Tuesday, September 30, 2008

GETRAUN!

Ferðalag er ótvíræður flótti frá grámyglulegu jórtri á atburðum og einstaklingum, hinni taktföstu hringrás uppsölu um vélinda hversdagsins. Það felur þó ekki í sér að ferðalag sé skilyrðislaus flótti frá leiðindum. Margar og langar eru dauðu stundirnar sem við eyðum í skröltandi mögum lesta, langferðabíla og flugvéla í þurrausnum félagsskap hvors annars, að ekki sé minnst á þrúgandi kvöldstundirnar í grátlega fábrotnum hostelskálum þar sem salerni og dýnur iða af örvöxnu lífi. Nokkrar leiðir eru okkur færar við að kítta í þessi ítrekuðu tóm milli áfangastaða:

Lestur,
spil,
tónlist,
leikir,
áflog,
og margt fleira.

Til að standa enn betur að vígi andspænis leiðindunum höfum við í þokkabót tekið til hendinni við sköpun, ofaná alla þessa afþreygingu og einhliða neyslu. Öll skrifum/teiknum við dagbækur, í mismiklu mæli og ofaná það skrifum við í eina bók sameiginlega. Sú bók er forsenda þessarar færslu.

Flestir léku einhverntíman þann leik í barnaskóla að skrifa ruglsögu í samvinnu við aðra, þar sem hver skrifaði eina setningu, en blaðið sem ritað var á var brotið þannig að maður fékk einungis að sjá síðustu setningu einsamla í algeru samhengisleysi þegar maður hnýtti við (nú eða jafnvel að maður fékk ekkert að sjá). Við uppfærðum hugmyndina eftir þessum lauslegu reglum:

- Hver skrifar eina setningu, þ.e. að næsta punkti (eina málsgrein sumsé).
- Sá skrifar svo ekki aftur fyrr en allir hinir hafa skrifað eina setningu.
- Taka skal tillit til alls sem á undan hefur komið (enginn texti falinn).
- Sagan lítur ekki ritstjórn nokkurs okkar: Það er bannað að reyna að hafa bein áhrif á hvað einhver annar skrifar.
- Heildarstefnu sögunnar má þó ræða að vild (en hver og einn hefur fullkomlega frjálsar hendur þegar kemur að honum).
- Hver skrifar eina setningu á dag (sú regla sem oftast hefur verið brotin...)

Í fyrstu vorum við verulega vongóð um að úr yrði bókmenntalegt stórvirki, en raunin er sú að afraksturinn er bersýnilega náskyldur fyrrnefndum ruglsögum grunnskólaáranna.

Nú ætlum við að birta söguna hér á blogginu í köflum, einn fyrsta hvers mánaðar (eða um það leyti). Og vegna umræðna á kommentakerfinu fyrir síðustu færslu, og til að blása einhverri spennu í þessa skitsófrenísku mótsagna-steypu, þá höfum við ákveðið að gera getraun úr fyrirbærinu:

Þeir sem giska á rétta röð höfunda, það hver á hvaða setningar ("1,5,9,13,..." sá fyrsti "2,6,10,14,..." næsti, o.s.frv.) fá óvænta glaðninga við heimkomu.
Aðeins eitt gisk verður tekið gilt frá hverjum, og það verður fyrsta gisk. Giskin skráist í kommentakerfi. Röð höfunda mun breytast í hverjum mánuði, því er alls til fjögurra verðlauna að vinna. Njótið vel (sagan er enn án titils):

