Sunday, January 11, 2009

Bækurnar

Hér er lokalisti yfir allar þær bækur sem við fjögur höfum í sameiningu innbyrt síðan við hófum för. Einkunn fylgir hverri bók, frá hverjum lesanda. Einkunnarskalinn er eins og áður eftirfarandi:

0 - Hörmung ein
1 -
2 - Vítaverð sóun nytjaskóga
3 -
4 - Ekki góð bók
5 -
6 - Ekki slæm bók
7 -
8 - Afþreying og gott betur
9 -
10 - Fullkomin fegurð


(Hæsta einkunn, 10, er ekki skilgreind sem "allra besta bók allra tíma" heldur bara yfirmáta frábær - einkunnir eru því í hærri kantinum. Heilar og hálfar tölur eru leyfðar. Einkunn hvers er tilgreind með upphafsstaf (Á, D, H og N). Lítið e eftir einkunn þýðir að viðkomandi hafi verið að endurlesa bókina. Stórt B þýðir að viðkomandi hafi lesið bókina einhverntíman fyrir ferðalagið, en ekki aftur á meðan á því stendur. Þá fylgir engin einkunn.)

Bækurnar eru í stafrófsröð:

---

9 Stories eftir J.D. Sallinger: D:9,5 / N:8,5

A Heartbreaking Work of Staggering Genius eftir Dave Eggers: Á:8,5 / D:8 / H:?

A Poirtrait of the Artist as a Young Man eftir James Joyce: D:8,5

The Accidental eftir Ali Smith: Á:7 / D:7 / H:8 / N:8

Big Bang eftir Simon Singh: D:8

The Blind Assassin eftir Margaret Atwood: Á:9,5 / D:9 / H:B / N:8,5e

Buddha: Kapilavastu (Vol. 1) eftir Osamu Tezuka: Á:8 / D:8

Burning Chrome eftir William Gibson: D:B / H:7,5

Catch 22 eftir Joseph Heller: H:9 / N:9

The Code Book eftir Simon Singh: D:8

Emma eftir Jane Austin: N:6

Fictions eftir Jorge Luis Borges: Á:9,5 / D:9,5 / N:9

Galapagos eftir Kurt Vonnegut: Á:8 / D:8,5 / H:7,5 / N:8,5

Glæpur og Refsing eftir Fjodor Dostoevskíj: H:8,5 / N:B

The Grass is Singing eftir Doris Lessing: N:9

The Illusion of Destiny eftir Amartya Sen: Á:8 / D:7

Meistarinn og Margaríta eftir Mikhaíl Búlgakov: Á:10 / D:10 / H:10e / N:B

Midnight's Children eftir Salman Rushdie: Á:9,5 / D:9 / H:B / N:9e

Pale Fire eftir Vladimir Nabokov: D:9

Pattern Regocnition eftir William Gibson: Á:9,5 / D:7,5

Rokland eftir Hallgrím Helgason (hljóðbók): Á:6

Sendiherrann eftir Braga Ólafsson (hljóðbók): N:7,5

Síðasta setning Fermats eftir Simon Singh: D:8 / H:8

Speak What We Feel eftir Frederick Buechner: Á:7,5

Tröllakirkja eftir Ólaf Gunnarsson: D:8 / H:8 / N:8

Út að stela hestum eftir Per Petterson: Á:6 / D:5,5

The White Man's Burden eftir William Easterly: Á:8 / D:9,5 / H:?

White Teeth eftir Zadie Smith: H:8,5 / N:8,5

The White Tiger eftir Aravind Adiga: D:9 / N:9,5

The Wind-up-Bird Chronicle eftir Haruki Murakami: D:7,5 / H:8 / N:8,5e

---

Þessar skruddur hafa lúmskt vægi í ferðalaginu öllu, ekki síður en staðir, hlutir og fólk (enda voru þær flestar um þetta þrennt). Þær verða órjúfanlegir þættir í minningunni af ferðinni, enda mikill tími til lesturs í lestum, rútum, flugvélum, ýmiskonar biðstofum og andyrum og, því miður, í veikindum (eða í félagsfælinni heimsetu meðan stúlkurnar stunduðu saurlifnað kvöldin löng, í tilfelli litla drengsins).

