Thursday, December 11, 2008

Lítil hetjusaga

Þá erum við loksins búin að yfirgefa agnarsmáu paradísarköfunareyjuna okkar (eða köfunarhelvítispyttinn eins og non kafararnir í hópnum kusu að kalla hana, ástúðlega.) Haldandi að Ko Tao yrði ekki toppuð brá okkur frekar mikið í brún þegar við sigldum inn í litlu klettavíkina hérna í Railay á vestur Tælandi. Siglingin var eins og að komast inn í aðra vídd, himinháir gróðurklettar í allar áttir og nei, Dísa, ekkert photoshop rugl hér.

Ég komst einnig í aðra vídd heilsufarslega séð á meðan siglingunni stóð, en dyrnar að helvíti opnuðust í sirka tvo tíma og héldu mér í sjóveikisheljargreipum. Þar sem ég lá ælandi og svitnandi og skjálfandi í stólnum mínum gerðist hins vegar alveg magnaður hlutur.

Ungur herramaður sem starfaði sem ferjuþjónn um borð, kom að mér og hljóðlaust tók utan um mig og bar mig og töskuna mína aftast í bátinn þar sem ruggið var minna og lagði mig pent niður á gólfið og settist hjá mér. Þá næst gaf hann mér ilmolíudropa sem hann nuddaði á gagnaugun og á hálsinn, lét mig lykta af andsjóveikisilmsöltum á kortersfresti, vék ekki frá mér alla ferðina í land og taldi niður mínúturnar þangað til henni lyki fyrir mig. Hetjan nuddaði á mér axlirnar, hálsinn og hendurnar, hélt utan um mig og um hárið þegar ég þurfti að æla og svo leyfði hann mér að bora höfuðið mitt inn í hálsakotið hans, þar sem það var eini staðurinn þar sem ekkert ruggaði á þessum sataníska báti. Allt þetta gerði hann orðalaust og fullkomlega sleazylaust á meðan ég lá stynjandi og hálfmeðvitundarlaus upp við hann.

Þegar við loksins komumst á fast land var ég svo hrærð yfir góðmennsku hans að ég vissi ekki hvort ég ætti að hlægja eða gráta, ég fleygði mér í fang hans að kveðjuskyni, Davíð til mikillrar furðu, þar sem engin vitni höfðu verið að hetjuskapnum. Ég mun digga þennan mann eilíflega frá innstu hjartarótum, og ég efast um að sjoppustarfsmenn í Baldri myndu bregðast eins við veikum túristakindum, að þeim ólöstuðum.

Það er reyndar alveg magnað hvað samgönguþjónar hafa heillað okkur í þessari ferð. Í miðausturlöndum höfðum við tvo rútuþjóna í hverri rútu sem dældu í okkur vatni og sprautuðu ilmvatni í klúta og færðu okkur. Reyndar féllu þeir svo í ónáð þegar einn þeirra reyndi árangurslaust að káfa á mér í svefni en það er nú önnur saga. Kynbombuflugfreyjurnar og flugþjónarnir hjá Qatar airways voru svo uppspretta langra umræðna um þrýstna rassa, stóra barma og fegurðastuðla hjá ráðningaskrifstofum flugfélagsins. En ekkert toppar þó hetjuna.

En hingað erum við komin í heilmikið klettaklifursprógram en þessi staður þykir einn besti klifurstaður í heimi með alla þessa kletta skagandi út um allt. Göngugarpurinn klífur þó bara hugartinda, göngugrindin var skilin eftir á Ko Tao en göngugirndin magnast með hverjum deginum. Markmiðið er að komast hækjulaust til Singapore. Einn, tveir og allir saman nú, ÁFRAM Göngudóra!

Annað í fréttum er að Nanna er orðin ljóshærð og krullhærð, ég lét klippa nær allt hárið af mér og Davíð setur sítrónu á hausinn til að hann verði ljóshærður og sætur í öllu taninu sem á sér stað hérna.

Næstu dagar eru semsagt undirlagðir undir klettaklifur og vonandi enn eina köfunarferð áður en við fljúgum á Singaporesteinsteypuna.

Gleðileg aðventukósíheit!
Áa

6 comments:

Anonymous said...

Hahaha, ég veit ekki afhverju en ég byrjaði að lesa þessa færslu með Davíð í huga sem höfund.

Afar hómóerótískt!

Erla Elíasdóttir said...

haha, ég gerði það líka! alveg uns sagði að hann hefði haldið hárinu... en ætli karlkyns farþegi hefði fengið sömu þjónustu?

Anonymous said...

ég hélt það líka! þar til þetta með hárið tíhí

Unknown said...

Þetta VAR davíð sem skrifaði þetta. Hann er kominn með hár. Húrra!

Ladybug said...

Haha...vá en falleg (fyrir utan svefnkáfið) og einhvernveginn stórkostlega undarleg saga...Áfram spontant bonding!

Ladybug said...

Btw.- ég tek þetta blogg í törnum, les nokkrar færslur á einu bretti. Því hafa nú bæst við komment frá mér eitthvað aftur í tímann :)