Monday, November 24, 2008

Lufsur í leti flækjast í neti og kafna í hafseti...

Stutt blogg, því tælenska Baht-ið er heilar 4 krónur (sem þýðir, uhm, allt er dýrt. Þar á meðal Internetið):

Við erum stödd á lítilli eyju í Tælandsflóa, á túristaströnd uppfullri af öðrum bakpokaferðalöngum. Nei "fullri" eru ýkjur; regntímanum er ekki enn lokið (bráðum, bráðum) og smáhýsin standa flest tóm.

Stundum eru hafflöturinn og himininn einn samvaxinn grámi sem hvítnar í sólarátt, og næturnar eru lýstar af hljóðlausum eldingum. Það rignir svona 20% af tímanum, en skýin eru alltaf til staðar.

En við erum ekki ósátt þó brúnkan þurfi að bíða; hitastigið er fullkomið og maturinn frábær. Við röltum bara um og lesum bækur í alsherjarleti. Senn hefst svo köfunarnámskeiðið sem skráðum okkur í (seinna en annars hefði verið, vegna ýmissa heilsufars ástæðna). Það verður sport.

Þeir lesendur sem hafa ekki fengið senda tilkynningu um alla ástina sem við sendum heim í innsigluðum gámum verða að eiga það við póstþjónustuna - Davíð

Monday, November 17, 2008

Gáfnafar

Lesendur,

þið eruð að fara alveg rangt að. Við vöknuðum snemma í morgun til þess að ganga um í nepalskri sveit, rólyndisrölt að staðnum þar sem við svo sigldum framaf fjallsbrún í stýranlegri fallhlíf, milli læranna á flugmönnum okkar. Úr háloftunum, hringsólandi með uppstreyminu, horfðum við svo á fjöllin. Sum þeirra voru yfir 7000 metra há, önnur, ein þrjú, voru yfir 8000 metra há. Hvítglóandi Himmalæjatindar, við þreifandi á þaki heimsins.

En á meðan voruð þið á Íslandi, af öllum stöðum, í vaxandi skammdegi og kulda að reyna að láta múgæsinginn og leikræna tilburði bölsýnisþjóðarinnar ekki ná til ykkar. Hvað er það?

Annað dæmi: Í gær sváfum við út, röltum geispandi niður í bæ í brunch, leigðum svo árabát og rérum yfir spegilsléttan flötinn að ókunnri strönd. Þar beið okkar enn önnur útsýnisofgnóttin á litlu skógivöxnu nesi. Áa kenndi mér að juggla undir augnliti Rhesus apa sem hristu greinarnar yfir höfðum okkar. Sushi í kvöldmat.

En þið bara í ruglinu, mætandi í skóla og vinnur hægri vinstri? Vitleysa.

Og daginn þar á undan horfðum við á vilta nashyrninga ofan af fílum, þar þar á undan fórum við í rafting o.s.frv. Erum við bara svona klár og þið vitlaus? Getur það verið?

Að vísu er eitt eilítið heimskulegt við okkar háttalag: Nú er komið fram á 12. dag Indverskrar magakveisu, lágfleygrar en óbilandi, og í stað þess að spyrjast fyrir hjá lækni höldum við bara áfram að flytja íburðarmiklar klósettsinfóníur hvort fyrir annað gegnum veggi þunnþilja gistihúsa (það vill oftast svo skemmtilega til að salernin eru staðsett milli herbergjanna okkar svo hljómburðurinn er góður til beggja átta). Kannski við vitkumst senn í þessu.

Allavega, hafið það eins gott og þið getið greyin - Davíð

Saturday, November 15, 2008

Tuesday, November 11, 2008

Destiny's child

Svo fór að forlögin réðu
fótleggjaheilsunni,
Halldóra með helteygðan ökkla
heltist úr lestinni.

- tileinkað KT

Já þannig var nú það, lesendur góðir, á þeim degi sem markaði helming ferðarinnar hrundi ég í lestartröppum og afgreiddi það sem beðið hafði verið eftir; tognaði í ökklanum. Því fylgdi mikil angist, sérstaklega þegar ég hélt ég væri kannski fótbrotin. Svo slæmt var það nú ekki, heldur er ég bara bólgin, fagurblá og haltrandi.

Almennt er varasamt að taka lest á Indlandi því þar virðist þykja óþarfi að merkja lestarvagnana að utan, og ef maður fer óvart í rangan vagn þá er ekkert endilega opið á milli svo maður þarf að fara útúr lestinni til að finna sætið sitt... Nöldrinöldr...

Alltént erum við nú komin til ævintýralandsins Nepal. Þar er hægt að stunda allt helsta alternatíva sport sem venjulegt fólk getur hugsað sér. Nanna og Davíð hófu leikinn í gær með canyoning á meðan ungfrú magakveisa og ungfrú farlama/magakveisa lágu fyrir framan HBO. Dagur N&D var auðvitað einn stór hápunktur þrátt fyrir að hafa ekki lagt í teygjustökkið sem stóð þeim til boða. Lágpunktur okkar Áu var þegar hið daglega þriggja klukkustunda power-cut slökkti á sjónvarpinu okkar.

Flestöll hofin í Kathmandu hafa þannig því miður farið framhjá okkur. Vonandi mun það standa til bóta einhvern daginn.

Á morgun er svo rafting sem endar ofan í Chitwan þjóðgarðinum þar sem eru tveir nýfæddir fílstvíburar! Vei!


Í Nepal er fólkið ólíkt því sem er á Indlandi. Annars vegar lítur hinn almenni Nepali alls ekki út eins og Indverji (heldur er töluvert skáeygðari) og hins vegar er hér allt önnur gerð af túrhestum. Nær engir dreddadúddar í pokandi buxum heldur frekar trekkarar og teygjustökkvarar á öllum aldri. Heilsusamlegt líferni virðist þó ekki fullkomlega dóminerandi hér því Davíð er boðið dóp oft á dag, svona eins og gerðist stundum á Indlandi. Okkur stelpunum er hins vegar ekki boðið dóp, gaman að því.


Yfir og út,
Halldóra

Thursday, November 6, 2008

Bækur (útúrdúr)

Jújú, magaveimiltítuháttur olli töf í ferðalaginu. Varanasi er orðin leiðingjörn og Nepal dvölin hefur styst ískyggilega. En ég (Davíð) hef ekki setið auðum höndum:

Hið metnaðarfulla bókmenntaúthlaup Langtíburtistans, getraunin góða og hin skitsófreníska Katla, átti vissulega dapurlegan endi. Ég ætla samt að fá að tileinka eina bloggfærslu enn ritlistinni, þó á ófrumlegri og hófstilltari hátt en áður; Á ferðlögum les fólk bækur. Hér er listi yfir allar þær bækur sem við fjögur höfum í sameiningu lesið síðan við hófum för. Einnig fylgir einkunn hverri bók, frá hverjum lesanda. Einkunnarskalinn er eftirfarandi:


0 - Hörmung ein
1 -
2 - Vítaverð sóun nytjaskóga
3 -
4 - Ekki góð bók
5 -
6 - Ekki slæm bók
7 -
8 - Afþreying og gott betur
9 -
10 - Fullkomin fegurð


(Hæsta einkunn, 10, er ekki skilgreind sem "allra besta bók allra tíma" heldur bara yfirmáta frábær - einkunnir eru því í hærri kantinum. Heilar og hálfar tölur eru leyfðar. Einkunn hvers er tilgreind með upphafsstaf (Á, D, H og N). Lítið e eftir einkunn þýðir að viðkomandi hafi verið að lesa bókina í annað sinn. Stórt B þýðir að viðkomandi hafi lesið bókina einhverntíman fyrir ferðalagið, en ekki aftur á meðan á því stendur. Þá fylgir engin einkunn.)


---


Út að stela hestum eftir Per Petterson: Á:6 / D:5,5

Burning Chrome eftir William Gibson: D:B / H:7,5

Síðasta setning Fermats eftir Simon Singh: D:8 / H:8

Galapagos eftir Kurt Vonnegut: Á:8 / D:8,5 / H:7,5 / N:8,5

The Wind-up-Bird Chronicle eftir Haruki Murakami: D:7,5 / H:8 / N:8,5e

Meistarinn og Margaríta eftir Mikhaíl Búlgakov: H:10e / N:B

The Accidental eftir Ali Smith: Á:7 / D:7 / H:8 / N:8

Fictions eftir Jorge Luis Borges: Á:9,5 / D:9,5

Tröllakirkja eftir Ólaf Gunnarsson: N:8 / D:8 / H:?