Og sumt var einstakt að lesa með hliðsjón af umhverfinu; Midnight's Children og White Tiger eru báðar stórkostlegar og það enn frekar með Indland fyrir augunum, eða ferskt fyrir hugskotssjónum. Svo var skemmtilegt að við læsum öll sömu bækurnar, í sama mund og við deildum sömu húsakynnum, baðherbergjum, máltíðum o.s.frv. Það orsakaði mikla, mis-gáfulega og langvarandi umræðu um verkin, gæði þeirra og inntak. Skemmtilegt þegar allir mynda sér skoðun.

Einkunnalega má sjá, kannski nokk fyrirsjáanlega, að Meistarinn og Margaríta eftir Búlgakov verður útnefnd besta bók ferðalagsins. Annað sætið er engu að síður skammt undan í gæðum, um leið og það er troðið mögulegum kandídötum.

Besta sameiginlega bókmenntaupplifunin er hinsvegar klárlega þegar Áa las Borges fyrir okkur við dauft kertaljós, liggjandi fjögur uppá maísgeymslulofti í Kasmír, þægilega þreytt eftir dagslanga fjallgöngu. Smásagan um hinn minnuga Funes er nógu fullkomin upp á sitt einsdæmi, en hún drakk í sig alveg nýja vídd frábærleika og dulúðar úr hálf óraunverulegum aðstæðunum.

Þessi þurri listi þarf líklegast að duga sem niðurlagsfærsla bloggsins eins og það leggur sig. Langtíburtistan kveður.

Monday, January 5, 2009

Andvarp

Já, andvarp.

Yfir hverju? Svo mörgu.

Af hvaða sort; vonlaust, dapurt eða sælt andvarp? Sitt lítið af hvoru.

Síðast þegar lesendur vissu voru hin þrjú fræknu (óvanalegt af Halldóru, að skemma stuðlun) á Bali á Indónesíu, í kafi. Núna erum við á þurru landi, nei, "þurru" eru ýkjur, en tvímælalaust ofansjávar. Þetta vota land er eyjan Flores. Ekkert okkar hefur nokkru sinni verið jafn langt frá norrænu heimili okkar, ef útreikningar mínir standast, og við hættum okkur ekki lengra í þessari ferð. En rigningin og fjarlægðin orsaka ekki andvarpið.


Bali
Á Bali áttum við góð jól; köfuðum eins og áður segir, spændum upp malbikið á vespum, Áa samdi, söng og spilaði jólalag og síðasta daginn fórum við í eldfjallgöngu. Sú ganga var falleg og fín, en orsakaði tvö heilsufarsvandamál hjá mér, Davíð (höfundi færslunnar, sörpræs, sörpræs). Ég fór sokkalaus í sandölum, sem voru helst til lausir á fótunum, og þegar ég kom aftur að fjallsrótum blæddi sumstaðar. Þetta, þó ég sé enn sár, reyndist hinsvegar minniháttar miðað við sólbrunann sem axlirnar á mér urðu fyrir, en það kom ekki strax í ljós og er margþætt saga. Byrja á því að segja þetta hafi verið slæmur bruni, en innan eðlilegra marka.

Gili Trawangan
Frá Bali héldum við til Gili eyjanna, vestur af Lombok, nánar tiltekið til Gili Trawangan. Þessar eyjar eru lítið meira en sandrif í sjónum (við hjóluðum umhverfis Trawangan á hálftíma), en þar er töluverður túrismi, partístand, köfun og strendur. Þar eyddum við nokkrum dögum fram að Áramótunum, en átta að morgni nýársdags (útsofin og hress...) fórum við um borð í ofvaxna trillu þar sem við ætluðum að eyða næstu 4 dögum.

