Thursday, December 4, 2008

Hrakföll

Það kann að virðast sem svo það sé langt síðan við blogguðum síðast, svona á dagatalinu. En tíminn er seigfljótandi fyrirbæri hjá okkur sem búum í lítilli vík á lítilli eyju og oft er eins og sólin rísi og hnígi í einum djúpum, söltum andardrætti. En nei, ekki fara lesendur, þessi færsla verður ekki önnur montrausa um ágæti þess að vera á ferðalagi:

Það fyrsta sem við ákváðum að gera á Tælandi var að læra að kafa á köfunarparadísinni Koh Tao (22 ferkílómetra eyja, stutt austur af suðuroddanum). Ein nótt í Bangkok og svo burt úr mannmergðinni.

Þegar við lögðum af stað suður eftir var Nönnu hinsvegar farið að vera verulega illt í öðru eyranu ofaná heiftarleg kvef-veikindi. Hún lýsti rútu- og bátsferðinni hingað sem versta legg ferðarinnar hingað til, og með verri reynslum lífs síns. Við komum í hendur læknis daginn eftir, sem sagði að hún væri með sýkingu í hálsinum og gaf henni 6 mismunandi pillur á okurprís. Nanna var ekkert að fara að kafa næstu 5 dagana hið minnsta. Batinn varð hinsvegar enn hægari en það, svo hægur að læknirinn ákvað að leggja hana inná míní-spítalann sinn eina nóttina.

Á meðan á þessu stóð fór Halldóra ferða sinna haltrandi, enn aum í öklanum eftir "lestarslysið" á landamærum Nepal. Hún vonaði að hún yrði orðin nægilega góð í fætinum þegar kæmi að köfuninni, sérstaklega í ljósi þessarar 5 daga frestunnar sem veikindi Nönnu ollu.

Óekkialdeilis. Allt haltrið varð þess valdandi að hnéð á heilbrigða fætinum, sem hún beitti fyrir sig til að hlífa hinum, bólgnaði upp svo stórkostlega að hún varð eiginlega verri þeim megin. Svo slæmt var ástandið hún gat ómögulega gengið, jafnvel á forneskjulegum hækjunum sem okurlæknirinn prangaði inn á okkur. Að vísu gekk henni aðeins betur á göngugrind, en hún neitaði að vera úti á meðal fólks á slíku tryllitæki. Hún þurfti að draga sig á höndunum inn á klósett þegar verst var. Hún fór líka á heljarinnar pillukúr og útséð var með alla hennar köfun í bráð.

Á meðan Halldóra og Nanna mókuðu sárþjáðar inná hótelherbergi, rúmfastar, ákvað Áa að fátt annað væri að gera en athuga strand-djammið. Hún gat að sjálfsögðu ekki reitt sig á mig sem félagsskap í slíkt, og endaði ein á hótelbarnum að mingla við köfunarkennarana. Þar var glatt á hjalla og dansinn dunaði þar til hún steyptist úr ótraustum örmum dansfélaga síns með andlitið í gólfið. Fjögur spor í hökuna og kvarnaðist úr tönn. Læknalufsan sagði henni að halda sig úr sjónum í 4 daga.

Það leit út fyrir að ég yrði að læra köfun einn.

En Áa nagli ákvað blessunarlega að vatnsheldur plástur myndi duga og við tvö komumst loksins út í kórallana, á meðan Nanndórið engdist með leigðan DVD spilara og bókastafla. Hinsvegar voru skilyrði til köfunar að sjálfsögðu arfaslöpp. Við lærðum allt teknískt og syntum um dýpið, en sáum voða lítið þar niðri. Óhagstæðir vindar höfðu ýft hafsetið og þörungana svo það var varla maður sæi metra frá sér.

Svo voru uggvænlega væringar í höfuðborginni og enn er óvíst með verði af bókaðri flugferð okkar frá Bangkok.

En á þessum tímapunkti var botninum blessunarlega náð. Nönnu hefur batnaði að mestu síðustu daga, Halldóra er komin varlega á lappir frá og með gærdeginum og við Áa tókum framhaldsnámskeið þar sem skilyrðin í vatninu voru mun betri. Núna meigum við kafa ein og óstudd, höfum skírteini upp á það, og erum soldið montin. Sólin fór meiraðsegja að skína nýlega.

Hún er falleg hérna á kvöldin, gula fíflið. Blóðrauður hnöttur á bleikum himni. Og ég, ég er náttúrulega búinn að hafa það mega fínt.

- Davíð

4 comments:

Anonymous said...

"Eitthvað fyndið eða klúrt, takk"

Hljómar eins og Áa hafi verið "Head over heals" hóhóhóhóh.

Úff nei, mikið var ég feginn undir lok bloggsins að allt var í sómanum. Farið varlega elskurnar mínar, það er eins og þið séuð alltaf að lenda í einhverju ógeði.

Unknown said...

ástæðan fyrir að maður ferðast ekki með stelpum njénénénééééé

Áa said...

Hó hó indeed Ívar! Ef þú hefðir verið þarna með mér hefurðu að sjálfsögðu gripið mig þar sem þú ert ekki köfunarkennaragimpi með danshæfileika á við amöbu. Ó aldeilis ekki. Þannig að þannig séð eru hökurústir mínar í raun þér og fjarveru þinni að kenna. Já, ég held ég láti þig barasta splæsa í fegrunaraðgerðirnar mínar.

Djók. Og ást til ykkar!

Erla Elíasdóttir said...

ojojoj, ljótt að heyra, en gott að þið sjáið fram á betri tíð. hugsa oft til ykkar, ykkar verður saknað úr reykjavík í jólafríinu!