Tuesday, October 21, 2008

Og sandalafarið skýrist...

...á þröngum götum gömlu borgar Jaisalmer, því eyðimerkurgeislunin snýr lóðrétt á þrengslin, helvísk. Þessi þurra sandsteinsborg er steinsnar frá Pakistan og var (eins og svo margir af áfangastöðum okkar hafa verið í endurliti) afar heppilega staðsett áður en fólki hugnaðist að flytja söluvarning um höfin og loftin - má muna fífil sinn fegurri og öll dýrð fengin úr fortíðinni.

En dýrðina vantar ekki, veggir þessa tröllvaxna virkis sem Halldóra minntist á eru bugðóttar endaleysur og innan þess bærist enn heilsteypt (ef túristavætt) samfélag. Þar hýrist ég núna í sólskjóli á meðan stelpurnar fá sér henna á hendurnar. Það er víst síður fyrir drengi. Áðan litum við 6-700 ára gömul Jain hof. Hver þumlungur var útskorin í sandstein, lágmyndir úr Kama Sutra, keimlíkir spámennirnir eftir öllum veggjum og öll mótíf tryllt í sveigum og hreyfingu og lífi.

Fyrir tveim dögum vorum við stödd í rottuhofi, það er hofi fullu af heilögum rottum þangað sem fólk fer pílagrímsferðir með sykurbolta og mjólkurdreitil til að færa hinum háæruverðugu nagdýrum. Ef þeim skyldi þóknast að hlaupa yfir tær manns (engir skór leyfilegir) er það ómælt farsældarteikn. Við vorum ekki svo heppin, enda kannski eilítið á varðbergi.

Þegar ég sé í návígi og með stuttu millibili allar þær mismunandi reglur, útskýringar og helgidóma sem fólk setur sér, fer mér að finnast trúarbrögð skýrasta og afdráttarlausasta dæmið um óbilandi vilja mannsins til að móta veröldina eftir eigin höfði, til að lifa í sjálfsköpuðum heimi - Sönnun helst um ímyndunarafl og vissu um að það sé hvergi minna mikilvægt eða réttlægra en áþreifanlegri raunveruleiki (og það jafnvel þó maður eigi lítið af peningum eða hangsitíma aflögu). Þó margt sé svo herfilega ömurlegt við Hindúisma finnst mér þessi grundvallarsannindi koma afar tært fram í honum.

Rajashtan rúnturinn einkennist, ef af einu, af svita á gervileðri - Bíllinn verður erfiður þegar líður á þriðja tímann þétt við hálfklístrað sætið. Það verða hinsvegar Kameldýr í kvöld og á morgun (hver ég hef aldrei setið, svo ég veit ekki hvort samanburðurinn verði jákvæður).

-

Að öðru; fyrsta getraunin (sjá fyrri færslu) verður einnig sú síðasta. Því miður. Þrátt fyrir þvera samstöðu og mikla ánægju með hið stórsnjalla söguverkefni þegar tillagan var borin upp fór fljótt að bera á nöldri. Sumir, misvitrir, vildu meina sagan væri afvegaleidd (fjarstæða), stefnulaus (bull) og ýjuðu jafnvel að því hún væri eiginlega bara óviðbjarganlega leiðinleg (Ég kem hreinlega af fjöllum). Hinar augljósu, og sönnu, ástæður þessa litla harmleiks eru auðvitað engar aðrar en leti og listrænuskortur.

Hvað um það. Patrónn bloggsins, Hafdís, átti kollgátuna og hefur sigrað getraunina! (Hverja ég hef nú, í reiðilegu fússi, stytt um 10 daga af því ég get það). Verðlaunin eru lítið grængult Opalegg á óslípuðum, áföstum statíf. Þennan grip fengum við gefins í heimsókn í skartgripaverksmiðju í Kappadókíu á Tyrklandi við upphaf ferðar. Hjartanlega til hamingju Hafdís.

- Davíð

3 comments:

Anonymous said...

Jej! Ég les ykkur eins og opna bók, elskurnar. Þið getið ekki einu sinni falið ykkur bakvið stakar setningar.

Bátaskýlið í fyrstu málsgreinunum var útgangspunktur, gott dæmi um lúmska fyndni Halldóru. Háfleygnin var að sjálfsögðu Davíð, Nanna og Áa skiptu svo með sér dramatíkinni.

Unknown said...

Sko, varðandi þessa getraun... sagan sjálf var ekkert leiðinleg, en tilhugsunin um að greina hana í setningar og greina svo stíl hverrar setningar fyrir sig var bara aðeins of yfirþyrmandi.

Til hamingju Hafdís! Þú líður augljóslega ekki þann tímaskort sem kann að hrjá okkur verstulandabúa.

pís,

-Sveinbi

Anonymous said...

saga eggsins er su ad tad var smidad fyrir framan augu okkar sidan forum vid bara upp i ferdamannabussinn og ta kom einn farastjoranna og gaf mer tad. tottist eg vera takklat en blotadi tvi i hljodi ad turfa ad bera tad ut um allt. Reyndi eg tvi ad skilja tad ovart eftir a hinum ymsu stodum en alltaf var tvi skilad til min. tok david tvi ad ser ad bera tad. engu ad sidur fallegur gripur hafdis min.