Við höfðum nefnilega keypt okkur ferð til Flores fyrrnefndrar, með nokkrum sérvöldum snorkl-stoppum (snorkl, ef einhver skyldi ekki vita, er að vera með sundgleraugu og öndunarrör í munninum) og stoppi á Komodo eyjum. Þar búa Komodo drekarnir, stærstu eðlur veraldar. Á þessum tímapunkti var allur sársauki farinn úr sólbrunanum mínum (stelpurnar héldu samt lífi í sameiginlega sársaukanum með timburmönnum), en axlirnar á mér hinsvegar farnar að flagna vel og vandlega.

Siglingin
Ferðin byrjaði vel. Veðrið var gott og eyjurnar og hafið fallegt. Að vísu voru hinir 13 túristarnir á bátnum hver öðrum ófyndnari, en heilt yfir vinalegur og meinlaus hópur. Maturinn var fínn. Svo í fyrsta snorkl-stoppi varð ferðin mjög góð, því aðstæðurnar og dýralífið var fyrirmyndar frábært. Ég hinsvegar snorklaði, nokk eðlilega, í sundskýlu og engu öðru, og bleika, nýfædda húðin á öxlunum tók ekki vel í að snúa bakinu í sólina tímunum saman.

Ekki aðeins brann ég aftur, svo illa að á öxlum mínum eru í þessum rituðu orðum stórar vökvafylltar blöðrur og nokkur óhugnanleg litbrigði, heldur fékk ég líka sólsting. Frá þessu varð sjóferðin versta þolraun lífs míns (svona af þeim sem ég man eftir í augnablikinu). Ég missti alla matarlyst. Mig svimaði það sem eftir lifði ferðarinnar (og enn í dag). Ég var/er alltaf með gæsahúð, óháð hitastigi. Ég var ófær um að sofa samfellt meira en 1-2 tíma, ekki síst því það var pizza-þunn "dýna" (einhverstaðar milli dominos og eldsmiðjunnar) sem hlífði manni fyrir þilfarinu, þilfarinu sem víbraði með díesel drununum sem myrtu næturþögnina. Ég vildi lítið hreyfa mig meðan ég lá sökum bruna, og núna er ég með mar á báðum mjöðmum þar sem ég lagði þunga minn. Liðverkir, beinverkir, vont að hreyfa augun. Nema hvað.

Þetta er augljóst Karma fyrir það hve hrokafullt gys ég hef gert stelpunum fyrir öll veikindin, enn írónískara í ljósi þess ég get engu kennt um öðru en eigin heimsku. Að því sögðu, þá voru bæði Nanna og Áa að sjálfsögðu veikar um borð í bátnum, hóstandi og hnerrandi hægri vinstri. En við sáum Komodo Drekana og allt umhverfið var voða fallegt þegar maður reif augun frá eigin volæði.

Flores
Og í dag erum við að reyna púsla okkur aftur saman hérna á Flores, áður en við byrjum að fikra okkur (nokkuð hratt) í átt að Jakarta á morgun, þaðan sem við fljúgum heim þann tíunda. Þeirri tilhugsun fylgir ljúfsárt andvarp (85% ljúft, 15% sárt eins og ástandið er). Við hlökkum voða mikið til að hitta ykkur (...sum).

Jafnvel þó þið hafið greinilega bara áhuga á Halldóru, ef mið er tekið af því að ekki stakt komment hefur borist far-away-istan síðan hún yfirgaf hópinn...

