Friday, December 19, 2008

Aðskilnaður

Það er enginn aðskilnaður í skíðlogandi núinu, en hinsvegar bæði í ösku fortíðar og eldivið framtíðarinnar. Sjá:

Við vöknum að morgni 15. Desember og planið er að taka rútu í eftirmiðdaginn, af ströndinni til Bangkok:

Allir nema Nanna: "Bless Tæland, halló Singapore! Vrúúúm!"
Nanna (magaveik): "Ööö ég dey ef ég ferðast núna..." (Ælir til sannfæringar).
Halldóra (enn ógangfær): "Ööö ég dey úr leiðindum ef ég eyði enn öðrum degi í "klifurparadísinni" Ton Sai. Ég vil borg og bíó og malbik og fokdýrt Cafe Latte úr pappamáli."

Úr verður að Halldóra, sem hefur eytt 7 dögum meira eða minna mókandi þjáð inní bambuskofa á meðan ferðafélagar hennar ýmist klifra, synda, kafa og drekka sig mökkölvaða á strandbörum, fer til Bangkok í fylgd með Davíð. Davíð þykir ekkert sárt að yfirgefa Ton Sai, því þó hann sé auðveldlega hæfasti klifrari hópsins þá er hann bæði líf- og lofthræddur og hefur þar af leiðandi takmarkað gaman af, auk þess sem hann drekkur ekki áfengi frekar en hann þérar þjónustulýð. Þriðja, og mögulega veigamesta ástæða þess að hann er brottförinni feginn, er að hann hefur orðið fyrir hégómlegu klofsparki og engist um í minnimáttarlosti; nánast allir karlmenn á ströndinni bera þess merki að vera þrautþjálfaðir klettaklifrarar þegar þeir bera á sér bringuna, svo beinaber gráneskja Davíðs þolir engan samanburð.

Nanna hinsvegar verður eftir í klettadýrðinni ásamt Áu, særandi út nýjustu pestina með svita, og heldur til Singapore með rútu tveim dögum seinna. Áa er aukadögunum fegin, því hún er svo fránumin af fegurð Railay skagans að hún kýs að lýsa ástandinu sem samfelldri, sjónrænni raðfullnægingu. Þar að auki gerði hún sér vonir um að framlengingin leyfði ævintýralega Kajaka-ferð þar sem klifrað yrði án öryggisbúnaðar út yfir djúpum sjó. Þriðja, og mögulega veigamesta ástæða þess að hún er umframtímanum fegin, er að nánast allir karlmenn á ströndinni bera þess merki að vera þrautþjálfaðir klettaklifrarar þegar þeir bera á sér bringuna.

Ferndin varð sumsé tvenndir í þrjá langa daga en hefur nú runnið saman á ný eins og spenntar greipar í hátíðaranda og samhljóm á jólaskreyttum götum Singapore. Þær skreytingar eru að vísu af mörgu tagi:

Ferð Davíðs og Halldóru til borgríkisins var ekki hnökralaus; fluginu var frestað um tólf tíma, sem olli því að þau komu þreytt og velkt seint um nótt. Þá áttu þau enn eftir að bóka hótel. Eftir að hafa ráðfært sig við ferðamannabækling var hringt í nokkur af tilgreindum "budget" hotelum. Loks svaraði einhver og upplýsti með ill-skiljanlegum semingi að nóttin kostaði 40 Singapore dollara fyrir tvo. Það varð að duga, útí leigubíl og af stað.

Þegar bíllinn nálgaðist hverfið mátti sjá þar væri töluvert partístand. Uppáklæddar gellur í djammgöllum voru á hverju strái. Tíðni þeirra fór sívaxandi. Að lokum mátti hvergi sjá í gangstéttarbrúnina fyrir háum hælum og netasokkabuxum... "aaahh, þannig" sögðu Davíð og Halldóra, og veltu um leið fyrir sér hvort hlutföll framboðs og eftirspurnar væru ekki í hróplegu ósamræmi: hér gaf að líta hátt í hundrað vændiskonur á eins og einum gatnamótum. Og "budget" hótelin, sem voru mörg, báru kindug nöfn; Blossom, Happy Hotel, Gay World... Davíð fór stórkostlega hjá sér, en Halldóra vildi bara komast með höfuðið á kodda og tók haltrandi á hækjum af skarið, upp tröppur Oxley Blossom hótelsins, höfðinu hærri en hórustraumurinn alltumlykjandi. Maðurinn í móttökunni vildi hinsvegar ekki kannast við að þar væru nein laus herbergi, ekki svona til lengri tíma. Þau veifuðu í nýjan leigubíl.

Hvað um það, nú eru ferðafélagarnir allir sameinaðir á ný á þessum skrýtna stað, Singapore, sem er lýst ástúðlega af heimamönnum sem "heimsins stærsta molli". Vísindaskáldsagnahöfundurinn William Gibson kallaði staðinn hinsvegar "Disneyland með dauðarefsingu" og báðar lýsingar eru nokk nákvæmar; hér eru allar jarðhæðir verslanir og allt er sérsniðið undir aðkomumenn en skringilega snyrtileg götumyndin ber merki um einhverja dimma undiröldu, eins og hluta hreingerningaræðisins hafi blætt inn á hin huglægu svið tilverunnar... En hér er frábært að versla, sötrandi frappochino milli sushi-bita, engin spurning.

ATH!: Senn líður hinsvegar að óvæntum aðskilnaði á ný, og ég vona að færslan hafi ekki verið svo ömurlega löng að fólk fari á mis við þetta aðalefni hennar: Fæturnir á Halldóru hafi verið í síauknu hassi allt síðan hún snéri ökkla á leið til Nepal. Nýjast greiningin er sú hún þjáist af liðbólgum sem eru fylgifiskur magapestar. Bæði hnén, ökklarnir og ný síðast mjaðmaliðirnir eru stokkbólgnir og ósamvinnuþýðir. Öll hennar tælandsdvöl hefur verið mörkuð þessum meiðslum og bæði ferðalög og athafnir afar erfið viðureignar. Hún getur ekki sofið á nóttinni fyrir verkjum svo dagarnir líða í þreyttu verkjalyfja móki, sem skemmir jafnvel sólbaðsmöguleikann. Því hefur hún ákveðið að flýta heimför og reyna að komast í íslenska jólasteik, í stað þess að eyða jólunum farlama á illa þrifnu hótelherbergi á Bali á meðan vinir hennar tækju dagsferðir um eyjuna.

Ég tel að þetta sé í fyrsta sinn sem halli á okkur íbúa far-away-istan í samskiptum við lesendur: Þið fáið dúndur jólapakka en við sitjum eftir snauð. Til hamingju þið, en djöfull er þetta skítt.

No comments: