Friday, October 31, 2008

Ayurvedic (lífvísindi)

Maður hatar ekki að láta olíubera á sér rassinn og nudda á sér geirvörturnar.

PS: Sáum engin tígrisdýr :(

- Nanna

Wednesday, October 29, 2008

Ranthambore-ing...djók

Á morgun sjáum við (7, 9, 13) tígrisdýr. Óinnrimluð, ef frá er talinn feldurinn. Víí!

Í dag erum við stödd í Ranthambore þjóðgarðinum í Rajasthan (kóngalandi), fyrrum veiðilendum Hákónganna (Maharaja) frá Jaipur. Þar (Jaipur, bleiku borginni) vorum við í gær, en nenntum voða fáu, almennt nennuleysi sem lagðist ofaná gallspúandi magaverk (ég nefni engin nöfn) svo úr varð takmarkað sightseeing gegnum bílrúður og myndavélalinsur. Rajasthan prógramið; ný borg og bílferð og hótelherbergi uppá svo til hvern dag, er í þann mund að verða þreytt. Blessunarlega lýkur því á morgun við, ojújú, Taj Mahal.

Að vísu rifum við okkur uppúr mókinu þegar leið á helslakan gærdaginn og dröttuðumst niður í bæ, enda var gærkvöldið Diwali, pan-búdda-hindú ljósahátíð sem setti áberandi svip á borgina. Rakettulega séð var þetta nú kannski ekki mikið meira en gamlárskvöld á Stokkseyri (þó 3.5 milljón búi í Jaipur), en neon-glitpappírs ljósaskreytingarnar skákuðu jólaklæddum Skólavörðustígnum óneitanlega, bæði í gæðum og magni. Og já, Áa fór bæði á fílsbak og í alvöru Bollywood bíó, og er því komin að Górillukynnum á to-do-lista lífs síns. Víí!

Mamma mín, praktísk og skipulögð, bað um nó-nonsens fregnir af heilsufari (þó hún hafi líklega átt við mitt persónulega ástand, í persónulegu bréfi). Sjá eftirfarandi:

Allar stúlkurnar, blómin blessuð, hafa þurft að eiga við magakveisur af ýmsum gerðum. Hælsæri minntu á tilvist sína utanúr hugmyndaheiminum án þess að raungerast að fullu. Nefrennsli er strítt, helst hjá okkur Halldóru, en það kemur svo sem fullkomlega heim og saman við fyrri kynni af öndunarfærum okkar. Moskítóbitin eru mýmörg (haha...) og koma í bylgjum. Í dag rís sú alda hátt og Halldóra, reynslunni ríkari, slær móðurlega á fingurnar þegar einhver tapar sér í syndsamlegu klóri. Önnur bylgjulaga stærð er sú andlega, og tjóir vart að tala um hana sem neitt heildstætt fyrirbæri yfir hópinn, nema hvað þar rísa öldurnar einnig hátt án þess að neitt newtónískt bakslag þurfi að verða (ein möguleg minniháttar röskun er að ég vísa, í síauknum mæli, til sjálfs míns í kvenkyni...)

Nánasta framtíð: Eftir Agra til Varanasi og svo að og yfir landamæri Nepal, þar sem ólíkt líkamlegri túrismi bíður okkar. EXTREEEME! PEPSI-MAX!

- Davíð

Friday, October 24, 2008

Erum núna rétt hálfnuð með litarúntinn um Rajastan. Gullna borgin og bláa borgin eru vel dokúmentaðar í minnið og myndavélina, erum núna í Udaipur, hvítu borginni, og bleika borgin bíður svo með Bollywood bíóunum sínum stóru og frægu.

