Sunday, September 28, 2008

L'attaque d'Islande!

Í Latakia, strandbæ Sýrlendinga. Ströndin sem við búum við er þó eiginlega of skítug til að njóta hennar, leiðinlegt.

Fyrst og fremst: Bílasprenging varð í Damaskus, drap 17 manns,
sem virðist þó ekki þykja stórmál á alþjóðastjórnmálaskalanum ef marka má fjölmiðlaumfjöllun. Vitum ekki meir, en förum líklega samt til Damaskus eftir, tja 5 daga eða svo.

Ég segi það og skrifa, það sem minnst verður saknað frá Íran verður líklega maturinn, enda fannst manni oft eins og aðeins væri um einn rétt að ræða. Fyrir utan ísinn reyndar, eiginlega besti rjómaís sem ég hef smakkað, svei mér þá. Íran, au revoir, pottþétt.

Sérlegar ástarkveðjur fær Esfahan. Eftir óttaslegna daga í menguðustu borg sem ég (sem hef btw komið til Peking) hef komið til var unaður að sleppa frá umferðinni í Tehran. Í Esfahan var fallegt og gott. Verandi ljóshærð og bláeygð öll, á suðrænan skala amk, erum við sívinsæl og var boðið í feeeeiitt partí með Smirnoff! Já lesendur góðir, við brutum lög í Íran.

Þriggja daga lestarferðin frá Tehran til Aleppo (í N-Sýrlandi, gegnum Tyrkland) var stórmerkileg upplifun á sjálfsviðhorfs-/ félagslega skalanum. Við vorum vinsælasta fólkið í lestinni, svo óheyrilega vinsæl að við gripum fljótlega til þess ráðs að læsa dyrum (tvær á litla klefanum) og opnuðum ekki nema virkilega væri farið að berja (landamæralögga eða slíkt).

Annars vegar var það Hr. Farsí-frasabók. Hann kunni ca. 5 orð og frasa í ensku en hélt þrotlaust uppi samræðum í gegnum frasabókina klukkustundum saman. Spurði Davíð m.a. hvort hann ætti ökuskírteini og hvort hann hefði meðferðis tollskyldan varning, ásamt öðru sem maður vill vita um samferðamenn sína. Við vorum bara of kurteis til að segja honum að HÆTTA AÐ BÖGGA OKKUR!

Hins vegar aðallestarstarfsmaðurinn, hann var þó ágætur og gaf okkur argentínskt te, Mate, Áu til mikillar gleði (þótt hún hefði fussað yfir því að hann blandaði það "vitlaust"). Svo var Nanna skömmuð fyrir að vera glyðrulega klædd fyrir framan alla Íranina í lestinni. Haha.

Sýrland

Byrjar frekar vel. Hér er allt absúrd ódýrt, sem gaf tilefni til delúx máltíðar með forboðna drykknum, bjór, fyrsta kvöldið. Svo er maður ekki neyddur til að vera með slæðu frekar en maður óskar. Þótt Sýrland eigi sér ýmislegt til ágætis er það ekki beinlínis í blóma lífsins og lifir töluvert á fornri frægð. Fyrir utan ódýran og góðan mat (falafel á 30 kr.!) er því helst að sjá rústir í þessu landi. Við erum búin að sjá aðeins of margar moskur.

Til verri vegar er þó að hér í Latakia er komin til sögunnar fyrsta leiðindapadda ferðarinnar, sem er einfaldlega kakkalakki sem býr í eldhússkápnum. Áa hljóp hetjulega á eftir honum um alla íbúð með Írans-Lonely Planet á lofti án árangurs. Niðurstaðan er engu að síður sú að Áa er hetja, við hin erum kjellingar og eymingjar.

-Halldóra

3 comments:

Unknown said...

Það gleður mig að heyra að afmælisgjöfin hennar Nönnu nýtist sem meira en bara lesefni :)

Erla Elíasdóttir said...

mér finnst gaman að lesa með giski á hvert ykkar skrifar.

smásálin Hafdís said...

Tek undir með Erlu. Sjálfri mér til hróss ætla ég að taka fram að hingað til hef ég undantekningalaust giskað rétt

(frasinn "ég segi það og skrifa" var algert give away í þessu tilviki. Bara Halldóra myndi skrifa það) Þetta er svona personal pref í apstrakt útgáfu. Legg til að næsta færsla verði nafnlaus og sá/sú sem giski rétt má síðan færa sig áfram um einn reit.

Annars er ég svo mikill dóni að ég vil fá frekari úlistingar á glyðrulegum klæðnaði Nönnu, eða öllu heldur, hvað þykir glyðrulegt þarna í austurvegi.

Hrósið fær svo Áa fyrir baráttuna við kakkalakkann.
-hh