Sunday, December 7, 2008

Saga fyrir svefninn

Einu sinni voru þrír litlir (duh...) dvergar. Þeir hétu Illugi, Vilberg og Már Níels, en voru aldrei kallaðir annað en Illi, Villi og MaNilli. Þeir bjuggu allir saman í sér-innréttuðu, dvergavænu húsi sem Reykjavíkurborg hafði útbúið og niðurgreitt handa þeim. Þeir þoldu hvorn annan ekki, en Reykjavíkurborg hafði ekki efni á því að útbúa og niðurgreiða dvergavæn hús fyrir hvern og einn þeirra. Þessvegna bjuggu þeir saman.

Illi var vitlausasti dvergurinn, svo vitlaus að hann var þroskaheftur og löglega afsakaður á ýmsum sviðum daglegs lífs. Enginn vissi hve vitlaus eða klár Villi var, því hann hafði aldrei sagt orð og það fór afar lítið fyrir honum á heimilinu. Hann var Pípari. MaNilli var hinsvegar fluggáfaður, auk þess sem hann hafði milt og gott hjarta. Hann var jarðfræðiprófessor, en vann mest að sjálfstæðum félagsverkefnum sem snéru að eiturlyfjasjúklingum.

Illi, Villi og MaNilli voru allir, eins og áður segir, litlir. En þeir voru ekki jafn litlir. Illi vitleysingur var 87 sentimetrar, á meðan Villi og MaNilli voru báðir aðeins 86 sentimetrar. Þessvegna var Illi foringinn á heimilinu, hvað sem tautaði og raulaði.

Og einn daginn, fyrir ekki svo löngu, ákvað Illi vitleysingur að hann vildi vinna eins og hinir dvergarnir, í stað þess að ríkja yfir sérútbúna húsinu í konunglegri leti. Hann sagði Bæði Villa og MaNilla að núna yrðu þeir að segja upp störfum sínum. Hann hefði nefnilega fengið vinnu fyrir þá alla hjá hinni nýstofnuðu Leyniþjónustu íslenska ríkisins.

Þar myndu þeir standa hver á herðum hins, Illi efst, og klæðast gríðarlöngum frakka sem einn maður. Svo myndu þeir vakta Bæði Hlíðarnar og Vogana fótgangandi, og ráðast að öllum innflytjendum sem þeir sæu og berja þá. Allra helst ef þeir eru skáeygðir.

Og þarna vafra þeir enn þann dag í dag, valtur risi í síðfrakka sem staulast á eftir grunnskólabörnum sveiflandi kylfu með agnarsmáum höndum. Illi er hæstánægður, Villi hefur enn ekki sagt orð en stundum, sjaldnar og sjaldnar, heyrist mjóróma andvarp úr klofi frakkans, fullt brostinna vona...

4 comments:

Erla Elíasdóttir said...

hlátur

Anonymous said...

Mamma segir: "hvað er drengurinn að spá í að skrifa svona þegar þau eru í annarri heimsálfu" bætir síðar við "Ekki eins og það sé ekkert af þeim að frétta, í annarri heimsálfu og svona"

Þar hefuru það.....

Anonymous said...

Já, ég biðst afsökunar.

Ég hef þó þær litlu málsbætur að þessi saga átti sér stað hérna úti, í þeim skilningi að hún var, jú, sögð fyrir svefninn. Þetta er lítilega fínpússuð útgáfa. Og töluvert ritskoðuð.

Ladybug said...

Díseeees Steikt en mjög skemmtilegt aflestrar! haha...