-

Katla hneig niður og horfði vonlaus á máttvana fingur sína bera við blóðrauðan sjóndeildarhringinn. Guðjón hafði enn ekki hringt. Kannski myndi hún aldrei heyra rödd hans framar, kannski var hann endanlega búinn að gefast upp á því að elta hana uppi. Hún hafði skilið hjólið hans eftir við bátaskýlið, hann yrði ekki sáttur.
Hún velti sér á bakið, pírði augun mót logalitum skýhnoðrum á löturhægri siglingu yfir himininn og reyndi að átta sig á því hvernig hún hefði endað hér á meðan líf hennar fjaraði út í dökkum taumum. Katla furðaði sig á hvernig hún hefði getað lent í þessum aðstæðum miðað við það reglubundna líf sem hún hafði lifað fyrir aðeins þremur mánuðum. Áætlun hennar hafði verið afar einföld, afar léttvæg, miðað við fyrrum misgáfuleg uppátæki hennar. Þegar Guðjón pikkaði Kötlu upp í Hellinum tók hún fyrst eftir því hvað hann hafði sérkennilegt, en fallegt, orðaval og einbeitt augnaráð.
"Ég get ekki þyrmt þér ástin, þú skilur of mikið," er vissulega sérkennilegt orðaval. Líklegast það sérkennilegasta og jafnframt það óhugnanlegasta sem hann hafði sagt við hana á þessum þremur mánuðum. Fram að því augnabliki sem hún heyrði þau orð hans hafði hún haldið að hann myndi vernda hana, sama hvað. Katla, feimin að eðlisfari, hafði ekki vitað hvernig hún ætti að bregðast við aðdráttarafli Guðjóns; hún gat ómögulega litið undan.
Nú brosti hún, lokaði augunum og gafst upp...
Þremur mánuðum áður
Umferðarþunginn er alveg að fara með Kötlu er hún keyrir á gamla volvonum sínum í vinnuna. Rigningarskýin hrannast upp allt í kringum hana, stefnir í kaldan og blautan dag, hugsar hún með sér. Hún er fegin að hafa ekki enn selt volvoinn þrátt fyrir að vera orðin blönk. Það jaðrar auðvitað við veruleikafirringu að kvarta yfir ástandinu á Íslandi eins og komið er fyrir umheiminum, en aftur á móti var bara tímaspursmál hvenær flóðaldan skylli á þeim eins og öðrum, svo hún gat allt eins örvænt þá þegar.
Loks þegar hún kom, pirruð yfir heiminum, í vinnuna beið ekkert betra við þar sem yfirmaður hennar boðaði þau strax á fund og tilkynnti þeim að þetta yrði langur dagur og löng vika. Hún horfði í kringum sig á þreytuleg andlit samstarfsfólks síns og velti því fyrir sér hvort þau upplifðu líka nístandi tilgangsleysi þess að halda fyrirtækinu gangandi, hvort þau væru ekki löngu búin að átta sig á því að héreftir yrði engin von um hinn mikla gróða sem þaum var öllum lofað.
Katla andvarpaði og reyndi að beina huganum annað, til Sólveigar vinkonu sinnar sem hafði hringt í gær í uppnámi. Sólveig var að vísu maníusjúklingur í viðstöðulausu uppnámi og vinátta þeirra risti ekki djúpt frekar en aðrar jarðtengingar í lífi Kötlu, en í þetta skipti hafði hún allavega haft frá einhverju furðulegu að segja. Katla vissi hinsvegar ekki að furðuleg frásögn Sólveigar ætti eftir að hafa jafn afdrifaríkar afleiðingar fyrir hana og átti eftir að koma í ljós. Þær höfðu ekki talast við í nokkurn tíma á undan og var Kötlu farið að gruna að Sólveig væri horfin í eitt af sínum leyndardómsfullu ferðalögum.
"Þessi gaur sem ég sagði þér frá síðast, mannstu? hann bað mig að koma með sér og gat bara ekki hafnað boðinu, þótt ég megi engan vegin fara," sagði hún andstutt í símann.
"Ha? Ég hef ekki hugmynd um hvað þú ert að tala elskan, áttu við þennan vin hans Steins?"
"Nei vá, allt löngu búið með hann maður, ég er að tala um þennan Guðjón sem ég hitti á Hellinum um daginn," sagði Sólveig.
"En ég hélt þér hefði ekki líkað við hann, þú sagðir mér að hann væri svo undarlega órólegur eitthvað," svaraði Katla hálf annars hugar. Hún hafði svo fallist á að hitta þau í kvöld eftir þó nokkuð tiltal.
Guðjón var víst stórt númer hjá Arfi.ehf, eina samkeppnisaðila Íslenskrar Erfðagreiningar, og Sólveig var vongóð um að hann yrði landgöngubrúin þeirra af þessu sökkvandi skipi sem þær réru, því Arfur var í miklum vexti þvert á kreppuna. Hún var ekki að nenna að fara að vera þriðja hjólið á hálfgerðu stefnumóti Sólveigar en hún var að fara verða örvæntingarfull varðandi vinnuna sína og fann að hún þurfti að leita á önnur mið.
Katla hafði nefnilega enga löngun til að hætta að vinna og eyða þeim takmarkaða tíma sem við blasti með fjölskyldunni eða á flakki um heiminn eins og margir aðrir, rannsóknirnar hennar voru þvert á móti eitt af því fáa sem hélt Kötlu gangandi núorðið.
-
Já börnin mín, framhald síðar (Mýmargar innsláttarvillur verða afsakaðar, af ykkar hálfu. Takk.) ...

