Tuesday, September 16, 2008

Elskhuginn frá Van

Ooog áfram höldum við að henda inn nýjustu fréttum eins og vindurinn.

Eftir indælistúristakindalíferni í Cappadocia héldum við í rútu til Van, sem seint verður kölluð mikil túristagersemi, en samt gaman að koma og sjá hvernig hið típíska borgarlíf gengur fyrir sig.

Stoppið okkar þar var örstutt, ein nótt, en Van mun ábyggilega borast inn í ferðaminnið okkar aðallega vegna þeirra dásamlegu tveggja gæja sem við hittum þar. Um leið og við drösluðumst inn á hótelið okkar tók nafnlausi ungi hótelstjórinn okkar (hér kallaður herra Aslan, þar sem við náðum ekki nafninu hans) á móti okkur og fór að segja okkur nönnu frá írönskum hórupöntunarbæklingum sem honum fannst afar sniðugt system. Við vorum ekki eins sannfærðar.

Um kvöldið sátum við öll saman í lobbíinu hans og þar nýtti hann tækifærið til þess að lýsa yfir eldheitri ást sinni á Halldóru. Hann sagði að við höfðum öll afar jákvæða orku en Halldóra hitti hann hinsvegar beint í hjartastað, líðandi niður hótelstigann eins og gyðja. Hann vildi endilega að hún yrði ein eftir hjá honum í sveitarómans í Van. Hann var að vísu giftur en það var algert aukaatriði. Halldóra dó tímabundið úr pínlegheitum og var gæjinn afar sár að við skyldum ekki vilja gefa okkur tíma í Van svo hjörtu þeirra gætu náð almennilega saman. Daginn eftir braust hann meira að segja inn á hótelherbergið okkar eldsnemma um morguninn, en þorði ekki að gefa Halldóru blómin sem hann var búinn að kaupa handa henni í veikri tilraun til þess að heilla hana í síðasta sinn.

Við skyldum hann eftir í sárum og fórum í leiðangur til að kaupa okkur rútu til Omuyieh í Íran hjá næsta rútukompaníi. Þar mættum við skilningsvana andlitum en þá var hóað í bjargvættinn okkar, herra Bayram. Hann var afar krúttlegur miðaldra kall sem vildi allt fyrir okkur gera, enda er hann aðal doninn í Van, átti lúxushótel og rútukompaníið líklegast líka. Honum fannst geggjað að í för væru tveir blaðamenn og sýndi okkur fína hótelið sitt svo við gætum nú skrifað um það í blöðin heima. Hann reddaði okkur svo í risa einkarútu með bílstjóra og fylgdarmanni sem leiddu okkur yfir írönsku landamærin og beint á hótel hér í Omuyieh.

Planið er svo til Tehran í kvöld, meira og ítarlegra síðar!
Áa

3 comments:

Erla Elíasdóttir said...

mm, þetta er nammiblogg!

sukie said...

skemmtilegar ferðasögur sem krydda svo sannarlega tilveruna hér á fróni meðan afgangar fellibylja heimsins ganga yfir landið... þetta eru svona klassískar haustlægðir, þið vitið :)

Unknown said...

Maður frá Íslandi:
"Ég sló íslandsmetið"

Maður frá Van:
"Ég sló vanmetið"