Sunday, December 28, 2008

Grafíkin er rosaleg

(Ég, Davíð, er hér að ávarpa aðeins hluta lesenda (Ívar, Sveinbjörn og Adda) með eftirfarandi blaðri. Vonandi afsaka aðrir. Ég geri mér grein fyrir því ég ræni stundum þessu felles bloggi okkar undir mitt einka-bull, en það leyfi ég mér í krafti þess að ég er sá sem legg lang mest til bloggsins. Og því að enginn virðist lesa það lengur svo ég leyfi mér bara að gera vottever þí fokk, eins og sagt er. Svo á addi afmæli.)

Það kannast allir sem hafa spilað tölvuleiki af staðfestu og elju um margra ára tímabil, við þessar hálfskammarlegu aðstæður: Einhver hefur dregið mann út í raunheiminn, frá tölvuskjánum, kannski uppá fjöll eða niður á strönd í göngutúr. Maður staulast náladofinn og stirður á eftir viðkomandi, pírandi augun mót sólinni. Svo nemur kvalari manns staðar til að draga djúpt og útivistarlega andann. Þá lítur maður fýldur kringum sig og sólin og skýin og himininn og sjórinn og hitt draslið er allt að spila sinfónískt saman. Þá er fyrsta hugsunin: "Vá, góð grafík..."

Og eins og ég sagði, þá þykir manni þetta hálf skömmustulegt. Firrt. Á þessu ferðalagi hefur þetta hent mig margoft, á marga vegu. Um leið hefur mér þótt draga úr skömminni sem fylgir, því stundum er um fallegt, nytsamlegt samspil hins stafræna og raunverulega að ræða. Nokkur Dæmi:

Ýmsar þær upplýsingar sem ég hafði um Hittíta á ferð okkar um Tyrkland, hafði ég beint úr Civilization, leik sem ég spilaði fyrst með pabba mínum 6-7 ára gamall (þar sem við reistum víðfemasta og voldugasta ríki veraldar út frá höfuðborginni Hvolfsvelli).

Eins minnir mig að hið Fönesíska stafróf hafi verið eitt af fyrri markmiðum í Civilization, en elstu þekktu menjar um það sá ég á 5x3 cm steinvölu á þjóðminjasafninu í Damaskus (þessi flís var verðmætasta eign safnsins og yfir mig kom, í allri hreinskilni, mikill heilagleiki).

Talandi um Damaskus, þá fannst mér hinn gamli, UNESCO varðveitti miðbær skringilega kunnuglegur. Um hann hef ég líka hlaupið, húsþökin þá helst, í Assassins Creed sem gerist á krossfarartímum. Turnarnir og virkin voru sérstaklega spot on. (Dæminn um tölvuleikjaþekkingu er varðar Mesópatamíu og fornöldina eru í raun fjölmörg ef út í það er farið: Age of Empires, Prince of Persia, Caesar o.s.frv.)

Í Nepal fórum við í Paragliding og þá varð tölvuleikjasamslátturinn svo skýr að jaðraði við leiftrandi endurlit. Að svífa friðsælt um háloftin var tilfinning sem ég hafði áður kynnst gegnum Pilotwings 64 með honum Sveinbirni mínum (sá leikur er í mörgu tilliti sá besti sem gerður hefur verið).

Á Tælandi voru þverir sandlitir klettar og pálmatré og glitrandi blár sjór. Eins og í Far Cry, þar sem leikjahöfundar smíðuðu algera paradís til þess að hýsa helvíti. Óneitanleg líkindi.

Og núna síðast hef ég þotið um bugðótta Bali-vegi á vespu og viti menn, öll Colin McRae Rally maraþonin komu mér aftur ljóslifandi fyrir hugskotsjónir: Hrísgrjónaakrarnir, trjágöngin og fjöllin í fjarska eru eins og klippt útúr þeim suð-austur-asísku leiðum sem í boði voru (þó auðvitað sé það á hinn veginn). Ég féll ósjálfrátt eins og á teinum í racingline-ið. Það eina sem vantar er rammskoskur aðstoðarbílstjóri í eyrun.

Köfunin kveikir hinsvegar engin sérstök leikja-hugrenningartengsl þó ég hafi margsinnis kafað í sýndarheimum. Sú myndvinnsluvél sem ræður við iðandi liti og form kóralrifs hefur ekki enn verið forrituð (...að því sögðu, þá er friðsældinni sem fylgir því að fljóta þyngdarlaus um blámann ágætlega komið til skila í köfunarhluta MGS2, ef fólk man eftir því yndi...)

Nú mega lesendur koma með tillögur að enn nördalegri færslu, ef einhver er möguleg.

2 comments:

Unknown said...

Skemmtileg færsla. Kannast við þetta, en það er langt síðan ég hef fengið svona móment...

Anonymous said...

Kannast við þetta líka. Ég var að skoða rosalega mikið af HDR ljósmyndum um daginn, mjög eerie fílingur yfir þeim öllum, of góð grafík fyrir raunveruleikan.