Saturday, September 20, 2008

Óður til Mousavi

Íran.

Fyrsti bærinn handan landamæranna var Orumiyeh. Nú bera stúlkurnar slæður. Hittum tvo mis-enskumælandi menn. Þeir tóku að sér leiðsögn óumbeðnir. Var það vel. Þeir eru nú internetvinir vorir. Annar þeirra, hinn 17 ára Navid, var alls ekki feiminn við að ræða stjórnmál og ömurlegt ástand mála. Eins var einn hótelstarfsmannanna, dýralæknir að mennt, sem hafði ljúfsáran talanda og kraumandi óbeit á hagan mála. Sagðist eiga það á hættu að vera drepinn fyrir að eignast kærustu (Ég leyfi mér að segja þetta nafnleyndarlaust og í sönnum smáatriðum því hér lesa fáir og tala fornt, hálfdautt mál).

Ekki að þetta sé nokkuð annað en skemmtilegt og merkilegt fyrir okkur sem erum bara í heimsókn. Og allir eru stórkostlega vinsamlegir og hjálplegir.

Svo fórum við til Tehran. Hún er stór, óþægilega stór, og umferðin er sú snargeðveikasta sem nokkuð okkar hefur komist í tæri við. Það að taka leigubíl er einnig erfitt, þar sem helmingslíkur eru á því að reynt verði að rukka of mikið, eða rukka uppsett verð á hvern farþega og þar fram eftir götunum (...í leigubílunum). Leigubílstjórar eru þannig eina óvinsamlega fólkið sem við höfum hitt (utan auðvitað leigubílstjórans sem var svo sérlega vinalegur að klípa Halldóru í rassinn að skilnaði).

Slík væg óvinsemd var þó veginn upp að fullu og gott betur af honum Hr. Mousavi, hótel stjóra á Hotel Firouzeh. Hér er um að ræða sannkallaðan ferðamannadýrling. Bæði hverfist heilt sólkerfi af nytsamlegum ferðaupplýsingum (opnunartímum, söfnum, tilboðum, matsölustöðum o.s.frv.) um vitund hans, og svo er hann tilbúinn að skipuleggja ferðir manns um landið allt í þaula eftir öllum fráleitustu óskum og dyntum. Hann fór alltaf skrefinu lengra. Gott dæmi er til að mynda að þegar við héldum frá Tehran (með næturlest sem hann hafði pantað handa okkur) vísaði hann okkur á frábært, hefðbundið íranskt tehús rétt við lestarstöðina til að borða kvöldmat fyrir brottför. Hinsvegar var bara hægt að fá kjötrétti þar, en þar sem hann vissi að tvö okkar voru grænmetistætur, þá pantaði hann þjóðlegan eggaldinrétt af öðrum veitingastað og kom sjálfur með hann inn á tehúsið (hér er klukkan 9 um kvöld). Dæmin eru mikið fleiri.

Eitt sérstaklega skemmtilegt atvik var þegar tvíburabróðir Hr. Mousavi (sem heitir jú líka, Hr. Mousavi) tók okkur í safnarúnt um borgina. Við vorum tiltölulega nýstiginn upp í bílinn, höfðum fátt sagt, og hann spyr um veðurfarið heima á íslandi. Áður en við náum mikið að útskýra temprað eðli eyjaloftslags, spyr hann hvort fólk frjósi ekki bara, sem í dvala væri, í tvo mánuði yfir veturinn, vegna kuldans. Þetta þótti honum alveg ofboðslega fyndin tilhugsun. Hann hló þeim aulalegasta og mest smitandi hlátri sem við höfðum heyrt, og hann hætti ekki, heldur endurtók bara "for two months, just freeze" og hló meira. Við hlógum líka. Á endanum var allur bíllinn í stjórnlausu kasti í 5-10 mínútur yfir þessum ömurlega brandara (Smá svona sveinbjarnarstaðgengill, hann Mousavi annar).

En nú erum við komin til Isfhan, á frábæru hóteli sem Mousavi bókaði, en höfum þar ekkert upplifað enn.

PS: Hér er enn Ramadan, og erfitt, stundum ómögulegt, að fá mat og drykk yfir daginn. Soldið vesen, en um leið hressandi.

Síðar, þið fögru - Davíð

No comments: