Friday, October 3, 2008

Hama(st)

Við eyddum bróðurpart Sýrlandsdvalarinnar (ef ekki í tíma talið, þá aðgerðum) í miðlungsborginni Hama, dulítinn spöl frá skítapleisinu Homs sem er hefðbundnari miðpunktur landsins (sem við heimsóttum aldrei, því við höfum traustar, ó-hómófóbískar, heimildir fyrir því að sú borg sé, jú einmitt, skítapleis).

Hama sjálf var svosem ekki stórkostlega áhugaverð, þó þær væru fullkomlega heillegar leyfar af nokk merkilegu áveitukerfi frá rómverskri fornöld... Það sem við gerðum var að brumma útúr borginni á morgnanna, skoða heilan helling af gömlum steinum vítt og breitt um skógana og sandinn, í öllum mögulegum myndum, og komum svo þreytt og mókandi heim á hostel um sólsetur.

Við sáum tröllvaxið virki ofursúltánsins Saladíns, aðra minni kastala, súlnaskreytt miðstræti ævafornu borganna Palmýru og Apameiu, grafhýsisturna, lékum okkur í svalandi morgunblæ, alein, um ævintýralegar þorpsrústir í fagurri sveit o.s.frv. Þetta var allt mjög skemmtilegt, og minni staðirnir höfðu þann mikla kost að við sátum ein að þeim (sem gerir upplifunina gjörfrábrugðna því að ganga um, t.d., forum romanum).

Halldóra ætlar að myndablogga þessum ævintýrum okkar í næstu færslu ef lukkan leyfir.

Í dag komum við til Damascus, því elsta síbyggða bóli jarðkringlunnar, en höfum fátt upplifað enn. Hér bíða okkur líka fjórir rólegir dagar áður en haldið er til Dehli.

Minna skemmtilegt:

1. Smá magakveisa setti strik í reikninginn (aðeins tvö okkar komumst í alla dagstúrana). Það er allt á uppleið núna (7,9,13).
2. Annars óbrigðull stofnsetjari bloggsins okkar gerði þann feil að takmarka það hver mætti kommenta (kvartanir bárust okkur um aðra vegi internetsins). Því hefur nú verið kippt í liðinn, svo ekki hræðast kommentakerfið kæru lesendur! (Og ég minni, að sjálfsögðu, á getraunina.)

- Davíð (ástæða þess að ég blogga lengst og, að verða, oftast, er líklega sú að ég á ekki facebook aðgang. Vonandi fara stelpurnar að taka hér til hendinni svo þið kafnið ekki öll í klaufalegri skrúðmælgi og innihaldsleysi).

1 comment:

Anonymous said...

æi, ég fattaði þetta ekki þegar ég bjó til bloggið, þetta var bara defult settings á kommentakerfi, en alveg ferlega glatað.