Sunday, December 28, 2008

Grafíkin er rosaleg

(Ég, Davíð, er hér að ávarpa aðeins hluta lesenda (Ívar, Sveinbjörn og Adda) með eftirfarandi blaðri. Vonandi afsaka aðrir. Ég geri mér grein fyrir því ég ræni stundum þessu felles bloggi okkar undir mitt einka-bull, en það leyfi ég mér í krafti þess að ég er sá sem legg lang mest til bloggsins. Og því að enginn virðist lesa það lengur svo ég leyfi mér bara að gera vottever þí fokk, eins og sagt er. Svo á addi afmæli.)

Það kannast allir sem hafa spilað tölvuleiki af staðfestu og elju um margra ára tímabil, við þessar hálfskammarlegu aðstæður: Einhver hefur dregið mann út í raunheiminn, frá tölvuskjánum, kannski uppá fjöll eða niður á strönd í göngutúr. Maður staulast náladofinn og stirður á eftir viðkomandi, pírandi augun mót sólinni. Svo nemur kvalari manns staðar til að draga djúpt og útivistarlega andann. Þá lítur maður fýldur kringum sig og sólin og skýin og himininn og sjórinn og hitt draslið er allt að spila sinfónískt saman. Þá er fyrsta hugsunin: "Vá, góð grafík..."

Og eins og ég sagði, þá þykir manni þetta hálf skömmustulegt. Firrt. Á þessu ferðalagi hefur þetta hent mig margoft, á marga vegu. Um leið hefur mér þótt draga úr skömminni sem fylgir, því stundum er um fallegt, nytsamlegt samspil hins stafræna og raunverulega að ræða. Nokkur Dæmi:

Ýmsar þær upplýsingar sem ég hafði um Hittíta á ferð okkar um Tyrkland, hafði ég beint úr Civilization, leik sem ég spilaði fyrst með pabba mínum 6-7 ára gamall (þar sem við reistum víðfemasta og voldugasta ríki veraldar út frá höfuðborginni Hvolfsvelli).

Eins minnir mig að hið Fönesíska stafróf hafi verið eitt af fyrri markmiðum í Civilization, en elstu þekktu menjar um það sá ég á 5x3 cm steinvölu á þjóðminjasafninu í Damaskus (þessi flís var verðmætasta eign safnsins og yfir mig kom, í allri hreinskilni, mikill heilagleiki).

Talandi um Damaskus, þá fannst mér hinn gamli, UNESCO varðveitti miðbær skringilega kunnuglegur. Um hann hef ég líka hlaupið, húsþökin þá helst, í Assassins Creed sem gerist á krossfarartímum. Turnarnir og virkin voru sérstaklega spot on. (Dæminn um tölvuleikjaþekkingu er varðar Mesópatamíu og fornöldina eru í raun fjölmörg ef út í það er farið: Age of Empires, Prince of Persia, Caesar o.s.frv.)

Í Nepal fórum við í Paragliding og þá varð tölvuleikjasamslátturinn svo skýr að jaðraði við leiftrandi endurlit. Að svífa friðsælt um háloftin var tilfinning sem ég hafði áður kynnst gegnum Pilotwings 64 með honum Sveinbirni mínum (sá leikur er í mörgu tilliti sá besti sem gerður hefur verið).

Á Tælandi voru þverir sandlitir klettar og pálmatré og glitrandi blár sjór. Eins og í Far Cry, þar sem leikjahöfundar smíðuðu algera paradís til þess að hýsa helvíti. Óneitanleg líkindi.

Og núna síðast hef ég þotið um bugðótta Bali-vegi á vespu og viti menn, öll Colin McRae Rally maraþonin komu mér aftur ljóslifandi fyrir hugskotsjónir: Hrísgrjónaakrarnir, trjágöngin og fjöllin í fjarska eru eins og klippt útúr þeim suð-austur-asísku leiðum sem í boði voru (þó auðvitað sé það á hinn veginn). Ég féll ósjálfrátt eins og á teinum í racingline-ið. Það eina sem vantar er rammskoskur aðstoðarbílstjóri í eyrun.

