að hafa það mega fínt.

- Davíð

Monday, November 24, 2008

Lufsur í leti flækjast í neti og kafna í hafseti...

Stutt blogg, því tælenska Baht-ið er heilar 4 krónur (sem þýðir, uhm, allt er dýrt. Þar á meðal Internetið):

Við erum stödd á lítilli eyju í Tælandsflóa, á túristaströnd uppfullri af öðrum bakpokaferðalöngum. Nei "fullri" eru ýkjur; regntímanum er ekki enn lokið (bráðum, bráðum) og smáhýsin standa flest tóm.

Stundum eru hafflöturinn og himininn einn samvaxinn grámi sem hvítnar í sólarátt, og næturnar eru lýstar af hljóðlausum eldingum. Það rignir svona 20% af tímanum, en skýin eru alltaf til staðar.

En við erum ekki ósátt þó brúnkan þurfi að bíða; hitastigið er fullkomið og maturinn frábær. Við röltum bara um og lesum bækur í alsherjarleti. Senn hefst svo köfunarnámskeiðið sem skráðum okkur í (seinna en annars hefði verið, vegna ýmissa heilsufars ástæðna). Það verður sport.

Þeir lesendur sem hafa ekki fengið senda tilkynningu um alla ástina sem við sendum heim í innsigluðum gámum verða að eiga það við póstþjónustuna - Davíð

Monday, November 17, 2008

Gáfnafar

Lesendur,

þið eruð að fara alveg rangt að. Við vöknuðum snemma í morgun til þess að ganga um í nepalskri sveit, rólyndisrölt að staðnum þar sem við svo sigldum framaf fjallsbrún í stýranlegri fallhlíf, milli læranna á flugmönnum okkar. Úr háloftunum, hringsólandi með uppstreyminu, horfðum við svo á fjöllin. Sum þeirra voru yfir 7000 metra há, önnur, ein þrjú, voru yfir 8000 metra há. Hvítglóandi Himmalæjatindar, við þreifandi á þaki heimsins.

En á meðan voruð þið á Íslandi, af öllum stöðum, í vaxandi skammdegi og kulda að reyna að láta múgæsinginn og leikræna tilburði bölsýnisþjóðarinnar ekki ná til ykkar. Hvað er það?

Annað dæmi: Í gær sváfum við út, röltum geispandi niður í bæ í brunch, leigðum svo árabát og rérum yfir spegilsléttan flötinn að ókunnri strönd. Þar beið okkar enn önnur útsýnisofgnóttin á litlu skógivöxnu nesi. Áa kenndi mér að juggla undir augnliti Rhesus apa sem hristu greinarnar yfir höfðum okkar. Sushi í kvöldmat.

En þið bara í ruglinu, mætandi í skóla og vinnur hægri vinstri? Vitleysa.

Og daginn þar á undan horfðum við á vilta nashyrninga ofan af fílum, þar þar á undan fórum við í rafting o.s.frv. Erum við bara svona klár og þið vitlaus? Getur það verið?

Að vísu er eitt eilítið heimskulegt við okkar háttalag: Nú er komið fram á 12. dag Indverskrar magakveisu, lágfleygrar en óbilandi, og í stað þess að spyrjast fyrir hjá lækni höldum við bara áfram að flytja íburðarmiklar klósettsinfóníur hvort fyrir annað gegnum veggi þunnþilja gistihúsa (það vill oftast svo skemmtilega til að salernin eru staðsett milli herbergjanna okkar svo hljómburðurinn er góður til beggja átta). Kannski við vitkumst senn í þessu.

Allavega, hafið það eins gott og þið getið greyin - Davíð

Saturday, November 15, 2008

Tuesday, November 11, 2008

Destiny's child

Svo fór að forlögin réðu
fótleggjaheilsunni,
Halldóra með helteygðan ökkla
heltist úr lestinni.

- tileinkað KT

Já þannig var nú það, lesendur góðir, á þeim degi sem markaði helming ferðarinnar hrundi ég í lestartröppum og afgreiddi það sem beðið hafði verið eftir; tognaði í ökklanum. Því fylgdi mikil angist, sérstaklega þegar ég hélt ég væri kannski fótbrotin. Svo slæmt var það nú ekki, heldur er ég bara bólgin, fagurblá og haltrandi.

Almennt er varasamt að taka lest á Indlandi því þar virðist þykja óþarfi að merkja lestarvagnana að utan, og ef maður fer óvart í rangan vagn þá er ekkert endilega opið á milli svo maður þarf að fara útúr lestinni til að finna sætið sitt... Nöldrinöldr...

Alltént erum við nú komin til ævintýralandsins Nepal. Þar er hægt að stunda allt helsta alternatíva sport sem venjulegt fólk getur hugsað sér. Nanna og Davíð hófu leikinn í gær með canyoning á meðan ungfrú magakveisa og ungfrú farlama/magakveisa lágu fyrir framan HBO. Dagur N&D var auðvitað einn stór hápunktur þrátt fyrir að hafa ekki lagt í teygjustökkið sem stóð þeim til boða. Lágpunktur okkar Áu var þegar hið daglega þriggja klukkustunda power-cut slökkti á sjónvarpinu okkar.

Flestöll hofin í Kathmandu hafa þannig því miður farið framhjá okkur. Vonandi mun það standa til bóta einhvern daginn.

Á morgun er svo rafting sem endar ofan í Chitwan þjóðgarðinum þar sem eru tveir nýfæddir fílstvíburar! Vei!


Í Nepal er fólkið ólíkt því sem er á Indlandi. Annars vegar lítur hinn almenni Nepali alls ekki út eins og Indverji (heldur er töluvert skáeygðari) og hins vegar er hér allt önnur gerð af túrhestum. Nær engir dreddadúddar í pokandi buxum heldur frekar trekkarar og teygjustökkvarar á öllum aldri. Heilsusamlegt líferni virðist þó ekki fullkomlega dóminerandi hér því Davíð er boðið dóp oft á dag, svona eins og gerðist stundum á Indlandi. Okkur stelpunum er hins vegar ekki boðið dóp, gaman að því.


Yfir og út,
Halldóra

Thursday, November 6, 2008

Bækur (útúrdúr)

Jújú, magaveimiltítuháttur olli töf í ferðalaginu. Varanasi er orðin leiðingjörn og Nepal dvölin hefur styst ískyggilega. En ég (Davíð) hef ekki setið auðum höndum:

Hið metnaðarfulla bókmenntaúthlaup Langtíburtistans, getraunin góða og hin skitsófreníska Katla, átti vissulega dapurlegan endi. Ég ætla samt að fá að tileinka eina bloggfærslu enn ritlistinni, þó á ófrumlegri og hófstilltari hátt en áður; Á ferðlögum les fólk bækur. Hér er listi yfir allar þær bækur sem við fjögur höfum í sameiningu lesið síðan við hófum för. Einnig fylgir einkunn hverri bók, frá hverjum lesanda. Einkunnarskalinn er eftirfarandi:


0 - Hörmung ein
1 -
2 - Vítaverð sóun nytjaskóga
3 -
4 - Ekki góð bók
5 -
6 - Ekki slæm bók
7 -
8 - Afþreying og gott betur
9 -
10 - Fullkomin fegurð


(Hæsta einkunn, 10, er ekki skilgreind sem "allra besta bók allra tíma" heldur bara yfirmáta frábær - einkunnir eru því í hærri kantinum. Heilar og hálfar tölur eru leyfðar. Einkunn hvers er tilgreind með upphafsstaf (Á, D, H og N). Lítið e eftir einkunn þýðir að viðkomandi hafi verið að lesa bókina í annað sinn. Stórt B þýðir að viðkomandi hafi lesið bókina einhverntíman fyrir ferðalagið, en ekki aftur á meðan á því stendur. Þá fylgir engin einkunn.)


---


Út að stela hestum eftir Per Petterson: Á:6 / D:5,5

Burning Chrome eftir William Gibson: D:B / H:7,5

Síðasta setning Fermats eftir Simon Singh: D:8 / H:8

Galapagos eftir Kurt Vonnegut: Á:8 / D:8,5 / H:7,5 / N:8,5

The Wind-up-Bird Chronicle eftir Haruki Murakami: D:7,5 / H:8 / N:8,5e

Meistarinn og Margaríta eftir Mikhaíl Búlgakov: H:10e / N:B

The Accidental eftir Ali Smith: Á:7 / D:7 / H:8 / N:8

Fictions eftir Jorge Luis Borges: Á:9,5 / D:9,5

Tröllakirkja eftir Ólaf Gunnarsson: N:8 / D:8 / H:?

The Grass is Singing eftir Doris Lessing: N:9

Pale Fire eftir Vladimir Nabokov: D:9

Catch 22 eftir Joseph Heller: N:9

Midnight's Children eftir Salman Rushdie: Á:9,5 / D:9 / H:B / N:B

Rokland eftir Hallgrím Helgason (hljóðbók): Á:6


---


Að auki höfum við svo auðvitað lesið nokkuð álitlegt hlass af Lonely Planet ferðahandbókum, mis- vel og ítarlega. Þeir lesendur sem hafa lesið eitthvað af ofanverðu mega endilega deila sínum einkunnum. Vilji þeir hinsvegar ræða verkin umfram heilar og hálfar tölur er alger skylda að gera það þannig að gáfumannakomplexið fari ófalið og drýldið mjög.

Wednesday, November 5, 2008

Magaóður

Ég skal segja ykkur það að magar eru eitt veimiltítulegasta og eymingjalegasta fyrirbæri sem mannkynið hefur þróað með sér. Af hverju erum við ekki löngu komin með innbyggða fislétta nanó-stálgrind þarna inn í staðinn fyrir þessar aumu frumur sem þykjast vera eitthvað? Og ofurgúmmíslöngur með sjálfverkandi hreinsibúnaði í stað draslþarma.

Einhver ætti klárlega að kanna málið.

Áa bitra sem missti af Nepalsrútunni.

Monday, November 3, 2008

Nanna mætt á svæðið

Já, það virðist vera orðið umræðuefni hér á blogginu sem og annnars staðar hve lítt frækin ég er við bloggskrif. Afsaka ég þetta, ætli þetta orsakist ekki af almennri bloggleti minni auk þess sem of mikið af mínum internettíma fer í misheppnaðar tilraunir til þess að setja myndir inn á facebook.

Anyways...við fjórmenningarnir erum nú í Varanasi eins og getið hefur verið. Ég held að mér sé óhætt að segja að okkur líði vel hérna. Hér er tiltölulega létt að forðast hinn mikla asa og áreiti sem finnst eiginlega alls staðar í Indlandi með því að sitja bara á tröppunum við Ganges og chilla. Til dæmis hef ég setið með skissubók og dregið að mér mikla athygli lítilla sölukrakka sem dást að myndunum um leið og þau reyna að selja mér póstkort.

Áður en reisan hófst vorum við mjög ákveðin að skipta tíma ferðarinnar tiltölulega jafnt á milli menningar, activities og hvíldar. Hins vegar hefur eiginlega farið svo að ferðin er nú um það bil hálfnuð og við eiginlega aðeins búin að vera menningarleg. Alltof intellectual fólk enda reynir Davíð í sífelldu að tala um eitthvað vitsmunalegt, bakteríur, sólkerfið, heimspeki, you name it. Ég öskra þá bara á hann "Hættu að vera svona boring gaur". Nei bara stundum. Ok útidúr, sorry.

Það sem ég vildi sagt hafa er að við höfum aðeins tvisvar gist fjórar nætur á sama stað annars höfum við eiginlega alltaf gist tvær nætur og það er eilítið þreytandi að ferðast svo hratt í tvo mánuði. Þess vegna er okkur öllum farið að lengja pínu eftir activities í Nepal og svo heví næs chilli á strönd í Tælandi, skiljiði.

Æj núna veit ég eiginlega ekki hvað ég ætti að segja meira þótt ég gæti skrifað frá mér allt vit svosum. Mér finnst líka sjálfri leiðinlegt að lesa langar færslur. Þannig að nú verð ég bara dugleg að skrifa margar stuttar. later. nanna

Sunday, November 2, 2008

Hangs

Davíð: Ég eyddi heilum degi inná hótelherbergi, óveikur, í Varanasi. Köllum það íhugun...

Halldórískt myndablogg á næstunni.

PS: Síðasti póstur var ekki eftir Nönnu (þó hún geti auðvitað, eins og við öll, kvittað undir merkinguna hvað sem orðalaginu líður). Þetta var áminning frá hinum eigendum bloggsins um að hún sinnti þessu sameiginlega verkefni minnst okkar allra. Henni hafa einnig borist kvartanir um aðrar samskiptaleiðir, frá öðrum ástvinum.

Friday, October 31, 2008

Ayurvedic (lífvísindi)

Maður hatar ekki að láta olíubera á sér rassinn og nudda á sér geirvörturnar.

PS: Sáum engin tígrisdýr :(

- Nanna

Wednesday, October 29, 2008

Ranthambore-ing...djók

Á morgun sjáum við (7, 9, 13) tígrisdýr. Óinnrimluð, ef frá er talinn feldurinn. Víí!

Í dag erum við stödd í Ranthambore þjóðgarðinum í Rajasthan (kóngalandi), fyrrum veiðilendum Hákónganna (Maharaja) frá Jaipur. Þar (Jaipur, bleiku borginni) vorum við í gær, en nenntum voða fáu, almennt nennuleysi sem lagðist ofaná gallspúandi magaverk (ég nefni engin nöfn) svo úr varð takmarkað sightseeing gegnum bílrúður og myndavélalinsur. Rajasthan prógramið; ný borg og bílferð og hótelherbergi uppá svo til hvern dag, er í þann mund að verða þreytt. Blessunarlega lýkur því á morgun við, ojújú, Taj Mahal.

Að vísu rifum við okkur uppúr mókinu þegar leið á helslakan gærdaginn og dröttuðumst niður í bæ, enda var gærkvöldið Diwali, pan-búdda-hindú ljósahátíð sem setti áberandi svip á borgina. Rakettulega séð var þetta nú kannski ekki mikið meira en gamlárskvöld á Stokkseyri (þó 3.5 milljón búi í Jaipur), en neon-glitpappírs ljósaskreytingarnar skákuðu jólaklæddum Skólavörðustígnum óneitanlega, bæði í gæðum og magni. Og já, Áa fór bæði á fílsbak og í alvöru Bollywood bíó, og er því komin að Górillukynnum á to-do-lista lífs síns. Víí!

Mamma mín, praktísk og skipulögð, bað um nó-nonsens fregnir af heilsufari (þó hún hafi líklega átt við mitt persónulega ástand, í persónulegu bréfi). Sjá eftirfarandi:

Allar stúlkurnar, blómin blessuð, hafa þurft að eiga við magakveisur af ýmsum gerðum. Hælsæri minntu á tilvist sína utanúr hugmyndaheiminum án þess að raungerast að fullu. Nefrennsli er strítt, helst hjá okkur Halldóru, en það kemur svo sem fullkomlega heim og saman við fyrri kynni af öndunarfærum okkar. Moskítóbitin eru mýmörg (haha...) og koma í bylgjum. Í dag rís sú alda hátt og Halldóra, reynslunni ríkari, slær móðurlega á fingurnar þegar einhver tapar sér í syndsamlegu klóri. Önnur bylgjulaga stærð er sú andlega, og tjóir vart að tala um hana sem neitt heildstætt fyrirbæri yfir hópinn, nema hvað þar rísa öldurnar einnig hátt án þess að neitt newtónískt bakslag þurfi að verða (ein möguleg minniháttar röskun er að ég vísa, í síauknum mæli, til sjálfs míns í kvenkyni...)

Nánasta framtíð: Eftir Agra til Varanasi og svo að og yfir landamæri Nepal, þar sem ólíkt líkamlegri túrismi bíður okkar. EXTREEEME! PEPSI-MAX!

- Davíð

Friday, October 24, 2008

Erum núna rétt hálfnuð með litarúntinn um Rajastan. Gullna borgin og bláa borgin eru vel dokúmentaðar í minnið og myndavélina, erum núna í Udaipur, hvítu borginni, og bleika borgin bíður svo með Bollywood bíóunum sínum stóru og frægu.

Kamelsafaríið okkar var ótrúlega notalegt þrátt fyrir léttan pakkatúrakeim og netta eyðimerkurfóbíu. Við fengum trommuleikara og svaka fínan dansara til að afþreyja okkur yfir matnum í búðunum um kvöldið. Verandi fagnaðarhrókarnir sem við erum, þurfum við varla að taka það fram að við stigum glæsileg bíómyndaspor til að vera memm og hlógum og grínuðum á meðan hinir ferðamennirnir horfu hálf syfjulega á okkur og nenntu ekki að gera sig vandræðaleg og taka þátt í dansinum góða. Á eftir var boðið upp á gistingu út á sandhólunum en ekkert okkar fýsti að hossast á kamelkerrunni út eftir nema ég. Haldandi að ég fengi lítið teppi til að kúra á í sandinum, brá mér frekar mikið þegar heilu rúmi, laki, sæng og kodda var vippað upp á kerruna og rúllað út á næsta sandhól. Það var dálítið eins og að upplifa einn af æskudraumunum mínum, sem innihélt þá hugmynd (eflaust stolna úr mörgum bíómyndum og bókum) að ég gæti flakkað um á rúminu mínu og kúrt undir sænginni á meðan ég flygi um loftin og sofnaði í framandi náttúru. En þetta var allt ferlega næst, þrátt fyrir augljósan plebbaskapinn sem felst í því að láta flytja fyrir sig rúm út í eyðimörk....

Kudos fær svo hinn stórskemmtilegi Om, netkaffihúsaeigandinn og tónlistargúrúinn sem Halldóra minntist á fyrir frábært kvöld í Jaisalmer. Vonandi munu draumar hans um að vera frægur sítarleikari í Belgíu (...af öllum stöðum!) rætast. Ekki eins mikil kudos fá lífhræddu hótelgaurarnir okkar sem vöktu Davíð af værum svefni og ræstu hann út í æsilega mótórhjólareið um borgina til að hafa upp á okkur Halldóru, þar sem við höfðum ekki skilað okkur nægilega snemma heim úr "partíinu". Dálítið vinsælt stef, þessi forræðishyggja og hræðsla um að litlu ferðamennirnir fari sér að voða.

En þrátt fyrir það er Indland dásemdarland. Þeir sem mig þekkja hafa nú þegar ábyggilega gert sér grein fyrir því að ég hef tapað glórunni og veskinu í hinum ýmsu búðum og básum. Fílar og töskur og saríar hafa ratað ofan í bakpokann...

Allavega, meira síðar!
Kossar og knús
Áa




Tuesday, October 21, 2008

Og sandalafarið skýrist...

...á þröngum götum gömlu borgar Jaisalmer, því eyðimerkurgeislunin snýr lóðrétt á þrengslin, helvísk. Þessi þurra sandsteinsborg er steinsnar frá Pakistan og var (eins og svo margir af áfangastöðum okkar hafa verið í endurliti) afar heppilega staðsett áður en fólki hugnaðist að flytja söluvarning um höfin og loftin - má muna fífil sinn fegurri og öll dýrð fengin úr fortíðinni.

En dýrðina vantar ekki, veggir þessa tröllvaxna virkis sem Halldóra minntist á eru bugðóttar endaleysur og innan þess bærist enn heilsteypt (ef túristavætt) samfélag. Þar hýrist ég núna í sólskjóli á meðan stelpurnar fá sér henna á hendurnar. Það er víst síður fyrir drengi. Áðan litum við 6-700 ára gömul Jain hof. Hver þumlungur var útskorin í sandstein, lágmyndir úr Kama Sutra, keimlíkir spámennirnir eftir öllum veggjum og öll mótíf tryllt í sveigum og hreyfingu og lífi.

Fyrir tveim dögum vorum við stödd í rottuhofi, það er hofi fullu af heilögum rottum þangað sem fólk fer pílagrímsferðir með sykurbolta og mjólkurdreitil til að færa hinum háæruverðugu nagdýrum. Ef þeim skyldi þóknast að hlaupa yfir tær manns (engir skór leyfilegir) er það ómælt farsældarteikn. Við vorum ekki svo heppin, enda kannski eilítið á varðbergi.

Þegar ég sé í návígi og með stuttu millibili allar þær mismunandi reglur, útskýringar og helgidóma sem fólk setur sér, fer mér að finnast trúarbrögð skýrasta og afdráttarlausasta dæmið um óbilandi vilja mannsins til að móta veröldina eftir eigin höfði, til að lifa í sjálfsköpuðum heimi - Sönnun helst um ímyndunarafl og vissu um að það sé hvergi minna mikilvægt eða réttlægra en áþreifanlegri raunveruleiki (og það jafnvel þó maður eigi lítið af peningum eða hangsitíma aflögu). Þó margt sé svo herfilega ömurlegt við Hindúisma finnst mér þessi grundvallarsannindi koma afar tært fram í honum.

Rajashtan rúnturinn einkennist, ef af einu, af svita á gervileðri - Bíllinn verður erfiður þegar líður á þriðja tímann þétt við hálfklístrað sætið. Það verða hinsvegar Kameldýr í kvöld og á morgun (hver ég hef aldrei setið, svo ég veit ekki hvort samanburðurinn verði jákvæður).

-

Að öðru; fyrsta getraunin (sjá fyrri færslu) verður einnig sú síðasta. Því miður. Þrátt fyrir þvera samstöðu og mikla ánægju með hið stórsnjalla söguverkefni þegar tillagan var borin upp fór fljótt að bera á nöldri. Sumir, misvitrir, vildu meina sagan væri afvegaleidd (fjarstæða), stefnulaus (bull) og ýjuðu jafnvel að því hún væri eiginlega bara óviðbjarganlega leiðinleg (Ég kem hreinlega af fjöllum). Hinar augljósu, og sönnu, ástæður þessa litla harmleiks eru auðvitað engar aðrar en leti og listrænuskortur.

Hvað um það. Patrónn bloggsins, Hafdís, átti kollgátuna og hefur sigrað getraunina! (Hverja ég hef nú, í reiðilegu fússi, stytt um 10 daga af því ég get það). Verðlaunin eru lítið grængult Opalegg á óslípuðum, áföstum statíf. Þennan grip fengum við gefins í heimsókn í skartgripaverksmiðju í Kappadókíu á Tyrklandi við upphaf ferðar. Hjartanlega til hamingju Hafdís.