UPDATE: Til einföldunar: hver penni á einn lit af setningum.

10 comments:

Unknown said...

Þetta er án efa leiðinlegasta getraun sem ég hef séð.

Erla Elíasdóttir said...

Þetta eru doldið margar setningar... en til að byrja með lýsi ég Davíð höfund aðdraganda getraunarinnar.

smásálin Hafdís said...

Yep. Þessi færsla er klárlega Davíðs, annars gerir skáletrunin að textanum puntka og kommur óaðgreinilegar, sem er löstur á getraun sem þessari.

ferðalangur said...

Fyndið Sveinbjörn, því þú ert einmitt leiðinlegasta og eina manneskjan sem er bannað að taka þátt í henni...!

Neibaragrín.

En já, allt er þetta mín smíð (ég fæ það sífellt sterkar á tilfinninguna ég þyki óþolandi, einmitt helst þegar mér þykir ég sjálfur sniðugur).

En klukkan tifar, ef engin svör berast fyrir 30. hendum við verðlaununum í nepalskt fjallaskarð...

sukie said...

ok, ég ríð á vaðið hérna og giska af því mér finnst þetta frábær getraun! tek það samt fram að þetta er frekar út í bláinn...

rautt: Davíð
grænt: Áa
blátt: Halldóra
grátt: Nanna

fær maður svo e-ð að vita ef e-ð er rétt eða hvernig virkar þetta eiginlega?

venlig hilsen úr októbersnjónum

Erla Elíasdóttir said...

Ég segi: Davíð rauður, Halldóra blá, Nanna græn og Áa grá.

Misviss í minni sök, vissulega... byrjaði á Davíð og beitti útilokun eftir það. Þó er aldrei að vita nema hver stæli annars stílsnilld meðvitað, til að villa um fyrir þátttakendum?

Anonymous said...

Davíð: rautt, Nanna grænt, Áa blátt, Halldóra grátt

gott hjá ykkur að breyta kommentakerfinu.

Anonymous said...

Ég giskaði á það sama og sunna kristín, Davíð:rautt, Nanna:grátt Halldóra:blátt og áa:grænt

Anonymous said...

Ég vil bara trúa því að Áa sé rauð, því þá er hugmyndin að aðalsögupersónunni væntanlega ég, sem mér þætti ekki amalegt, því mér finnst svo gaman að vera aðalmanneskjan.
Annars hef ég ekki hugmynd um það, ég þekki ykkur hin ekki nógu vel.
Þetta er uppáhalds blókurinn minn.
Takk!
Katla

Ladybug said...

OK er að skoða þetta blogg í fyrsta sinn því ég var að fá linkinn (!?!!!) en verð að segja vei! Og frábær getraun...kannski dáldið löng samt, sérstaklega fyrir fólk með vott af athyglisbresti...:)