Köfunin kveikir hinsvegar engin sérstök leikja-hugrenningartengsl þó ég hafi margsinnis kafað í sýndarheimum. Sú myndvinnsluvél sem ræður við iðandi liti og form kóralrifs hefur ekki enn verið forrituð (...að því sögðu, þá er friðsældinni sem fylgir því að fljóta þyngdarlaus um blámann ágætlega komið til skila í köfunarhluta MGS2, ef fólk man eftir því yndi...)

Nú mega lesendur koma með tillögur að enn nördalegri færslu, ef einhver er möguleg.

Wednesday, December 24, 2008

Jólastressið


















































































(Köfuðum niður í skipsflak úr fyrri heimstyrjöld. Fórum svo fínt út að borða um kvöldið, en af því eru engar myndir.)

Friday, December 19, 2008

Aðskilnaður

Það er enginn aðskilnaður í skíðlogandi núinu, en hinsvegar bæði í ösku fortíðar og eldivið framtíðarinnar. Sjá:

Við vöknum að morgni 15. Desember og planið er að taka rútu í eftirmiðdaginn, af ströndinni til Bangkok:

Allir nema Nanna: "Bless Tæland, halló Singapore! Vrúúúm!"
Nanna (magaveik): "Ööö ég dey ef ég ferðast núna..." (Ælir til sannfæringar).
Halldóra (enn ógangfær): "Ööö ég dey úr leiðindum ef ég eyði enn öðrum degi í "klifurparadísinni" Ton Sai. Ég vil borg og bíó og malbik og fokdýrt Cafe Latte úr pappamáli."

Úr verður að Halldóra, sem hefur eytt 7 dögum meira eða minna mókandi þjáð inní bambuskofa á meðan ferðafélagar hennar ýmist klifra, synda, kafa og drekka sig mökkölvaða á strandbörum, fer til Bangkok í fylgd með Davíð. Davíð þykir ekkert sárt að yfirgefa Ton Sai, því þó hann sé auðveldlega hæfasti klifrari hópsins þá er hann bæði líf- og lofthræddur og hefur þar af leiðandi takmarkað gaman af, auk þess sem hann drekkur ekki áfengi frekar en hann þérar þjónustulýð. Þriðja, og mögulega veigamesta ástæða þess að hann er brottförinni feginn, er að hann hefur orðið fyrir hégómlegu klofsparki og engist um í minnimáttarlosti; nánast allir karlmenn á ströndinni bera þess merki að vera þrautþjálfaðir klettaklifrarar þegar þeir bera á sér bringuna, svo beinaber gráneskja Davíðs þolir engan samanburð.

Nanna hinsvegar verður eftir í klettadýrðinni ásamt Áu, særandi út nýjustu pestina með svita, og heldur til Singapore með rútu tveim dögum seinna. Áa er aukadögunum fegin, því hún er svo fránumin af fegurð Railay skagans að hún kýs að lýsa ástandinu sem samfelldri, sjónrænni raðfullnægingu. Þar að auki gerði hún sér vonir um að framlengingin leyfði ævintýralega Kajaka-ferð þar sem klifrað yrði án öryggisbúnaðar út yfir djúpum sjó. Þriðja, og mögulega veigamesta ástæða þess að hún er umframtímanum fegin, er að nánast allir karlmenn á ströndinni bera þess merki að vera þrautþjálfaðir klettaklifrarar þegar þeir bera á sér bringuna.

Ferndin varð sumsé tvenndir í þrjá langa daga en hefur nú runnið saman á ný eins og spenntar greipar í hátíðaranda og samhljóm á jólaskreyttum götum Singapore. Þær skreytingar eru að vísu af mörgu tagi:

Ferð Davíðs og Halldóru til borgríkisins var ekki hnökralaus; fluginu var frestað um tólf tíma, sem olli því að þau komu þreytt og velkt seint um nótt. Þá áttu þau enn eftir að bóka hótel. Eftir að hafa ráðfært sig við ferðamannabækling var hringt í nokkur af tilgreindum "budget" hotelum. Loks svaraði einhver og upplýsti með ill-skiljanlegum semingi að nóttin kostaði 40 Singapore dollara fyrir tvo. Það varð að duga, útí leigubíl og af stað.