Kamelsafaríið okkar var ótrúlega notalegt þrátt fyrir léttan pakkatúrakeim og netta eyðimerkurfóbíu. Við fengum trommuleikara og svaka fínan dansara til að afþreyja okkur yfir matnum í búðunum um kvöldið. Verandi fagnaðarhrókarnir sem við erum, þurfum við varla að taka það fram að við stigum glæsileg bíómyndaspor til að vera memm og hlógum og grínuðum á meðan hinir ferðamennirnir horfu hálf syfjulega á okkur og nenntu ekki að gera sig vandræðaleg og taka þátt í dansinum góða. Á eftir var boðið upp á gistingu út á sandhólunum en ekkert okkar fýsti að hossast á kamelkerrunni út eftir nema ég. Haldandi að ég fengi lítið teppi til að kúra á í sandinum, brá mér frekar mikið þegar heilu rúmi, laki, sæng og kodda var vippað upp á kerruna og rúllað út á næsta sandhól. Það var dálítið eins og að upplifa einn af æskudraumunum mínum, sem innihélt þá hugmynd (eflaust stolna úr mörgum bíómyndum og bókum) að ég gæti flakkað um á rúminu mínu og kúrt undir sænginni á meðan ég flygi um loftin og sofnaði í framandi náttúru. En þetta var allt ferlega næst, þrátt fyrir augljósan plebbaskapinn sem felst í því að láta flytja fyrir sig rúm út í eyðimörk....

Kudos fær svo hinn stórskemmtilegi Om, netkaffihúsaeigandinn og tónlistargúrúinn sem Halldóra minntist á fyrir frábært kvöld í Jaisalmer. Vonandi munu draumar hans um að vera frægur sítarleikari í Belgíu (...af öllum stöðum!) rætast. Ekki eins mikil kudos fá lífhræddu hótelgaurarnir okkar sem vöktu Davíð af værum svefni og ræstu hann út í æsilega mótórhjólareið um borgina til að hafa upp á okkur Halldóru, þar sem við höfðum ekki skilað okkur nægilega snemma heim úr "partíinu". Dálítið vinsælt stef, þessi forræðishyggja og hræðsla um að litlu ferðamennirnir fari sér að voða.

En þrátt fyrir það er Indland dásemdarland. Þeir sem mig þekkja hafa nú þegar ábyggilega gert sér grein fyrir því að ég hef tapað glórunni og veskinu í hinum ýmsu búðum og básum. Fílar og töskur og saríar hafa ratað ofan í bakpokann...

Allavega, meira síðar!
Kossar og knús
Áa




Tuesday, October 21, 2008

Og sandalafarið skýrist...

...á þröngum götum gömlu borgar Jaisalmer, því eyðimerkurgeislunin snýr lóðrétt á þrengslin, helvísk. Þessi þurra sandsteinsborg er steinsnar frá Pakistan og var (eins og svo margir af áfangastöðum okkar hafa verið í endurliti) afar heppilega staðsett áður en fólki hugnaðist að flytja söluvarning um höfin og loftin - má muna fífil sinn fegurri og öll dýrð fengin úr fortíðinni.

En dýrðina vantar ekki, veggir þessa tröllvaxna virkis sem Halldóra minntist á eru bugðóttar endaleysur og innan þess bærist enn heilsteypt (ef túristavætt) samfélag. Þar hýrist ég núna í sólskjóli á meðan stelpurnar fá sér henna á hendurnar. Það er víst síður fyrir drengi. Áðan litum við 6-700 ára gömul Jain hof. Hver þumlungur var útskorin í sandstein, lágmyndir úr Kama Sutra, keimlíkir spámennirnir eftir öllum veggjum og öll mótíf tryllt í sveigum og hreyfingu og lífi.

Fyrir tveim dögum vorum við stödd í rottuhofi, það er hofi fullu af heilögum rottum þangað sem fólk fer pílagrímsferðir með sykurbolta og mjólkurdreitil til að færa hinum háæruverðugu nagdýrum. Ef þeim skyldi þóknast að hlaupa yfir tær manns (engir skór leyfilegir) er það ómælt farsældarteikn. Við vorum ekki svo heppin, enda kannski eilítið á varðbergi.

Þegar ég sé í návígi og með stuttu millibili allar þær mismunandi reglur, útskýringar og helgidóma sem fólk setur sér, fer mér að finnast trúarbrögð skýrasta og afdráttarlausasta dæmið um óbilandi vilja mannsins til að móta veröldina eftir eigin höfði, til að lifa í sjálfsköpuðum heimi - Sönnun helst um ímyndunarafl og vissu um að það sé hvergi minna mikilvægt eða réttlægra en áþreifanlegri raunveruleiki (og það jafnvel þó maður eigi lítið af peningum eða hangsitíma aflögu). Þó margt sé svo herfilega ömurlegt við Hindúisma finnst mér þessi grundvallarsannindi koma afar tært fram í honum.