- Davíð

Monday, October 20, 2008

Snögg-jastan

Jesss, við hittum Indverja sem talar góða ensku og vill ekki selja okkur neitt! Og hann rekur internet-kaffihús! Og fílar Sigurrós (auðvitað!)!
Áa er hamingjusöm yfir þessu öllu saman.
----------------------------------------------
Erum já, í Jaisalmer í Rajastan, þar sem spara skal vatnið og styðja blessaðan túrismann sem er það eina sem bærinn hefur. Fyrir utan auðvitað risavaxnasta virki sem ég hef á ævi minni séð og gnæfir yfir bæinn.
Á ferðinni um Rajastan erum við með ótrúlega krúttlegan bílstjóra sem heitir Ashok (einsog í Dilbert!), við skiljum eiginlega ekkert í enskunni hans (og hann ekki okkur) en það hefur ekki komið að sök ennþá...
---------------------------------------------
Og á morgun: Camel-safari!
Þarf að fara að spjalla við internet-kaffigaurinn núna til að vera ekki dónaleg.
Tjus elskuleg,
Halldóra

Tuesday, October 14, 2008

Kasmír

10, langir, færslulausir dagar. Afsakið lesendur, en aðstæður leyfðu vart annað. Til að bæta gráu, ofan á þessa svörtu bloggframistöðu sló rafmagninu út hér á internetkaffihúsinu (...þó hér sé ekkert kaffi selt) í Srinagar borg, og þau 1000+ orð sem ég hafði nýtt til að lýsa ævintýrum okkar eru að eilífu horfin dauðlegum sjónum. Er nokkuð jafn fökkin óþolandi?
Hvað um það, nú þarf ég að drífa mig. Stytt útgáfa: Við lentum í Delhi að morgni 8. október. Maður að nafni Raj, ferðþjónustudrengur, náði að selja okkur allt sem hann hafði að bjóða (við erum fiðrildi í vindi frammi fyrir gulli og grænum skógum slíkra manna, að því er virðist). Nú eigum við framundan þaulskipulagðan túr um Rajastan hérað, hver dagur ákveðinn þar til við hoppum yfir landamærin til Nepal.
En á undan þeirri bílferð - sem verður með einkabílstjóra - þá skaut Raj inn viku í Kasmír. Þar sem við erum núna (sjálf héldum við, eins og kannski sumir lesendur, að Kasmír væri ekki beint staður til að sækja heim). Þar er yndislegt. Við gistum í húsbát úti á Dal vatni (sem lesendur Miðnæturbarna ættu að kannast við) og ofaní okkur er eldaður stórgóður heimilismatur. Vatnið er spegilslétt í grænum fjallasal og, tja, ekki ömurlegt. Svo fórum við uppí fjöll, þaðan sem við snérum aftur í dag.
Brött, há fjöll á mörkum lauf- og barrskóga. Gistum inná hirðafjölskyldu í miklu návígi við menn og dýr (ekki síst mýs) á svefnlofti sem var maísgeymsla til hálfs. Þaðan fórum við í göngur dag hvern, þar sem útsýnið blómstraði enn frekar við alla hækkun. Síðasta daginn náðum við að gægjast upp fyrir trjálínu, undir augliti arnar, á stjórnlaust fallega fjallasýn og borðuðum hádegismat á grasbala sem verður að teljast með fullkomnari stöðum.
Við erum voða sátt, þó það verði kalt hérna á næturnar. Við verðum í frekari, og vonandi tíðara sambandi frá Rajastan. Blessíbless.
- Davíð

Saturday, October 4, 2008

Myndayndi

Nú lýkur senn fyrsta hluta ferðarinnar, miðausturlenska múslimahlutanum. Honum verður slúttað með bravör um borð í Airbus-vél lúxusflugfélagsins Qatar Airlines á þriðjudaginn. Hehemm. Tími til kominn að bregða upp mynd af stöðunni - þrátt fyrir fátæklega html-kunnáttu.









Í upphafi var ávísun og ávísunin var frá Sveinbirni og var afhent Nönnu í London. Hún reyndist vera innistæðulaus.












Því miður kann ekkert okkar tyrknesku, en þessi orð sem glóðu í myrkri fyrir ofan Bláu moskuna í Istanbúl tengjast eflaust Allah á einn eða annan hátt.














Eins og nærri má geta er í þessari ferð okkar ekki brugðið út af þeim vana að vera fáránlega svöl:







Þessar myndir eru teknar í Pamukkale, sem sjá má umfjöllun um hér að neðan. Þess má geta að rauðu sólgleraugun eru því miður ekki lengur með í för, því þau týndust að ég held í Tyrklandi.





Og já, í Göreme í Tyrklandi (sjá einnig umfjöllun hér að neðan) bjuggum við á hóteli sem leit hér um bil svona út. Nuff said.




















Er nú komið að skuggahliðum ferðarinnar, að því er mætti halda. Hér sitjum við á landamærastöðinni milli Tyrklands og Íran, búnar að setja upp slæðurnar dauðhræddar um að sjáist í hár. Komumst svo að því að þeir voru ekkert svo nojaðir ef maður bara sýnir lit og reynir ekki að mótmæla fatalöggjöfinni of kröftuglega.


Það er kannski ekki skrítið að við stúlkurnar höfum oft verið spurðar hvort við værum systur því svona dulbúnar már hér varla sjá hver ber hvaða nafn.



Fagurt er í Íran og sérdeilis fagurt er í Esfahan þar sem þessi dásamlegi moskuinngangur er staðsettur meðal annarra meistaraverka.





Ég er bara ekki alveg nógu góður ljósmyndari, en þetta er svona smá sýnishorn, nærmynd og panorama, af aðalmoskunni á Imam torgi.






Við þessar dyr hittum við líka Zizou le Nomad. Svo skemmtilega vildi til að þekkti Valdísi vinkonu hennar Áu og fór með okkur í smá rúnt um hverfið. Hér sýnir hann Áu muninn á hurðarhúnum sem konur eiga að nota og sem karlar eiga að nota í landi jafnréttisins. Getiði nú hvor passar hvoru kyni.
























Yfir í smekklausan veraldleikann. Að lifa í fjögurra manna samfélagi getur reynt á bæði líkama og sál. Í einu sparki tókst Davíð til dæmis að brjóta neglurnar á báðum stóru tánum mínum á bak aftur og blóðga til andskotans. Þær urðu vægast sagt ógeðslegar (og hafa þó verið sakaðar um að vera slæmar fyrir, þrátt fyrir kröftug mótmæli eigenda sinna).






Já, það er hættulegt að ganga í sandölum á almannafæri.












Ein birtingarmynd mannlegs samfélags í Sýrlandi er persónudýrkun. Þá persónu sem hér í landi er mest dýrkuð má sjá hér um bil alls staðar. Við erum farin að halda að lög séu gegn því að hafa ekki mynd af ástkærum forsetanum hangandi uppi í búðinni sinni eða hvaða bisness sem maður kann að reka í lífinu. Þeir sem hafa góða sjón geta séð spaðann atarna, sem er einmitt augnlæknir að mennt, þrisvar á annarri þessara mynda.





















Annar vinsæll maður hér í Sýrlandi er hann Saladdin sigursæli, sem réð yfir gríðarlegu landsvæði hér i den. Hér glímir Áa við lofthræðslu sína í kastala hans, sem var vægast sagt afskaplega flottur. Ljósmyndarinn hlær auðvitað bara úr hæð sinni, enda elskar hann (hún) þverhnípi.
















Við höldum áfram að vera svöl...


