Þegar bíllinn nálgaðist hverfið mátti sjá þar væri töluvert partístand. Uppáklæddar gellur í djammgöllum voru á hverju strái. Tíðni þeirra fór sívaxandi. Að lokum mátti hvergi sjá í gangstéttarbrúnina fyrir háum hælum og netasokkabuxum... "aaahh, þannig" sögðu Davíð og Halldóra, og veltu um leið fyrir sér hvort hlutföll framboðs og eftirspurnar væru ekki í hróplegu ósamræmi: hér gaf að líta hátt í hundrað vændiskonur á eins og einum gatnamótum. Og "budget" hótelin, sem voru mörg, báru kindug nöfn; Blossom, Happy Hotel, Gay World... Davíð fór stórkostlega hjá sér, en Halldóra vildi bara komast með höfuðið á kodda og tók haltrandi á hækjum af skarið, upp tröppur Oxley Blossom hótelsins, höfðinu hærri en hórustraumurinn alltumlykjandi. Maðurinn í móttökunni vildi hinsvegar ekki kannast við að þar væru nein laus herbergi, ekki svona til lengri tíma. Þau veifuðu í nýjan leigubíl.

Hvað um það, nú eru ferðafélagarnir allir sameinaðir á ný á þessum skrýtna stað, Singapore, sem er lýst ástúðlega af heimamönnum sem "heimsins stærsta molli". Vísindaskáldsagnahöfundurinn William Gibson kallaði staðinn hinsvegar "Disneyland með dauðarefsingu" og báðar lýsingar eru nokk nákvæmar; hér eru allar jarðhæðir verslanir og allt er sérsniðið undir aðkomumenn en skringilega snyrtileg götumyndin ber merki um einhverja dimma undiröldu, eins og hluta hreingerningaræðisins hafi blætt inn á hin huglægu svið tilverunnar... En hér er frábært að versla, sötrandi frappochino milli sushi-bita, engin spurning.

ATH!: Senn líður hinsvegar að óvæntum aðskilnaði á ný, og ég vona að færslan hafi ekki verið svo ömurlega löng að fólk fari á mis við þetta aðalefni hennar: Fæturnir á Halldóru hafi verið í síauknu hassi allt síðan hún snéri ökkla á leið til Nepal. Nýjast greiningin er sú hún þjáist af liðbólgum sem eru fylgifiskur magapestar. Bæði hnén, ökklarnir og ný síðast mjaðmaliðirnir eru stokkbólgnir og ósamvinnuþýðir. Öll hennar tælandsdvöl hefur verið mörkuð þessum meiðslum og bæði ferðalög og athafnir afar erfið viðureignar. Hún getur ekki sofið á nóttinni fyrir verkjum svo dagarnir líða í þreyttu verkjalyfja móki, sem skemmir jafnvel sólbaðsmöguleikann. Því hefur hún ákveðið að flýta heimför og reyna að komast í íslenska jólasteik, í stað þess að eyða jólunum farlama á illa þrifnu hótelherbergi á Bali á meðan vinir hennar tækju dagsferðir um eyjuna.

Ég tel að þetta sé í fyrsta sinn sem halli á okkur íbúa far-away-istan í samskiptum við lesendur: Þið fáið dúndur jólapakka en við sitjum eftir snauð. Til hamingju þið, en djöfull er þetta skítt.