Rajashtan rúnturinn einkennist, ef af einu, af svita á gervileðri - Bíllinn verður erfiður þegar líður á þriðja tímann þétt við hálfklístrað sætið. Það verða hinsvegar Kameldýr í kvöld og á morgun (hver ég hef aldrei setið, svo ég veit ekki hvort samanburðurinn verði jákvæður).

-

Að öðru; fyrsta getraunin (sjá fyrri færslu) verður einnig sú síðasta. Því miður. Þrátt fyrir þvera samstöðu og mikla ánægju með hið stórsnjalla söguverkefni þegar tillagan var borin upp fór fljótt að bera á nöldri. Sumir, misvitrir, vildu meina sagan væri afvegaleidd (fjarstæða), stefnulaus (bull) og ýjuðu jafnvel að því hún væri eiginlega bara óviðbjarganlega leiðinleg (Ég kem hreinlega af fjöllum). Hinar augljósu, og sönnu, ástæður þessa litla harmleiks eru auðvitað engar aðrar en leti og listrænuskortur.

Hvað um það. Patrónn bloggsins, Hafdís, átti kollgátuna og hefur sigrað getraunina! (Hverja ég hef nú, í reiðilegu fússi, stytt um 10 daga af því ég get það). Verðlaunin eru lítið grængult Opalegg á óslípuðum, áföstum statíf. Þennan grip fengum við gefins í heimsókn í skartgripaverksmiðju í Kappadókíu á Tyrklandi við upphaf ferðar. Hjartanlega til hamingju Hafdís.

- Davíð

Monday, October 20, 2008

Snögg-jastan

Jesss, við hittum Indverja sem talar góða ensku og vill ekki selja okkur neitt! Og hann rekur internet-kaffihús! Og fílar Sigurrós (auðvitað!)!
Áa er hamingjusöm yfir þessu öllu saman.
----------------------------------------------
Erum já, í Jaisalmer í Rajastan, þar sem spara skal vatnið og styðja blessaðan túrismann sem er það eina sem bærinn hefur. Fyrir utan auðvitað risavaxnasta virki sem ég hef á ævi minni séð og gnæfir yfir bæinn.
Á ferðinni um Rajastan erum við með ótrúlega krúttlegan bílstjóra sem heitir Ashok (einsog í Dilbert!), við skiljum eiginlega ekkert í enskunni hans (og hann ekki okkur) en það hefur ekki komið að sök ennþá...
---------------------------------------------
Og á morgun: Camel-safari!
Þarf að fara að spjalla við internet-kaffigaurinn núna til að vera ekki dónaleg.
Tjus elskuleg,
Halldóra

Tuesday, October 14, 2008

Kasmír

10, langir, færslulausir dagar. Afsakið lesendur, en aðstæður leyfðu vart annað. Til að bæta gráu, ofan á þessa svörtu bloggframistöðu sló rafmagninu út hér á internetkaffihúsinu (...þó hér sé ekkert kaffi selt) í Srinagar borg, og þau 1000+ orð sem ég hafði nýtt til að lýsa ævintýrum okkar eru að eilífu horfin dauðlegum sjónum. Er nokkuð jafn fökkin óþolandi?
Hvað um það, nú þarf ég að drífa mig. Stytt útgáfa: Við lentum í Delhi að morgni 8. október. Maður að nafni Raj, ferðþjónustudrengur, náði að selja okkur allt sem hann hafði að bjóða (við erum fiðrildi í vindi frammi fyrir gulli og grænum skógum slíkra manna, að því er virðist). Nú eigum við framundan þaulskipulagðan túr um Rajastan hérað, hver dagur ákveðinn þar til við hoppum yfir landamærin til Nepal.
En á undan þeirri bílferð - sem verður með einkabílstjóra - þá skaut Raj inn viku í Kasmír. Þar sem við erum núna (sjálf héldum við, eins og kannski sumir lesendur, að Kasmír væri ekki beint staður til að sækja heim). Þar er yndislegt. Við gistum í húsbát úti á Dal vatni (sem lesendur Miðnæturbarna ættu að kannast við) og ofaní okkur er eldaður stórgóður heimilismatur. Vatnið er spegilslétt í grænum fjallasal og, tja, ekki ömurlegt. Svo fórum við uppí fjöll, þaðan sem við snérum aftur í dag.
Brött, há fjöll á mörkum lauf- og barrskóga. Gistum inná hirðafjölskyldu í miklu návígi við menn og dýr (ekki síst mýs) á svefnlofti sem var maísgeymsla til hálfs. Þaðan fórum við í göngur dag hvern, þar sem útsýnið blómstraði enn frekar við alla hækkun. Síðasta daginn náðum við að gægjast upp fyrir trjálínu, undir augliti arnar, á stjórnlaust fallega fjallasýn og borðuðum hádegismat á grasbala sem verður að teljast með fullkomnari stöðum.
Við erum voða sátt, þó það verði kalt hérna á næturnar. Við verðum í frekari, og vonandi tíðara sambandi frá Rajastan. Blessíbless.
- Davíð

