Wednesday, October 29, 2008

Ranthambore-ing...djók

Á morgun sjáum við (7, 9, 13) tígrisdýr. Óinnrimluð, ef frá er talinn feldurinn. Víí!

Í dag erum við stödd í Ranthambore þjóðgarðinum í Rajasthan (kóngalandi), fyrrum veiðilendum Hákónganna (Maharaja) frá Jaipur. Þar (Jaipur, bleiku borginni) vorum við í gær, en nenntum voða fáu, almennt nennuleysi sem lagðist ofaná gallspúandi magaverk (ég nefni engin nöfn) svo úr varð takmarkað sightseeing gegnum bílrúður og myndavélalinsur. Rajasthan prógramið; ný borg og bílferð og hótelherbergi uppá svo til hvern dag, er í þann mund að verða þreytt. Blessunarlega lýkur því á morgun við, ojújú, Taj Mahal.

Að vísu rifum við okkur uppúr mókinu þegar leið á helslakan gærdaginn og dröttuðumst niður í bæ, enda var gærkvöldið Diwali, pan-búdda-hindú ljósahátíð sem setti áberandi svip á borgina. Rakettulega séð var þetta nú kannski ekki mikið meira en gamlárskvöld á Stokkseyri (þó 3.5 milljón búi í Jaipur), en neon-glitpappírs ljósaskreytingarnar skákuðu jólaklæddum Skólavörðustígnum óneitanlega, bæði í gæðum og magni. Og já, Áa fór bæði á fílsbak og í alvöru Bollywood bíó, og er því komin að Górillukynnum á to-do-lista lífs síns. Víí!

Mamma mín, praktísk og skipulögð, bað um nó-nonsens fregnir af heilsufari (þó hún hafi líklega átt við mitt persónulega ástand, í persónulegu bréfi). Sjá eftirfarandi:

Allar stúlkurnar, blómin blessuð, hafa þurft að eiga við magakveisur af ýmsum gerðum. Hælsæri minntu á tilvist sína utanúr hugmyndaheiminum án þess að raungerast að fullu. Nefrennsli er strítt, helst hjá okkur Halldóru, en það kemur svo sem fullkomlega heim og saman við fyrri kynni af öndunarfærum okkar. Moskítóbitin eru mýmörg (haha...) og koma í bylgjum. Í dag rís sú alda hátt og Halldóra, reynslunni ríkari, slær móðurlega á fingurnar þegar einhver tapar sér í syndsamlegu klóri. Önnur bylgjulaga stærð er sú andlega, og tjóir vart að tala um hana sem neitt heildstætt fyrirbæri yfir hópinn, nema hvað þar rísa öldurnar einnig hátt án þess að neitt newtónískt bakslag þurfi að verða (ein möguleg minniháttar röskun er að ég vísa, í síauknum mæli, til sjálfs míns í kvenkyni...)

Nánasta framtíð: Eftir Agra til Varanasi og svo að og yfir landamæri Nepal, þar sem ólíkt líkamlegri túrismi bíður okkar. EXTREEEME! PEPSI-MAX!

- Davíð

3 comments:

Unknown said...

Glöggir lesendur taka eflaust eftir því að þessi nonsense færsla (heilsufarssamantektin þar í forgrunni) er tileinkuð Bylgju. (ég bara varð)

Anonymous said...

lífið gengur jú alltaf í Bylgjum, það vitum við.... (verður þessi brandari einhverntíman þreyttur? ég skil þig vel, Halldóra, ég hugsaði það sama og ætlaði að kommenta á svipuðum nótum en hélt í mér)

Anonymous said...

ho ho, ég verð ekki leið á þessu, haldið áfram krakkar mínir!