Og nú, lesendur góður, sjáiði öll hvað Davíð er svalur, því hann er að reykja. Vatnspípu. Ekki að spila á óbó eins og maður myndi auðvitað giska á fyrst.




Eins og áður sagði höldum við héðan burt á þriðjudag og er þá stefnan tekin til Delhi og víðar í Indlandi. Áa biður alla sem hafa einhverjar geðveikar inside information endilega að tjá sig, í kommentakerfið eða gegnum aðra miðla. Hver veit svo nema bloggað verði fyrir brottför. Minnum enn á getraunina um smásöguna hér að neðan. Pís át.


-Halldóra

Friday, October 3, 2008

Hama(st)

Við eyddum bróðurpart Sýrlandsdvalarinnar (ef ekki í tíma talið, þá aðgerðum) í miðlungsborginni Hama, dulítinn spöl frá skítapleisinu Homs sem er hefðbundnari miðpunktur landsins (sem við heimsóttum aldrei, því við höfum traustar, ó-hómófóbískar, heimildir fyrir því að sú borg sé, jú einmitt, skítapleis).

Hama sjálf var svosem ekki stórkostlega áhugaverð, þó þær væru fullkomlega heillegar leyfar af nokk merkilegu áveitukerfi frá rómverskri fornöld... Það sem við gerðum var að brumma útúr borginni á morgnanna, skoða heilan helling af gömlum steinum vítt og breitt um skógana og sandinn, í öllum mögulegum myndum, og komum svo þreytt og mókandi heim á hostel um sólsetur.

Við sáum tröllvaxið virki ofursúltánsins Saladíns, aðra minni kastala, súlnaskreytt miðstræti ævafornu borganna Palmýru og Apameiu, grafhýsisturna, lékum okkur í svalandi morgunblæ, alein, um ævintýralegar þorpsrústir í fagurri sveit o.s.frv. Þetta var allt mjög skemmtilegt, og minni staðirnir höfðu þann mikla kost að við sátum ein að þeim (sem gerir upplifunina gjörfrábrugðna því að ganga um, t.d., forum romanum).

Halldóra ætlar að myndablogga þessum ævintýrum okkar í næstu færslu ef lukkan leyfir.

Í dag komum við til Damascus, því elsta síbyggða bóli jarðkringlunnar, en höfum fátt upplifað enn. Hér bíða okkur líka fjórir rólegir dagar áður en haldið er til Dehli.

Minna skemmtilegt:

1. Smá magakveisa setti strik í reikninginn (aðeins tvö okkar komumst í alla dagstúrana). Það er allt á uppleið núna (7,9,13).
2. Annars óbrigðull stofnsetjari bloggsins okkar gerði þann feil að takmarka það hver mætti kommenta (kvartanir bárust okkur um aðra vegi internetsins). Því hefur nú verið kippt í liðinn, svo ekki hræðast kommentakerfið kæru lesendur! (Og ég minni, að sjálfsögðu, á getraunina.)

- Davíð (ástæða þess að ég blogga lengst og, að verða, oftast, er líklega sú að ég á ekki facebook aðgang. Vonandi fara stelpurnar að taka hér til hendinni svo þið kafnið ekki öll í klaufalegri skrúðmælgi og innihaldsleysi).

Tuesday, September 30, 2008

GETRAUN!

Ferðalag er ótvíræður flótti frá grámyglulegu jórtri á atburðum og einstaklingum, hinni taktföstu hringrás uppsölu um vélinda hversdagsins. Það felur þó ekki í sér að ferðalag sé skilyrðislaus flótti frá leiðindum. Margar og langar eru dauðu stundirnar sem við eyðum í skröltandi mögum lesta, langferðabíla og flugvéla í þurrausnum félagsskap hvors annars, að ekki sé minnst á þrúgandi kvöldstundirnar í grátlega fábrotnum hostelskálum þar sem salerni og dýnur iða af örvöxnu lífi. Nokkrar leiðir eru okkur færar við að kítta í þessi ítrekuðu tóm milli áfangastaða:

Lestur,
spil,
tónlist,
leikir,
áflog,
og margt fleira.

Til að standa enn betur að vígi andspænis leiðindunum höfum við í þokkabót tekið til hendinni við sköpun, ofaná alla þessa afþreygingu og einhliða neyslu. Öll skrifum/teiknum við dagbækur, í mismiklu mæli og ofaná það skrifum við í eina bók sameiginlega. Sú bók er forsenda þessarar færslu.

Flestir léku einhverntíman þann leik í barnaskóla að skrifa ruglsögu í samvinnu við aðra, þar sem hver skrifaði eina setningu, en blaðið sem ritað var á var brotið þannig að maður fékk einungis að sjá síðustu setningu einsamla í algeru samhengisleysi þegar maður hnýtti við (nú eða jafnvel að maður fékk ekkert að sjá). Við uppfærðum hugmyndina eftir þessum lauslegu reglum:

- Hver skrifar eina setningu, þ.e. að næsta punkti (eina málsgrein sumsé).
- Sá skrifar svo ekki aftur fyrr en allir hinir hafa skrifað eina setningu.
- Taka skal tillit til alls sem á undan hefur komið (enginn texti falinn).
- Sagan lítur ekki ritstjórn nokkurs okkar: Það er bannað að reyna að hafa bein áhrif á hvað einhver annar skrifar.
- Heildarstefnu sögunnar má þó ræða að vild (en hver og einn hefur fullkomlega frjálsar hendur þegar kemur að honum).
- Hver skrifar eina setningu á dag (sú regla sem oftast hefur verið brotin...)

Í fyrstu vorum við verulega vongóð um að úr yrði bókmenntalegt stórvirki, en raunin er sú að afraksturinn er bersýnilega náskyldur fyrrnefndum ruglsögum grunnskólaáranna.

Nú ætlum við að birta söguna hér á blogginu í köflum, einn fyrsta hvers mánaðar (eða um það leyti). Og vegna umræðna á kommentakerfinu fyrir síðustu færslu, og til að blása einhverri spennu í þessa skitsófrenísku mótsagna-steypu, þá höfum við ákveðið að gera getraun úr fyrirbærinu:

Þeir sem giska á rétta röð höfunda, það hver á hvaða setningar ("1,5,9,13,..." sá fyrsti "2,6,10,14,..." næsti, o.s.frv.) fá óvænta glaðninga við heimkomu.
Aðeins eitt gisk verður tekið gilt frá hverjum, og það verður fyrsta gisk. Giskin skráist í kommentakerfi. Röð höfunda mun breytast í hverjum mánuði, því er alls til fjögurra verðlauna að vinna. Njótið vel (sagan er enn án titils):