Saturday, October 4, 2008

Myndayndi

Nú lýkur senn fyrsta hluta ferðarinnar, miðausturlenska múslimahlutanum. Honum verður slúttað með bravör um borð í Airbus-vél lúxusflugfélagsins Qatar Airlines á þriðjudaginn. Hehemm. Tími til kominn að bregða upp mynd af stöðunni - þrátt fyrir fátæklega html-kunnáttu.









Í upphafi var ávísun og ávísunin var frá Sveinbirni og var afhent Nönnu í London. Hún reyndist vera innistæðulaus.












Því miður kann ekkert okkar tyrknesku, en þessi orð sem glóðu í myrkri fyrir ofan Bláu moskuna í Istanbúl tengjast eflaust Allah á einn eða annan hátt.














Eins og nærri má geta er í þessari ferð okkar ekki brugðið út af þeim vana að vera fáránlega svöl:







Þessar myndir eru teknar í Pamukkale, sem sjá má umfjöllun um hér að neðan. Þess má geta að rauðu sólgleraugun eru því miður ekki lengur með í för, því þau týndust að ég held í Tyrklandi.





Og já, í Göreme í Tyrklandi (sjá einnig umfjöllun hér að neðan) bjuggum við á hóteli sem leit hér um bil svona út. Nuff said.




















Er nú komið að skuggahliðum ferðarinnar, að því er mætti halda. Hér sitjum við á landamærastöðinni milli Tyrklands og Íran, búnar að setja upp slæðurnar dauðhræddar um að sjáist í hár. Komumst svo að því að þeir voru ekkert svo nojaðir ef maður bara sýnir lit og reynir ekki að mótmæla fatalöggjöfinni of kröftuglega.


Það er kannski ekki skrítið að við stúlkurnar höfum oft verið spurðar hvort við værum systur því svona dulbúnar már hér varla sjá hver ber hvaða nafn.



Fagurt er í Íran og sérdeilis fagurt er í Esfahan þar sem þessi dásamlegi moskuinngangur er staðsettur meðal annarra meistaraverka.





Ég er bara ekki alveg nógu góður ljósmyndari, en þetta er svona smá sýnishorn, nærmynd og panorama, af aðalmoskunni á Imam torgi.






Við þessar dyr hittum við líka Zizou le Nomad. Svo skemmtilega vildi til að þekkti Valdísi vinkonu hennar Áu og fór með okkur í smá rúnt um hverfið. Hér sýnir hann Áu muninn á hurðarhúnum sem konur eiga að nota og sem karlar eiga að nota í landi jafnréttisins. Getiði nú hvor passar hvoru kyni.
























Yfir í smekklausan veraldleikann. Að lifa í fjögurra manna samfélagi getur reynt á bæði líkama og sál. Í einu sparki tókst Davíð til dæmis að brjóta neglurnar á báðum stóru tánum mínum á bak aftur og blóðga til andskotans. Þær urðu vægast sagt ógeðslegar (og hafa þó verið sakaðar um að vera slæmar fyrir, þrátt fyrir kröftug mótmæli eigenda sinna).






Já, það er hættulegt að ganga í sandölum á almannafæri.