Thursday, December 11, 2008

Lítil hetjusaga

Þá erum við loksins búin að yfirgefa agnarsmáu paradísarköfunareyjuna okkar (eða köfunarhelvítispyttinn eins og non kafararnir í hópnum kusu að kalla hana, ástúðlega.) Haldandi að Ko Tao yrði ekki toppuð brá okkur frekar mikið í brún þegar við sigldum inn í litlu klettavíkina hérna í Railay á vestur Tælandi. Siglingin var eins og að komast inn í aðra vídd, himinháir gróðurklettar í allar áttir og nei, Dísa, ekkert photoshop rugl hér.

Ég komst einnig í aðra vídd heilsufarslega séð á meðan siglingunni stóð, en dyrnar að helvíti opnuðust í sirka tvo tíma og héldu mér í sjóveikisheljargreipum. Þar sem ég lá ælandi og svitnandi og skjálfandi í stólnum mínum gerðist hins vegar alveg magnaður hlutur.

Ungur herramaður sem starfaði sem ferjuþjónn um borð, kom að mér og hljóðlaust tók utan um mig og bar mig og töskuna mína aftast í bátinn þar sem ruggið var minna og lagði mig pent niður á gólfið og settist hjá mér. Þá næst gaf hann mér ilmolíudropa sem hann nuddaði á gagnaugun og á hálsinn, lét mig lykta af andsjóveikisilmsöltum á kortersfresti, vék ekki frá mér alla ferðina í land og taldi niður mínúturnar þangað til henni lyki fyrir mig. Hetjan nuddaði á mér axlirnar, hálsinn og hendurnar, hélt utan um mig og um hárið þegar ég þurfti að æla og svo leyfði hann mér að bora höfuðið mitt inn í hálsakotið hans, þar sem það var eini staðurinn þar sem ekkert ruggaði á þessum sataníska báti. Allt þetta gerði hann orðalaust og fullkomlega sleazylaust á meðan ég lá stynjandi og hálfmeðvitundarlaus upp við hann.

Þegar við loksins komumst á fast land var ég svo hrærð yfir góðmennsku hans að ég vissi ekki hvort ég ætti að hlægja eða gráta, ég fleygði mér í fang hans að kveðjuskyni, Davíð til mikillrar furðu, þar sem engin vitni höfðu verið að hetjuskapnum. Ég mun digga þennan mann eilíflega frá innstu hjartarótum, og ég efast um að sjoppustarfsmenn í Baldri myndu bregðast eins við veikum túristakindum, að þeim ólöstuðum.

Það er reyndar alveg magnað hvað samgönguþjónar hafa heillað okkur í þessari ferð. Í miðausturlöndum höfðum við tvo rútuþjóna í hverri rútu sem dældu í okkur vatni og sprautuðu ilmvatni í klúta og færðu okkur. Reyndar féllu þeir svo í ónáð þegar einn þeirra reyndi árangurslaust að káfa á mér í svefni en það er nú önnur saga. Kynbombuflugfreyjurnar og flugþjónarnir hjá Qatar airways voru svo uppspretta langra umræðna um þrýstna rassa, stóra barma og fegurðastuðla hjá ráðningaskrifstofum flugfélagsins. En ekkert toppar þó hetjuna.

En hingað erum við komin í heilmikið klettaklifursprógram en þessi staður þykir einn besti klifurstaður í heimi með alla þessa kletta skagandi út um allt. Göngugarpurinn klífur þó bara hugartinda, göngugrindin var skilin eftir á Ko Tao en göngugirndin magnast með hverjum deginum. Markmiðið er að komast hækjulaust til Singapore. Einn, tveir og allir saman nú, ÁFRAM Göngudóra!

Annað í fréttum er að Nanna er orðin ljóshærð og krullhærð, ég lét klippa nær allt hárið af mér og Davíð setur sítrónu á hausinn til að hann verði ljóshærður og sætur í öllu taninu sem á sér stað hérna.

Næstu dagar eru semsagt undirlagðir undir klettaklifur og vonandi enn eina köfunarferð áður en við fljúgum á Singaporesteinsteypuna.

Gleðileg aðventukósíheit!
Áa

Tuesday, December 9, 2008