-

Katla hneig niður og horfði vonlaus á máttvana fingur sína bera við blóðrauðan sjóndeildarhringinn. Guðjón hafði enn ekki hringt. Kannski myndi hún aldrei heyra rödd hans framar, kannski var hann endanlega búinn að gefast upp á því að elta hana uppi. Hún hafði skilið hjólið hans eftir við bátaskýlið, hann yrði ekki sáttur.
Hún velti sér á bakið, pírði augun mót logalitum skýhnoðrum á löturhægri siglingu yfir himininn og reyndi að átta sig á því hvernig hún hefði endað hér á meðan líf hennar fjaraði út í dökkum taumum. Katla furðaði sig á hvernig hún hefði getað lent í þessum aðstæðum miðað við það reglubundna líf sem hún hafði lifað fyrir aðeins þremur mánuðum. Áætlun hennar hafði verið afar einföld, afar léttvæg, miðað við fyrrum misgáfuleg uppátæki hennar. Þegar Guðjón pikkaði Kötlu upp í Hellinum tók hún fyrst eftir því hvað hann hafði sérkennilegt, en fallegt, orðaval og einbeitt augnaráð.
"Ég get ekki þyrmt þér ástin, þú skilur of mikið," er vissulega sérkennilegt orðaval. Líklegast það sérkennilegasta og jafnframt það óhugnanlegasta sem hann hafði sagt við hana á þessum þremur mánuðum. Fram að því augnabliki sem hún heyrði þau orð hans hafði hún haldið að hann myndi vernda hana, sama hvað. Katla, feimin að eðlisfari, hafði ekki vitað hvernig hún ætti að bregðast við aðdráttarafli Guðjóns; hún gat ómögulega litið undan.
Nú brosti hún, lokaði augunum og gafst upp...
Þremur mánuðum áður
Umferðarþunginn er alveg að fara með Kötlu er hún keyrir á gamla volvonum sínum í vinnuna. Rigningarskýin hrannast upp allt í kringum hana, stefnir í kaldan og blautan dag, hugsar hún með sér. Hún er fegin að hafa ekki enn selt volvoinn þrátt fyrir að vera orðin blönk. Það jaðrar auðvitað við veruleikafirringu að kvarta yfir ástandinu á Íslandi eins og komið er fyrir umheiminum, en aftur á móti var bara tímaspursmál hvenær flóðaldan skylli á þeim eins og öðrum, svo hún gat allt eins örvænt þá þegar.
Loks þegar hún kom, pirruð yfir heiminum, í vinnuna beið ekkert betra við þar sem yfirmaður hennar boðaði þau strax á fund og tilkynnti þeim að þetta yrði langur dagur og löng vika. Hún horfði í kringum sig á þreytuleg andlit samstarfsfólks síns og velti því fyrir sér hvort þau upplifðu líka nístandi tilgangsleysi þess að halda fyrirtækinu gangandi, hvort þau væru ekki löngu búin að átta sig á því að héreftir yrði engin von um hinn mikla gróða sem þaum var öllum lofað.
Katla andvarpaði og reyndi að beina huganum annað, til Sólveigar vinkonu sinnar sem hafði hringt í gær í uppnámi. Sólveig var að vísu maníusjúklingur í viðstöðulausu uppnámi og vinátta þeirra risti ekki djúpt frekar en aðrar jarðtengingar í lífi Kötlu, en í þetta skipti hafði hún allavega haft frá einhverju furðulegu að segja. Katla vissi hinsvegar ekki að furðuleg frásögn Sólveigar ætti eftir að hafa jafn afdrifaríkar afleiðingar fyrir hana og átti eftir að koma í ljós. Þær höfðu ekki talast við í nokkurn tíma á undan og var Kötlu farið að gruna að Sólveig væri horfin í eitt af sínum leyndardómsfullu ferðalögum.
"Þessi gaur sem ég sagði þér frá síðast, mannstu? hann bað mig að koma með sér og gat bara ekki hafnað boðinu, þótt ég megi engan vegin fara," sagði hún andstutt í símann.
"Ha? Ég hef ekki hugmynd um hvað þú ert að tala elskan, áttu við þennan vin hans Steins?"
"Nei vá, allt löngu búið með hann maður, ég er að tala um þennan Guðjón sem ég hitti á Hellinum um daginn," sagði Sólveig.
"En ég hélt þér hefði ekki líkað við hann, þú sagðir mér að hann væri svo undarlega órólegur eitthvað," svaraði Katla hálf annars hugar. Hún hafði svo fallist á að hitta þau í kvöld eftir þó nokkuð tiltal.
Guðjón var víst stórt númer hjá Arfi.ehf, eina samkeppnisaðila Íslenskrar Erfðagreiningar, og Sólveig var vongóð um að hann yrði landgöngubrúin þeirra af þessu sökkvandi skipi sem þær réru, því Arfur var í miklum vexti þvert á kreppuna. Hún var ekki að nenna að fara að vera þriðja hjólið á hálfgerðu stefnumóti Sólveigar en hún var að fara verða örvæntingarfull varðandi vinnuna sína og fann að hún þurfti að leita á önnur mið.
Katla hafði nefnilega enga löngun til að hætta að vinna og eyða þeim takmarkaða tíma sem við blasti með fjölskyldunni eða á flakki um heiminn eins og margir aðrir, rannsóknirnar hennar voru þvert á móti eitt af því fáa sem hélt Kötlu gangandi núorðið.
-
Já börnin mín, framhald síðar (Mýmargar innsláttarvillur verða afsakaðar, af ykkar hálfu. Takk.) ...

UPDATE: Til einföldunar: hver penni á einn lit af setningum.

Sunday, September 28, 2008

L'attaque d'Islande!

Í Latakia, strandbæ Sýrlendinga. Ströndin sem við búum við er þó eiginlega of skítug til að njóta hennar, leiðinlegt.

Fyrst og fremst: Bílasprenging varð í Damaskus, drap 17 manns,
sem virðist þó ekki þykja stórmál á alþjóðastjórnmálaskalanum ef marka má fjölmiðlaumfjöllun. Vitum ekki meir, en förum líklega samt til Damaskus eftir, tja 5 daga eða svo.

Ég segi það og skrifa, það sem minnst verður saknað frá Íran verður líklega maturinn, enda fannst manni oft eins og aðeins væri um einn rétt að ræða. Fyrir utan ísinn reyndar, eiginlega besti rjómaís sem ég hef smakkað, svei mér þá. Íran, au revoir, pottþétt.

Sérlegar ástarkveðjur fær Esfahan. Eftir óttaslegna daga í menguðustu borg sem ég (sem hef btw komið til Peking) hef komið til var unaður að sleppa frá umferðinni í Tehran. Í Esfahan var fallegt og gott. Verandi ljóshærð og bláeygð öll, á suðrænan skala amk, erum við sívinsæl og var boðið í feeeeiitt partí með Smirnoff! Já lesendur góðir, við brutum lög í Íran.

Þriggja daga lestarferðin frá Tehran til Aleppo (í N-Sýrlandi, gegnum Tyrkland) var stórmerkileg upplifun á sjálfsviðhorfs-/ félagslega skalanum. Við vorum vinsælasta fólkið í lestinni, svo óheyrilega vinsæl að við gripum fljótlega til þess ráðs að læsa dyrum (tvær á litla klefanum) og opnuðum ekki nema virkilega væri farið að berja (landamæralögga eða slíkt).

Annars vegar var það Hr. Farsí-frasabók. Hann kunni ca. 5 orð og frasa í ensku en hélt þrotlaust uppi samræðum í gegnum frasabókina klukkustundum saman. Spurði Davíð m.a. hvort hann ætti ökuskírteini og hvort hann hefði meðferðis tollskyldan varning, ásamt öðru sem maður vill vita um samferðamenn sína. Við vorum bara of kurteis til að segja honum að HÆTTA AÐ BÖGGA OKKUR!

Hins vegar aðallestarstarfsmaðurinn, hann var þó ágætur og gaf okkur argentínskt te, Mate, Áu til mikillar gleði (þótt hún hefði fussað yfir því að hann blandaði það "vitlaust"). Svo var Nanna skömmuð fyrir að vera glyðrulega klædd fyrir framan alla Íranina í lestinni. Haha.

Sýrland

Byrjar frekar vel. Hér er allt absúrd ódýrt, sem gaf tilefni til delúx máltíðar með forboðna drykknum, bjór, fyrsta kvöldið. Svo er maður ekki neyddur til að vera með slæðu frekar en maður óskar. Þótt Sýrland eigi sér ýmislegt til ágætis er það ekki beinlínis í blóma lífsins og lifir töluvert á fornri frægð. Fyrir utan ódýran og góðan mat (falafel á 30 kr.!) er því helst að sjá rústir í þessu landi. Við erum búin að sjá aðeins of margar moskur.

Til verri vegar er þó að hér í Latakia er komin til sögunnar fyrsta leiðindapadda ferðarinnar, sem er einfaldlega kakkalakki sem býr í eldhússkápnum. Áa hljóp hetjulega á eftir honum um alla íbúð með Írans-Lonely Planet á lofti án árangurs. Niðurstaðan er engu að síður sú að Áa er hetja, við hin erum kjellingar og eymingjar.

-Halldóra

Monday, September 22, 2008

Lágmarksupplýsingar

Verdum í lest naestu thrjá dagana, Frá Íran til Sýrlands í gegnum Tyrkland. Bae bae.

Saturday, September 20, 2008

Óður til Mousavi

Íran.

Fyrsti bærinn handan landamæranna var Orumiyeh. Nú bera stúlkurnar slæður. Hittum tvo mis-enskumælandi menn. Þeir tóku að sér leiðsögn óumbeðnir. Var það vel. Þeir eru nú internetvinir vorir. Annar þeirra, hinn 17 ára Navid, var alls ekki feiminn við að ræða stjórnmál og ömurlegt ástand mála. Eins var einn hótelstarfsmannanna, dýralæknir að mennt, sem hafði ljúfsáran talanda og kraumandi óbeit á hagan mála. Sagðist eiga það á hættu að vera drepinn fyrir að eignast kærustu (Ég leyfi mér að segja þetta nafnleyndarlaust og í sönnum smáatriðum því hér lesa fáir og tala fornt, hálfdautt mál).

Ekki að þetta sé nokkuð annað en skemmtilegt og merkilegt fyrir okkur sem erum bara í heimsókn. Og allir eru stórkostlega vinsamlegir og hjálplegir.

Svo fórum við til Tehran. Hún er stór, óþægilega stór, og umferðin er sú snargeðveikasta sem nokkuð okkar hefur komist í tæri við. Það að taka leigubíl er einnig erfitt, þar sem helmingslíkur eru á því að reynt verði að rukka of mikið, eða rukka uppsett verð á hvern farþega og þar fram eftir götunum (...í leigubílunum). Leigubílstjórar eru þannig eina óvinsamlega fólkið sem við höfum hitt (utan auðvitað leigubílstjórans sem var svo sérlega vinalegur að klípa Halldóru í rassinn að skilnaði).

Slík væg óvinsemd var þó veginn upp að fullu og gott betur af honum Hr. Mousavi, hótel stjóra á Hotel Firouzeh. Hér er um að ræða sannkallaðan ferðamannadýrling. Bæði hverfist heilt sólkerfi af nytsamlegum ferðaupplýsingum (opnunartímum, söfnum, tilboðum, matsölustöðum o.s.frv.) um vitund hans, og svo er hann tilbúinn að skipuleggja ferðir manns um landið allt í þaula eftir öllum fráleitustu óskum og dyntum. Hann fór alltaf skrefinu lengra. Gott dæmi er til að mynda að þegar við héldum frá Tehran (með næturlest sem hann hafði pantað handa okkur) vísaði hann okkur á frábært, hefðbundið íranskt tehús rétt við lestarstöðina til að borða kvöldmat fyrir brottför. Hinsvegar var bara hægt að fá kjötrétti þar, en þar sem hann vissi að tvö okkar voru grænmetistætur, þá pantaði hann þjóðlegan eggaldinrétt af öðrum veitingastað og kom sjálfur með hann inn á tehúsið (hér er klukkan 9 um kvöld). Dæmin eru mikið fleiri.

Eitt sérstaklega skemmtilegt atvik var þegar tvíburabróðir Hr. Mousavi (sem heitir jú líka, Hr. Mousavi) tók okkur í safnarúnt um borgina. Við vorum tiltölulega nýstiginn upp í bílinn, höfðum fátt sagt, og hann spyr um veðurfarið heima á íslandi. Áður en við náum mikið að útskýra temprað eðli eyjaloftslags, spyr hann hvort fólk frjósi ekki bara, sem í dvala væri, í tvo mánuði yfir veturinn, vegna kuldans. Þetta þótti honum alveg ofboðslega fyndin tilhugsun. Hann hló þeim aulalegasta og mest smitandi hlátri sem við höfðum heyrt, og hann hætti ekki, heldur endurtók bara "for two months, just freeze" og hló meira. Við hlógum líka. Á endanum var allur bíllinn í stjórnlausu kasti í 5-10 mínútur yfir þessum ömurlega brandara (Smá svona sveinbjarnarstaðgengill, hann Mousavi annar).

En nú erum við komin til Isfhan, á frábæru hóteli sem Mousavi bókaði, en höfum þar ekkert upplifað enn.

PS: Hér er enn Ramadan, og erfitt, stundum ómögulegt, að fá mat og drykk yfir daginn. Soldið vesen, en um leið hressandi.

Síðar, þið fögru - Davíð

Tuesday, September 16, 2008

Elskhuginn frá Van

Ooog áfram höldum við að henda inn nýjustu fréttum eins og vindurinn.

Eftir indælistúristakindalíferni í Cappadocia héldum við í rútu til Van, sem seint verður kölluð mikil túristagersemi, en samt gaman að koma og sjá hvernig hið típíska borgarlíf gengur fyrir sig.

Stoppið okkar þar var örstutt, ein nótt, en Van mun ábyggilega borast inn í ferðaminnið okkar aðallega vegna þeirra dásamlegu tveggja gæja sem við hittum þar. Um leið og við drösluðumst inn á hótelið okkar tók nafnlausi ungi hótelstjórinn okkar (hér kallaður herra Aslan, þar sem við náðum ekki nafninu hans) á móti okkur og fór að segja okkur nönnu frá írönskum hórupöntunarbæklingum sem honum fannst afar sniðugt system. Við vorum ekki eins sannfærðar.

Um kvöldið sátum við öll saman í lobbíinu hans og þar nýtti hann tækifærið til þess að lýsa yfir eldheitri ást sinni á Halldóru. Hann sagði að við höfðum öll afar jákvæða orku en Halldóra hitti hann hinsvegar beint í hjartastað, líðandi niður hótelstigann eins og gyðja. Hann vildi endilega að hún yrði ein eftir hjá honum í sveitarómans í Van. Hann var að vísu giftur en það var algert aukaatriði. Halldóra dó tímabundið úr pínlegheitum og var gæjinn afar sár að við skyldum ekki vilja gefa okkur tíma í Van svo hjörtu þeirra gætu náð almennilega saman. Daginn eftir braust hann meira að segja inn á hótelherbergið okkar eldsnemma um morguninn, en þorði ekki að gefa Halldóru blómin sem hann var búinn að kaupa handa henni í veikri tilraun til þess að heilla hana í síðasta sinn.

Við skyldum hann eftir í sárum og fórum í leiðangur til að kaupa okkur rútu til Omuyieh í Íran hjá næsta rútukompaníi. Þar mættum við skilningsvana andlitum en þá var hóað í bjargvættinn okkar, herra Bayram. Hann var afar krúttlegur miðaldra kall sem vildi allt fyrir okkur gera, enda er hann aðal doninn í Van, átti lúxushótel og rútukompaníið líklegast líka. Honum fannst geggjað að í för væru tveir blaðamenn og sýndi okkur fína hótelið sitt svo við gætum nú skrifað um það í blöðin heima. Hann reddaði okkur svo í risa einkarútu með bílstjóra og fylgdarmanni sem leiddu okkur yfir írönsku landamærin og beint á hótel hér í Omuyieh.