Ein birtingarmynd mannlegs samfélags í Sýrlandi er persónudýrkun. Þá persónu sem hér í landi er mest dýrkuð má sjá hér um bil alls staðar. Við erum farin að halda að lög séu gegn því að hafa ekki mynd af ástkærum forsetanum hangandi uppi í búðinni sinni eða hvaða bisness sem maður kann að reka í lífinu. Þeir sem hafa góða sjón geta séð spaðann atarna, sem er einmitt augnlæknir að mennt, þrisvar á annarri þessara mynda.





















Annar vinsæll maður hér í Sýrlandi er hann Saladdin sigursæli, sem réð yfir gríðarlegu landsvæði hér i den. Hér glímir Áa við lofthræðslu sína í kastala hans, sem var vægast sagt afskaplega flottur. Ljósmyndarinn hlær auðvitað bara úr hæð sinni, enda elskar hann (hún) þverhnípi.
















Við höldum áfram að vera svöl...


























Og nú, lesendur góður, sjáiði öll hvað Davíð er svalur, því hann er að reykja. Vatnspípu. Ekki að spila á óbó eins og maður myndi auðvitað giska á fyrst.




Eins og áður sagði höldum við héðan burt á þriðjudag og er þá stefnan tekin til Delhi og víðar í Indlandi. Áa biður alla sem hafa einhverjar geðveikar inside information endilega að tjá sig, í kommentakerfið eða gegnum aðra miðla. Hver veit svo nema bloggað verði fyrir brottför. Minnum enn á getraunina um smásöguna hér að neðan. Pís át.


-Halldóra

Friday, October 3, 2008

Hama(st)

Við eyddum bróðurpart Sýrlandsdvalarinnar (ef ekki í tíma talið, þá aðgerðum) í miðlungsborginni Hama, dulítinn spöl frá skítapleisinu Homs sem er hefðbundnari miðpunktur landsins (sem við heimsóttum aldrei, því við höfum traustar, ó-hómófóbískar, heimildir fyrir því að sú borg sé, jú einmitt, skítapleis).

Hama sjálf var svosem ekki stórkostlega áhugaverð, þó þær væru fullkomlega heillegar leyfar af nokk merkilegu áveitukerfi frá rómverskri fornöld... Það sem við gerðum var að brumma útúr borginni á morgnanna, skoða heilan helling af gömlum steinum vítt og breitt um skógana og sandinn, í öllum mögulegum myndum, og komum svo þreytt og mókandi heim á hostel um sólsetur.

Við sáum tröllvaxið virki ofursúltánsins Saladíns, aðra minni kastala, súlnaskreytt miðstræti ævafornu borganna Palmýru og Apameiu, grafhýsisturna, lékum okkur í svalandi morgunblæ, alein, um ævintýralegar þorpsrústir í fagurri sveit o.s.frv. Þetta var allt mjög skemmtilegt, og minni staðirnir höfðu þann mikla kost að við sátum ein að þeim (sem gerir upplifunina gjörfrábrugðna því að ganga um, t.d., forum romanum).

Halldóra ætlar að myndablogga þessum ævintýrum okkar í næstu færslu ef lukkan leyfir.

Í dag komum við til Damascus, því elsta síbyggða bóli jarðkringlunnar, en höfum fátt upplifað enn. Hér bíða okkur líka fjórir rólegir dagar áður en haldið er til Dehli.

Minna skemmtilegt:

1. Smá magakveisa setti strik í reikninginn (aðeins tvö okkar komumst í alla dagstúrana). Það er allt á uppleið núna (7,9,13).
2. Annars óbrigðull stofnsetjari bloggsins okkar gerði þann feil að takmarka það hver mætti kommenta (kvartanir bárust okkur um aðra vegi internetsins). Því hefur nú verið kippt í liðinn, svo ekki hræðast kommentakerfið kæru lesendur! (Og ég minni, að sjálfsögðu, á getraunina.)

- Davíð (ástæða þess að ég blogga lengst og, að verða, oftast, er líklega sú að ég á ekki facebook aðgang. Vonandi fara stelpurnar að taka hér til hendinni svo þið kafnið ekki öll í klaufalegri skrúðmælgi og innihaldsleysi).