Tuesday, October 14, 2008

Kasmír

10, langir, færslulausir dagar. Afsakið lesendur, en aðstæður leyfðu vart annað. Til að bæta gráu, ofan á þessa svörtu bloggframistöðu sló rafmagninu út hér á internetkaffihúsinu (...þó hér sé ekkert kaffi selt) í Srinagar borg, og þau 1000+ orð sem ég hafði nýtt til að lýsa ævintýrum okkar eru að eilífu horfin dauðlegum sjónum. Er nokkuð jafn fökkin óþolandi?
Hvað um það, nú þarf ég að drífa mig. Stytt útgáfa: Við lentum í Delhi að morgni 8. október. Maður að nafni Raj, ferðþjónustudrengur, náði að selja okkur allt sem hann hafði að bjóða (við erum fiðrildi í vindi frammi fyrir gulli og grænum skógum slíkra manna, að því er virðist). Nú eigum við framundan þaulskipulagðan túr um Rajastan hérað, hver dagur ákveðinn þar til við hoppum yfir landamærin til Nepal.
En á undan þeirri bílferð - sem verður með einkabílstjóra - þá skaut Raj inn viku í Kasmír. Þar sem við erum núna (sjálf héldum við, eins og kannski sumir lesendur, að Kasmír væri ekki beint staður til að sækja heim). Þar er yndislegt. Við gistum í húsbát úti á Dal vatni (sem lesendur Miðnæturbarna ættu að kannast við) og ofaní okkur er eldaður stórgóður heimilismatur. Vatnið er spegilslétt í grænum fjallasal og, tja, ekki ömurlegt. Svo fórum við uppí fjöll, þaðan sem við snérum aftur í dag.
Brött, há fjöll á mörkum lauf- og barrskóga. Gistum inná hirðafjölskyldu í miklu návígi við menn og dýr (ekki síst mýs) á svefnlofti sem var maísgeymsla til hálfs. Þaðan fórum við í göngur dag hvern, þar sem útsýnið blómstraði enn frekar við alla hækkun. Síðasta daginn náðum við að gægjast upp fyrir trjálínu, undir augliti arnar, á stjórnlaust fallega fjallasýn og borðuðum hádegismat á grasbala sem verður að teljast með fullkomnari stöðum.
Við erum voða sátt, þó það verði kalt hérna á næturnar. Við verðum í frekari, og vonandi tíðara sambandi frá Rajastan. Blessíbless.
- Davíð

7 comments:

Unknown said...

Vonandi eruð þið ekki svindlandi í indlandi...

svona eins og þið voruð fretandi í bretlandi...

Anonymous said...

Hey! Ég er einmitt að lesa miðnæturbörnin núna og mér finnst þau skelfing leiðnleg. Þú mátt skila því til þessa stórfenglega landslags: BÓKIN ER FÚL!!!
-hh

Anonymous said...

Hey, Andri var að fljúga yfir Kashmir áðan og segjist hafa séð ykkur! Ég veit ekki hvort ég eigi að trúa honum en það væri samt geggjað. Ég læt hann droppa glaðningi yfir ykkur næst þegar hann flýgur yfir.

Anonymous said...

Uppfærsla.... ég er óþolandi auðtrúa!

Erla Elíasdóttir said...

kósí. minnti mig líka á sænsku bókina Blæjuna, sem gerist í Kasmír, man e-r eftir henni?

haha: eru það miðnæturbörnin mín sem þú ert með? allt í góðu ef svo er en væri gott að vita, þar sem ég hef leitað þeirra lengi (og þeim er augljóslega sóað á þig).

Anonymous said...

Ég er nokk viss um að þetta sé Miðnæturbörnin hennar Áu sem ég er að lesa, etv eru þín miðnæturbörn skemmtilegri aflestrar.
-hh

Unknown said...

Áa er einmitt að lesa mín Miðnæturbörn hérna úti, og lætur afar vel að þeim. Sjálfur hef ég bara lesið tæpar 100 bls. en hlakka mjög til að klára hinar 400. Ertu ekki bara að lesa einhverja uppstrílaða þýðingu Hafdís? Eða með mega lélegan smekk?

Af öðru bókmenntatengdu, þá eru váleg tíðindi varðandi ferðasöguna og getraunina í vændum... Stay tuned, meika ekki að vera inná þessu netkaffi lengur, of mikið af moskítóum.

- DaC