The Grass is Singing eftir Doris Lessing: N:9

Pale Fire eftir Vladimir Nabokov: D:9

Catch 22 eftir Joseph Heller: N:9

Midnight's Children eftir Salman Rushdie: Á:9,5 / D:9 / H:B / N:B

Rokland eftir Hallgrím Helgason (hljóðbók): Á:6


---


Að auki höfum við svo auðvitað lesið nokkuð álitlegt hlass af Lonely Planet ferðahandbókum, mis- vel og ítarlega. Þeir lesendur sem hafa lesið eitthvað af ofanverðu mega endilega deila sínum einkunnum. Vilji þeir hinsvegar ræða verkin umfram heilar og hálfar tölur er alger skylda að gera það þannig að gáfumannakomplexið fari ófalið og drýldið mjög.

Wednesday, November 5, 2008

Magaóður

Ég skal segja ykkur það að magar eru eitt veimiltítulegasta og eymingjalegasta fyrirbæri sem mannkynið hefur þróað með sér. Af hverju erum við ekki löngu komin með innbyggða fislétta nanó-stálgrind þarna inn í staðinn fyrir þessar aumu frumur sem þykjast vera eitthvað? Og ofurgúmmíslöngur með sjálfverkandi hreinsibúnaði í stað draslþarma.

Einhver ætti klárlega að kanna málið.

Áa bitra sem missti af Nepalsrútunni.

Monday, November 3, 2008

Nanna mætt á svæðið

Já, það virðist vera orðið umræðuefni hér á blogginu sem og annnars staðar hve lítt frækin ég er við bloggskrif. Afsaka ég þetta, ætli þetta orsakist ekki af almennri bloggleti minni auk þess sem of mikið af mínum internettíma fer í misheppnaðar tilraunir til þess að setja myndir inn á facebook.

Anyways...við fjórmenningarnir erum nú í Varanasi eins og getið hefur verið. Ég held að mér sé óhætt að segja að okkur líði vel hérna. Hér er tiltölulega létt að forðast hinn mikla asa og áreiti sem finnst eiginlega alls staðar í Indlandi með því að sitja bara á tröppunum við Ganges og chilla. Til dæmis hef ég setið með skissubók og dregið að mér mikla athygli lítilla sölukrakka sem dást að myndunum um leið og þau reyna að selja mér póstkort.

Áður en reisan hófst vorum við mjög ákveðin að skipta tíma ferðarinnar tiltölulega jafnt á milli menningar, activities og hvíldar. Hins vegar hefur eiginlega farið svo að ferðin er nú um það bil hálfnuð og við eiginlega aðeins búin að vera menningarleg. Alltof intellectual fólk enda reynir Davíð í sífelldu að tala um eitthvað vitsmunalegt, bakteríur, sólkerfið, heimspeki, you name it. Ég öskra þá bara á hann "Hættu að vera svona boring gaur". Nei bara stundum. Ok útidúr, sorry.

Það sem ég vildi sagt hafa er að við höfum aðeins tvisvar gist fjórar nætur á sama stað annars höfum við eiginlega alltaf gist tvær nætur og það er eilítið þreytandi að ferðast svo hratt í tvo mánuði. Þess vegna er okkur öllum farið að lengja pínu eftir activities í Nepal og svo heví næs chilli á strönd í Tælandi, skiljiði.

Æj núna veit ég eiginlega ekki hvað ég ætti að segja meira þótt ég gæti skrifað frá mér allt vit svosum. Mér finnst líka sjálfri leiðinlegt að lesa langar færslur. Þannig að nú verð ég bara dugleg að skrifa margar stuttar. later. nanna

Sunday, November 2, 2008

Hangs

Davíð: Ég eyddi heilum degi inná hótelherbergi, óveikur, í Varanasi. Köllum það íhugun...

Halldórískt myndablogg á næstunni.

PS: Síðasti póstur var ekki eftir Nönnu (þó hún geti auðvitað, eins og við öll, kvittað undir merkinguna hvað sem orðalaginu líður). Þetta var áminning frá hinum eigendum bloggsins um að hún sinnti þessu sameiginlega verkefni minnst okkar allra. Henni hafa einnig borist kvartanir um aðrar samskiptaleiðir, frá öðrum ástvinum.