Planið er svo til Tehran í kvöld, meira og ítarlegra síðar!
Áa

Sunday, September 14, 2008

Kappadókía est la mode

(ATH: þessi bloggfærsla tafðist vegna rafmagnsleysis í tengslum við óveður í tyrknesku borginni Van, og er birt hér vel úr takti við ferðalagið, því við erum í Íran.)

Halldóru ládist med öllu ad greina frá aevintyrum okkar í Kappadókíu, thó thar hafi margt aevintyralegt átt sér stad. Stígid med mér, lesendur gódir, aftur í tímann:

Um leid og vid stigum út úr rútunni var okkur smalad inná skrifstofu mikils túrismamógúls sem kalladi sig Gengish Khan og svo thadan út í mini-bus eftir ad hafa fjárfest í 2. daga prógrami og gistingu, enn hálf sofandi. Vid tók thaegilegt, ósjálfráda rollulíferni thar sem módurlegir leidsögumenn brummudu med okkur strytnanna á milli og upplystu okkur um alla tha sögu sem hér vellur úr hverri skoru.

Og margt var mjög merkilegt. Vid skodudum frumkristnar hellakirkjur sem sjálfur Páll Postuli hafdi lagt hornsteininn ad (í áthreifanlegri skilningi en ad ödrum kirkjum) sem voru stadsettar í stórbrotnum hellabaejum. Thví naest gengum vid um afar lítınn hluta absúrd vídfemrar nedanjardarborgar sem hittítar höfdu hafid ad grafa en bysansmenn lokid vid, 8 haedum og 2000+ árum sídar. Thar gátu 10.000 manns vidhafst, mánudi í senn (eda thar til innilokunarkenndin raendi thad vitinu), ef óvinir sátu um yfirbordid. Við vorum sammála um mikil merkilegheit þessa.

Og margt fleira.

Eitt sem var sérlega skemmtilegt vid túrana hans Gengish Kahn, var ad vid fengum ad kynnast lókal idnadi med heimsóknum til framleidslufyrirtaekja á svaedinu (thar sem idnin var kynnt stuttlega og svo var hafist grimmt handa vid ad reyna ad selja okkur afurdirnar). Fyrst var stórtaek leirkeraverksmidja, sem sama fjölskyldan hafdi rekid í 300 ár (Nanna var valin til ad föndra skál úr leirtyppi), svo skartgripverkstaedi thar sem gaf ad líta onyx og turkíssteina, nema hvad. En best var heimsóknin til Tyrknesks sútara.


Á ledurverkstaedinu var cat-walk, svokallað. Vid settumst vid pallinn, euro-techno-inu var blastad af fullu afli og 4 saetustu starfsmenn verkstaedisins syndu utan á sér thau allra ljótustu ledurföt sem við höfum séð. Sérstaklega var eitt karlmódelid skemmtilegt, líkamstjáningin óaðfinnanleg, sannkölluð guðsgjöf til allra aðdáenda karlformsins. Hann var kominn í draumastarfið. Okkur Halldóru og Áu þótti þetta allt saman mjög fyndið og skemmtilegt, en þetta vó þungt á sál Nönnu. Hún steyptist í djúpt þunglyndi við tilhugsunina um að nokkur lifði lífinu í tyrkneskum útnára við að sýna (mestmegnis japönskum) túristum leðurföt. Hún tók að sér 20 mínútna tilvistarkreppu fyrir þeirra hönd.

Afsakið myndaleysi, Davíð.

Tvífarar Tyrklands

Hér í Tyrklandi bregdur ymsu fyrir, baedi kunnuglegu og ekki. Umferdarmenningin og matmálstímar virdast svipadir íslenskum og fólkid starir á ljóshaerd og bláeyg fríkin í réttu hlutfalli vid magn ferdamanna á hverjum stad.

Til ad taka frekari thátt í thessum líkindum brá Halldóra sér í gervi Atatürks:

















Fyrir thá sem ekki vita er herramadurinn hér ad ofan herra Atatürk, súpermadur Tyrklands (eins og leidsögufrökenin í Göreme ordadi thad).
Atatürk prydir alla sedla hinnar nyju tyrknesku líru, (sem vard til árid 2005 thegar sex núll voru klippt af gömlu verdbólgnu lírunni) og er grídarlega vinsaelt vidfangsefni myndhöggvara um land allt.



Ofurmadur vs. ofurköttur

Vid komuna til Van í Austur-Tyrklandi, thar sem thetta er ritad, kom thó í ljós ad fleira er haegt ad smída en herrann sjálfan:

Nefnilega Van-kisuna, sem skartar einu bláu auga og einu gulu.
Kisulórurnar atarna ku vera svo dyrmaetar ad theim er yfirhöfud ekki hleypt út undir bert loft, greyjunum.
Pöpullinn faer thví ad njóta theirra í thessari brjálaedislega stóru styttu!

Löv,
Halldóra

ps. Thess utan eru betlikettir alls stadar á vappi í Tyrklandi, ég held ég hafi aldrei séd jafn marga ketti í mínu umhverfi hvorki fyrr né sídar.

Thursday, September 11, 2008

Tyrkjaluxuslif

O svo mikid stud a oss i Pamukkale, einni fraegustu turistaparadis Tyrklands. Komum hingad og stadfestum i leidinni fullyrdingar besta vinar okkar, Lonely Planet, ad tyrkneska rutukerfid er superb. Luxusnaeturruta med 2-3 rututhjonum (an djoks - soldid soviet) sem gefa manni vatn eftir pöntun og jolaköku i morgunmat.
Vorum svo teymd fra einni rutu til annarrar eins og saudir og endudum a Four Seasons, Pamukkale. Thetta Four Seasons tekur samnefndri kedju fyrst og fremst fram i verdi, kannski einhverju ödru sem vid attum okkur a sidar i endurliti. Her er ad visu sundlaug, sem slo ad eg held adeins a strandarthra Nönnu. Vid erum luxusbakpokarar!

Eeeeen Pamukkale, haromadur stadur, en vid erum ekki enn buin ad nenna ad fara upp og skoda hina undursamlegu kalkutfellingar. Erum ad fara nuna. Nuna, nuna.

Naest a dagskra er Kappadokia, thar sem folk bjo i den nedanjardar i leirstrytum sem LP, haldandi sig vid hefdbundnar likingar, ber saman vid svissneskan ost.

Ciao for now, Halldora

Sunday, September 7, 2008

Vid erum i İstanbul. Borgın byr yfır thaegılegrı stemnıngu sem bırtıst tıl ad mynda ı ad sıtja upp a thakbar farfuglaheımılısıns, drekka bjor og reykja vatnspıpu og hlusta a baenakoll fra Hagıa Sofıa, Blau moskunnı og fleırı moskum. Borgın er hıns vegar dyr og mıkıl turıstaborg. Svo er mıkıd af folkı her. Og lyklabordıd er fokked. Jaeja bless. nanna

Friday, August 29, 2008

Þetta er fyrsta færslan. Fyrsta færslan á bloggi er alltaf rusl, það er bara lögmál. Enda er höfundur hennar ekki eigandi bloggsins, og svo er hún líka skrifuð í Reykjavík, sem var ekki tilgangur bloggins. En jómfrúarfræslu blogga fylgir jú líka sá kostur að henni má hæglega eyða. Góða skemmtun úti, krakkar og fariði varlega.
Ég mun sakna ykkar.

Hafdís