Sunday, January 11, 2009

Bækurnar

Hér er lokalisti yfir allar þær bækur sem við fjögur höfum í sameiningu innbyrt síðan við hófum för. Einkunn fylgir hverri bók, frá hverjum lesanda. Einkunnarskalinn er eins og áður eftirfarandi:

0 - Hörmung ein
1 -
2 - Vítaverð sóun nytjaskóga
3 -
4 - Ekki góð bók
5 -
6 - Ekki slæm bók
7 -
8 - Afþreying og gott betur
9 -
10 - Fullkomin fegurð


(Hæsta einkunn, 10, er ekki skilgreind sem "allra besta bók allra tíma" heldur bara yfirmáta frábær - einkunnir eru því í hærri kantinum. Heilar og hálfar tölur eru leyfðar. Einkunn hvers er tilgreind með upphafsstaf (Á, D, H og N). Lítið e eftir einkunn þýðir að viðkomandi hafi verið að endurlesa bókina. Stórt B þýðir að viðkomandi hafi lesið bókina einhverntíman fyrir ferðalagið, en ekki aftur á meðan á því stendur. Þá fylgir engin einkunn.)

Bækurnar eru í stafrófsröð:

---

9 Stories eftir J.D. Sallinger: D:9,5 / N:8,5

A Heartbreaking Work of Staggering Genius eftir Dave Eggers: Á:8,5 / D:8 / H:?

A Poirtrait of the Artist as a Young Man eftir James Joyce: D:8,5

The Accidental eftir Ali Smith: Á:7 / D:7 / H:8 / N:8

Big Bang eftir Simon Singh: D:8

The Blind Assassin eftir Margaret Atwood: Á:9,5 / D:9 / H:B / N:8,5e

Buddha: Kapilavastu (Vol. 1) eftir Osamu Tezuka: Á:8 / D:8

Burning Chrome eftir William Gibson: D:B / H:7,5

Catch 22 eftir Joseph Heller: H:9 / N:9

The Code Book eftir Simon Singh: D:8

Emma eftir Jane Austin: N:6

Fictions eftir Jorge Luis Borges: Á:9,5 / D:9,5 / N:9

Galapagos eftir Kurt Vonnegut: Á:8 / D:8,5 / H:7,5 / N:8,5

Glæpur og Refsing eftir Fjodor Dostoevskíj: H:8,5 / N:B

The Grass is Singing eftir Doris Lessing: N:9

The Illusion of Destiny eftir Amartya Sen: Á:8 / D:7

Meistarinn og Margaríta eftir Mikhaíl Búlgakov: Á:10 / D:10 / H:10e / N:B

Midnight's Children eftir Salman Rushdie: Á:9,5 / D:9 / H:B / N:9e

Pale Fire eftir Vladimir Nabokov: D:9

Pattern Regocnition eftir William Gibson: Á:9,5 / D:7,5

Rokland eftir Hallgrím Helgason (hljóðbók): Á:6

Sendiherrann eftir Braga Ólafsson (hljóðbók): N:7,5

Síðasta setning Fermats eftir Simon Singh: D:8 / H:8

Speak What We Feel eftir Frederick Buechner: Á:7,5

Tröllakirkja eftir Ólaf Gunnarsson: D:8 / H:8 / N:8

Út að stela hestum eftir Per Petterson: Á:6 / D:5,5

The White Man's Burden eftir William Easterly: Á:8 / D:9,5 / H:?

White Teeth eftir Zadie Smith: H:8,5 / N:8,5

The White Tiger eftir Aravind Adiga: D:9 / N:9,5

The Wind-up-Bird Chronicle eftir Haruki Murakami: D:7,5 / H:8 / N:8,5e

---

Þessar skruddur hafa lúmskt vægi í ferðalaginu öllu, ekki síður en staðir, hlutir og fólk (enda voru þær flestar um þetta þrennt). Þær verða órjúfanlegir þættir í minningunni af ferðinni, enda mikill tími til lesturs í lestum, rútum, flugvélum, ýmiskonar biðstofum og andyrum og, því miður, í veikindum (eða í félagsfælinni heimsetu meðan stúlkurnar stunduðu saurlifnað kvöldin löng, í tilfelli litla drengsins).

Og sumt var einstakt að lesa með hliðsjón af umhverfinu; Midnight's Children og White Tiger eru báðar stórkostlegar og það enn frekar með Indland fyrir augunum, eða ferskt fyrir hugskotssjónum. Svo var skemmtilegt að við læsum öll sömu bækurnar, í sama mund og við deildum sömu húsakynnum, baðherbergjum, máltíðum o.s.frv. Það orsakaði mikla, mis-gáfulega og langvarandi umræðu um verkin, gæði þeirra og inntak. Skemmtilegt þegar allir mynda sér skoðun.

Einkunnalega má sjá, kannski nokk fyrirsjáanlega, að Meistarinn og Margaríta eftir Búlgakov verður útnefnd besta bók ferðalagsins. Annað sætið er engu að síður skammt undan í gæðum, um leið og það er troðið mögulegum kandídötum.

Besta sameiginlega bókmenntaupplifunin er hinsvegar klárlega þegar Áa las Borges fyrir okkur við dauft kertaljós, liggjandi fjögur uppá maísgeymslulofti í Kasmír, þægilega þreytt eftir dagslanga fjallgöngu. Smásagan um hinn minnuga Funes er nógu fullkomin upp á sitt einsdæmi, en hún drakk í sig alveg nýja vídd frábærleika og dulúðar úr hálf óraunverulegum aðstæðunum.

Þessi þurri listi þarf líklegast að duga sem niðurlagsfærsla bloggsins eins og það leggur sig. Langtíburtistan kveður.

Monday, January 5, 2009

Andvarp

Já, andvarp.

Yfir hverju? Svo mörgu.

Af hvaða sort; vonlaust, dapurt eða sælt andvarp? Sitt lítið af hvoru.

Síðast þegar lesendur vissu voru hin þrjú fræknu (óvanalegt af Halldóru, að skemma stuðlun) á Bali á Indónesíu, í kafi. Núna erum við á þurru landi, nei, "þurru" eru ýkjur, en tvímælalaust ofansjávar. Þetta vota land er eyjan Flores. Ekkert okkar hefur nokkru sinni verið jafn langt frá norrænu heimili okkar, ef útreikningar mínir standast, og við hættum okkur ekki lengra í þessari ferð. En rigningin og fjarlægðin orsaka ekki andvarpið.


Bali
Á Bali áttum við góð jól; köfuðum eins og áður segir, spændum upp malbikið á vespum, Áa samdi, söng og spilaði jólalag og síðasta daginn fórum við í eldfjallgöngu. Sú ganga var falleg og fín, en orsakaði tvö heilsufarsvandamál hjá mér, Davíð (höfundi færslunnar, sörpræs, sörpræs). Ég fór sokkalaus í sandölum, sem voru helst til lausir á fótunum, og þegar ég kom aftur að fjallsrótum blæddi sumstaðar. Þetta, þó ég sé enn sár, reyndist hinsvegar minniháttar miðað við sólbrunann sem axlirnar á mér urðu fyrir, en það kom ekki strax í ljós og er margþætt saga. Byrja á því að segja þetta hafi verið slæmur bruni, en innan eðlilegra marka.

Gili Trawangan
Frá Bali héldum við til Gili eyjanna, vestur af Lombok, nánar tiltekið til Gili Trawangan. Þessar eyjar eru lítið meira en sandrif í sjónum (við hjóluðum umhverfis Trawangan á hálftíma), en þar er töluverður túrismi, partístand, köfun og strendur. Þar eyddum við nokkrum dögum fram að Áramótunum, en átta að morgni nýársdags (útsofin og hress...) fórum við um borð í ofvaxna trillu þar sem við ætluðum að eyða næstu 4 dögum.

Við höfðum nefnilega keypt okkur ferð til Flores fyrrnefndrar, með nokkrum sérvöldum snorkl-stoppum (snorkl, ef einhver skyldi ekki vita, er að vera með sundgleraugu og öndunarrör í munninum) og stoppi á Komodo eyjum. Þar búa Komodo drekarnir, stærstu eðlur veraldar. Á þessum tímapunkti var allur sársauki farinn úr sólbrunanum mínum (stelpurnar héldu samt lífi í sameiginlega sársaukanum með timburmönnum), en axlirnar á mér hinsvegar farnar að flagna vel og vandlega.

Siglingin
Ferðin byrjaði vel. Veðrið var gott og eyjurnar og hafið fallegt. Að vísu voru hinir 13 túristarnir á bátnum hver öðrum ófyndnari, en heilt yfir vinalegur og meinlaus hópur. Maturinn var fínn. Svo í fyrsta snorkl-stoppi varð ferðin mjög góð, því aðstæðurnar og dýralífið var fyrirmyndar frábært. Ég hinsvegar snorklaði, nokk eðlilega, í sundskýlu og engu öðru, og bleika, nýfædda húðin á öxlunum tók ekki vel í að snúa bakinu í sólina tímunum saman.

Ekki aðeins brann ég aftur, svo illa að á öxlum mínum eru í þessum rituðu orðum stórar vökvafylltar blöðrur og nokkur óhugnanleg litbrigði, heldur fékk ég líka sólsting. Frá þessu varð sjóferðin versta þolraun lífs míns (svona af þeim sem ég man eftir í augnablikinu). Ég missti alla matarlyst. Mig svimaði það sem eftir lifði ferðarinnar (og enn í dag). Ég var/er alltaf með gæsahúð, óháð hitastigi. Ég var ófær um að sofa samfellt meira en 1-2 tíma, ekki síst því það var pizza-þunn "dýna" (einhverstaðar milli dominos og eldsmiðjunnar) sem hlífði manni fyrir þilfarinu, þilfarinu sem víbraði með díesel drununum sem myrtu næturþögnina. Ég vildi lítið hreyfa mig meðan ég lá sökum bruna, og núna er ég með mar á báðum mjöðmum þar sem ég lagði þunga minn. Liðverkir, beinverkir, vont að hreyfa augun. Nema hvað.

Þetta er augljóst Karma fyrir það hve hrokafullt gys ég hef gert stelpunum fyrir öll veikindin, enn írónískara í ljósi þess ég get engu kennt um öðru en eigin heimsku. Að því sögðu, þá voru bæði Nanna og Áa að sjálfsögðu veikar um borð í bátnum, hóstandi og hnerrandi hægri vinstri. En við sáum Komodo Drekana og allt umhverfið var voða fallegt þegar maður reif augun frá eigin volæði.

Flores
Og í dag erum við að reyna púsla okkur aftur saman hérna á Flores, áður en við byrjum að fikra okkur (nokkuð hratt) í átt að Jakarta á morgun, þaðan sem við fljúgum heim þann tíunda. Þeirri tilhugsun fylgir ljúfsárt andvarp (85% ljúft, 15% sárt eins og ástandið er). Við hlökkum voða mikið til að hitta ykkur (...sum).

Jafnvel þó þið hafið greinilega bara áhuga á Halldóru, ef mið er tekið af því að ekki stakt komment hefur borist far-away-istan síðan hún yfirgaf hópinn...